Bændablaðið - 17.07.2014, Blaðsíða 24

Bændablaðið - 17.07.2014, Blaðsíða 24
24 Bændablaðið | Fimmtudagur 17. júlí 2014 Landsmót hestamanna var haldið á Gaddstaðaflötum á Hellu 30. júní til 6. júlí síðastliðinn. Hestakostur á landsmóti þótti með eindæmum góður, met féllu og áhorfendur hrifust. Hins vegar ákváðu veðurguðirnir að sýna flestar sínar hliðar og höfðu allnokkur áhrif á mótshaldið. Úrhellisrigning var framan af mótinu, einkum mánudaginn 30. júní og þriðjudaginn 1. júlí. Mótshaldarar þurftu að fresta keppnishaldi að hluta til þá daga, sem gerði það að verkum að mikið mæddi á hestum, knöpum og starfsfólki það sem eftir leið vikunnar. Ekki átti það síst við um kynbótasýningar en metfjöldi hrossa var hafði náð lágmörkum inn á mótið, alls 281 hross. Allt hafðist þetta þó fyrir rest og glöddu góðir hestar, gjörvilegir knapar og meteinkunnir áhorfendur á mótinu þrátt fyrir að rignt hafi alla daga mótsins nema fyrsta daginn. Um tíu þúsund áhorfendur mættu á Landsmót þegar mest var, þar af voru um fjögur þúsund erlendir gestir. Voru sumir þeirra orðnir nokkuð hraktir, einkum fyrri hluta vikunnar, í vatnsveðrinu. Aðstaða á Gaddstaðaflötum var hins vegar góð og nýttu gestir sér veitinga- og sölutjöld óspart. Vellirnir stóðust bleytuna ótrúlega vel sem sjá mátti á góðum árangri. Setningarathöfn Landsmóts hestamanna fór fram fimmtudaginn 3. júlí að viðstöddum um 5.000 gestum. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra setti mótið. Svo enn sé talað um veður var það með skaplegasta móti við setninguna. Um 300 fulltrúar hestamannafélaganna í landinu tóku þátt í hópreið við setninguna. Þrátt fyrir leiðindaveður náðist eins og áður segir góður árangur á mótinu. Bjarni Bjarnason og Hera frá Þóroddsstöðum settu þannig heimsmet í 250 metra skeiði á tímanum 21,76 sekúndum. Í 150 metra skeiðinu slógu Teitur Árnason og Tumi frá Borgarhóli Íslandsmetið en vegalengdina fóru þeir á 13,77 sekúndum. Þá fékk Spuni frá Vesturkoti fádæma einkunn í A-flokki gæðinga, 9,30. Þá fékk Hamingja frá Hellubæ heimsmetsdóm í flokki fjögurra vetra hryssa á mótinu, 8,54 í aðaleinkunn. /fr Landsmót hestamanna 2014: Frábær árangur þrátt fyrir vatnsveður Sleipnisbikarinn, sem er farandbikar og veittur sem heiðursverðlaun í ræktun stóðhesta, þykir jafnan eftirsóttustu verðlaunin á Landsmóti hestamanna. Að þessu sinni féll hann í skaut stóðhestinum Vilmundi frá Feti, en ræktandi hans er Brynjar Vilmundarson og eigandi er Karl Wernersson. Myndir / HKr. Við afhendingu á Sleipnisbikarnum. Á myndinni eru talið frá vinstri Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, Karl Wernersson, eigandi stóðhestsins Vilmundar frá Feti, og ræktandinn, Brynjar Vilmundarson.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.