Skírnir - 01.01.1981, Blaðsíða 12
10
PÁLL SKÚLASON
SKÍRNIR
gaum að því hugsanalífi sem bærist með þjóðinni. Við höfum
einblínt á ytra borð menningarinnar, fengist óspart við að rekja
ártöl og atburðarásir, segja sögur af alls kyns óáran og átökum,
að ekki sé minnst á endalausar ættartölur. Og þegar vel hefur
tekist til sýna sögur okkar ákveðin lífsviðhorf og verðmæti að
verki í þjóðlífinu, persónur sem dæmigerðar eru fyrir tiltekin
lífsmót og lífsmat, atburði og athafnir sem eru dæmigerð fyrir
tiltekna spennu eða mótsagnir í samfélaginu. En innra borð
menningarinnar, hvað við sjálf erum, hver sé staða okkar í ver-
öldinni, hvaða hugmyndir við höfum okkur til halds og trausts
og hvað við teljum okkur vita og skilja um heiminn, — að þess-
um atriðum og samhengi þeirra höfum við gefið lítinn gaum.
Viðhorfið til heimsins, sem frásagnarhefðin helgar, beinist ekki
að slíku samhengi liugmynda og lífsafstöðu, þekkingar og skiln-
ings, heldur að einstökum atburðum og persónum sem eingöngu
verða skiljanleg í sögum. Sá sem leggur frásagnarviðhorfið citt
til grundvallar hugsun sinni er blindur á það röksamhengi sem
heimspekin vill skýra. í eyrum hans er heimspekileg orðræða
þvættingur eða í skásta tilfelli mislukkuð tilraun til að segja
sögu af furðuverum sem kallast hugmyndir og rök — eða jafnvel
frummynd, skynsemi, heimsandi eða guð-veit-hvað.
Okkur er því ærinn vandi á höndum ef við viljum skýra og
skilja menningu okkar og hugmyndaheim og leita svara við
spurningum eins og þeirri hvers vegna það eru frásagnarmenn-
irnir fremur en fræðimennirnir sem mótað hafa menntalíf ís-
lendinga. Verkefni okkar er því tvíþætt: Við þurfum að skilja
bókmenntahefð okkar, sem virðist andsnúin heimspeki, en til
þess að geta það þurfum við að tileinka okkur heimspekilegan
þankagang og hætta að hugsa í frásögnum eingöngu. Með öðr-
um orðum: til þess að skilja þann hugsunarhátt og tjáningar-
máta sem einkennir menningu okkar verðum við að breyta
hugsunarhætti okkar og tjáningarmáta og þar með væntanlega
menningu okkar um leið.
Hér er komið að einu meginverkefni íslenskrar heimspeki, ef
við eigum yfirleitt að telja okkur þess megnug að tala um slíkt
fyrirbæri. Enginn, sem á annað borð fæst við lieimspeki á íslandi
eða á íslensku, kemst með góðu móti hjá því að takast með ein-