Skírnir - 01.01.1981, Blaðsíða 122
120 ÓLAFUR JÓNSSON SKÍRNIR
menntum beggja vegna víglínu svonefndrar formbyltingar, og
í Ijóðagerð verða þegar frá líður æ ógleggri skilin á milli hefðar
og nýstefnu í hugmyndum og brag. Þetta á auðvitað við um
Jóhannes úr Kötlum í og með og eftir Sjödœgru; sjálfur var
hann þátttakandi í formbyltingunni með Ijóðum sínum í Tima-
riti Máls og menningar á árunum 1945—54 og með ljóðaþýð-
ingum (Annarlegar tungur, 1948). Og það á við Snorra Hjartar-
son í síðari bókum hans — eftir að farin er að þrjóta heimvon
hinna fyrri ljóða til lands og þjóðar og sögu. Og þar í gegnum
heim „í hjörtu manna“ eins og annað skáld kvað og náskyldur
Snorra, Hannes Pétursson í Stund og stöðum.17 Þegar skáldið
í ljóðinu er orðinn einstæðingur í heimi nútíma, og slaknar á
háttum og rími. í Mjallhvítarkistunni, 1968, kemur fram hjá
Jóni úr Vör miklu dulari, margræðari, myndhverfari ljóðstíll
en áður, tjáning einkalegs tilfinningalífs sem Ijóð hans höfðu
ekki borið vitni um áður.
Eru þessir höfundar þá „módernistar"? Það veltur mest á því
hve rúmgott þykir henta að gera hugtakið. En að vísu finnst mér
hugmyndalíf og kveðskaparhættir í hinum seinni ljóðum Jó-
hannesar og Snorra, svo að alls ólík skáld og kvæði séu höfð til
marks, með öðrum hætti en hjá hinum yngri módernistum. Eftir
sem áður er í hinum formfrjálsu og nútímalegu ljóðum Snorra
á seinni árum hans fyrir að fara ítökum hefðbundins brags,
skáldmáls, hugmynda: uppistöðu lífsgilda ef ekki heillar heims-
myndar sem ljóðin freista þess þrátt fyrir allt að varðveita, við-
halda í áraun tímanna.18
Fróðlegustu þættirnir í bók Eysteins Þorvaldssonar finnst mér
að séu frásagnir hans af deilunum um atómskáldskapinn á árun-
um eftir 1950 (162—193) og aðdraganda þeirra og fyrri umræð-
um um skyld efni, einkum um myndlist, áratuginn á undan
(82—100). Býsna virðist orðið langt síðan þetta var! Eysteinn tel-
ur að í þessum umræðum og deilum hafi komið fram og tekist
á öfl íhalds og framsóknar í menningarefnum og pólitík; það
kemur heim við þann skilning hans á formbyltingu og módern-
isma sem fyrr var lýst, að nýjungarnar stafi af og lúti einhvers
konar vaxtar- eða þróunarlögmálum innan bókmenntanna
sjálfra: