Skírnir - 01.01.1981, Blaðsíða 23
SKÍRNIR
HEIMSPEKI OG FRÁSAGNIR
21
heimspekingurinn gera sér mynd af heiminum öllum eða í heild,
móta eina og samkvæma heimsmynd. Þá fyrst getur heimspek-
ingurinn sagt að hann viti og búi yfir visku; en þá er hann held-
ur ekki lengur „viskuvinur", fílósóf, heldur „vitringur", sófos
(eins og íslenska orðið „heimspekingur" segir réttilega).
Þessi hugsunarháttur, sem á rót sína að rekja til hinnar
myndrænu víddar frásagnarinnar, hefur sett drjúgan svip á
heimspekina frá öndverðu. Á nýöld verður hann til þess að
sjálfsvitund mannsins hlýtur algera sérstöðu með tilliti til ann-
arra þátta veruleikans, eins og Martin Heidegger hefur best
gert grein fyrir í ritgerð sem nefnist „Tími heimsmyndanna".8
Þar fjallar hann um það hvernig þessi viðleitni til að gera sér
í huganum mynd af heiminum verður til þess að gera huga
mannsins eða hugsun að undirstöðu heimsins. Að hugsa heim-
spekilega — og heimspekileg hugsun er einmitt æðsta form
mannlegrar hugsunar að dómi heimspekinga — verður það að
endurskapa heiminn í huga sér, og það verður því að lokum
hugurinn sjálfur sem myndar heiminn eins og við skiljum hann:
hugurinn ber heiminn uppi, heimurinn sjálfur verður hugar-
burður mannsandans í eiginlegri merkingu þess orðs, eða m.ö.o.
það verður mannshugurinn sem myndar merkingu alls í heim-
inum og merkingu sjálfs heimsins. Einstakar heimspekistefnur
eða skólar einkennast, hver með sínum hætti, af þessari við-
leitni til að mynda veruleikann (í merkingu sinni) samkvæmt
hugar-tökum mannsandans. Sú heimsmynd, sem við gerum okk-
ur, sýnir heiminn sjálfan, eða réttara sagt: utan heimsmyndar
okkar er ekkert sem við getum sagt um heiminn af neinu viti.
Þó að áherslan á hinn myndræna þátt hafi orðið ríkjandi í
heimspekinni verður snemma til hugsunarháttur sem miklar
hina tímanlegu eða sögulegu vídd hugsunarinnar. Sögulega séð
eru það kristnir heimspekingar á miðöldum sem leggja áherslu
á þessa vídd mannlegrar hugsunar. Eins og Biblían — Gamla
og Nýja testamentið — sýnir glögglega leggur gyðingleg-kristin
hugsun mest upp úr hinni tímanlegu vídd, þ.e. þeirri stað-
reynd að heimurinn á sér upphaf — þetta upphaf er Orðið sem
varð hold — og stefnir að ákveðnum endalokum — endurkomu
Frelsarans, tilkomu guðsríkis. Ef hin gríska heimspeki magnar