Skírnir - 01.01.1981, Blaðsíða 20
18
PÁLL SKÚLASON
SKÍRNIR
sem helst eiga að standast sub specie ceternitatis — frá sjónarhóli
eilífðarinnar — svo vitnað sé í Spinoza, sem er einn glæsilegasti
fulltrúi þessa sjónarmiðs. Afbrigði af þessu sjónarmiði er sú
skoðun, að heimspeki glími við tiltekin eilífðarmál: greinarmun
sálar og líkama, frelsi viljans, tilveru Guðs, grundvallarlögmál
tilverunnar og annað af því tagi.
Hins vegar höfum við svo það sjónarmið að heimspeki sé eða
eigi að vera söguleg fræðigrein, kenningar hennar eigi að hafa
tímanlega vídd, sýna röklega mótun hugmynda og skoðana
gegnum tíðina og hvernig rökvísi mannsandans hefur þroskast,
þekkingin aukist. Veruleikinn sem slík heimspeki vill hugsa er
verðandi, hann er breytilegur og dýnamískur. Markmiðið er að
smíða hugtaka- og kenningakerfi sem sýni okkur hvar við erurn
stödd á leið okkar gegnum lífið, hvað áunnist hefur, hvað bíði
enn úrlausnar. Slík heimspeki miðar að því að gera reynslu
manna skiljanlega, e.t.v. ekki endanlega heldur við tilteknar
sögulegar aðstæður. Samkvæmt þessu sjónarmiði eru viðfangs-
efni heimspekinnar ekki nein eilífðarvandamál, heldur miklu
fremur spurning um skilning, merkingu og tilgang sem sífellt
tekur á sig nýjar myndir.
Frá upphafi heimspeki eru þeir Parmenídes og Heraklítos
fulltrúar þessara öndverðu sjónarmiða. Röklega séð má hins
vegar með vissum hætti rekja þessi sjónarmið bæði til frásagnar-
hugsunar, eins og ég mun reyna að gera.
B. Ég hef hér að framan nokkrum sinnum minnst á það ein-
kenni frásagna að þær snúist um hið einstaka, fjalli um ein-
staka atburði og persónur við tilteknar aðstæður (atburði,
persónur og kringumstæður sem geta verið ímyndaðar eða
raunverulegar eftir atvikum). í stuttu máli sagt lýsir frásögn því
hvernig fólk bregst við tilteknum atburðum eða aðstæðum sem
upp koma, hvernig hugsanir þess og athafnir verða til að breyta
ástandinu og valda nýjum atburðum sem aftur þarf að bregðast
við og leiða því til nýrra athafna og svo koll af kolli. Frásögnin
dregur þannig fram í dagsljósið röð einstakra atriða.
Ef við viljum lýsa nánar þessu megineinkenni frásagna, þá
getum við sagt að það sé fólgið í því að mikla (fyrir sér) einstök,
raunveruleg eða ímynduð, atvik eða atburði með samspili ákveð-