Skírnir - 01.01.1981, Blaðsíða 80
78
MATTHÍAS VIÐAR SÆMUNDSSON
SKÍRNIR
fangadagskvöldi. Ganga hans er stefnulaus en samt telur hann
sjálfum sér trú um að hann eigi erindi einhvers staðar. Þessi
flækingur hefur ör í andliti sem orsakar að menn forðast hann
„því lýtið gerði hann sí glottandi, og þeir áttuðu sig ekki á því,
að þetta var ekki raunverulegt glott og að hann gat ekkert að
þessu gert“ (78—79). Hann er útlagi og hvarvetna er lokað á
Iiann dyrum; liann íær ekki einu sinni að búa í námunda við
öskuhaugana. Hann verður að lifa einn síns liðs án annarra
manna og veitist það erfitt: „Ef hann væri skepna en ekki maður
mundi það vera miklu auðveldara að vera einn“ (79).
Um síðir brýst maðurinn inn í búð til að ná sér í kerti. Á staðn-
um dettur honum í hug að fá sér eitthvað matarkyns en tekur
af tilviljun dós af grænum baunum sem hann síðar hendir. Orð-
sendinguna hér á undan skildi hann eftir kaupmanni og mann-
kyni til ígrundunar. Innbrotið má túlka sem táknræna upp-
reisn utangarðsmannsins gegn einsemd sinni og tilraun til að
ná sambandi við heim annars fólks. Mannlaus og myrk verslun-
in, baunadósin, staðfesta á táknrænan hátt að hann getur ekki
náð þessu markmiði sínu. Ganga hans og innbrot eru út í hött
og sambandsleysið algjört. í lok sögunnar segir:
Hann var kominn heim, búinn að kveikja á kerti, skalf af kulda og hrúg-
aði að scr tuskunum. í huganum sá hann kaupmanninn, þennan virðulega,
makráða góðborgara: um morguninn mundi hann koma grunlaus ofan stig-
ann, sléttur og strokinn úr glóðvolgu bólinu, stanza við hurðina og taka mið-
ann og lesa hann, lesa hægt og aftur og aftur, ræskja sig og góna eins og
fiskur, stíga út á tröppurnar og standa þar lengi, fatta ekkert /.../. Þá tísti
hann af hlátri og tennumar glömruðu, — glömruðu og glömruðu, þangað til
hann datt útaf og sofnaði. (82—83)
Getur nokkuð grátbroslegra en mannlífið? Þessi beiski hlátur
útlagans rís af botnlausri þjáningu þess sem upplifað hefur
himinhrópandi fáránleika tilverunnar; kaldhæðnin er hans
eina leið til að kikna ekki undir merkingarleysinu og farast.
Alexander Blok sagði eitt sinn að öll næmustu og tilfinn-
ingaríkustu börn þessarar aldar væru haldin sjúkdómi sem hann
nefndi „íroníu“ eða kaldhæðni. Þennan sjúkdóm kvað Blok
stafa af upplausn sálarlífsins og einkennast af yfirþyrmandi
hlátursköstum sem þróuðust úr spottandi ögrun í uppreisn og