Skagfirðingabók - 01.01.1968, Side 28
SKAGFIRÐINGABÓK
hestar undir kláfum, eftir því hve langt þurfti að fara með áburðinn.
Það tók langan tíma að flytja á allt túnið heima. Ef tíð var hagstæð,
var unnið að þessu dag eftir dag svo vikum skipti, en ég taldi tímann,
hvenær vallaráburðinum yrði lokið, því að teyma á völl fannst mér eitt
af því allra leiðinlegasta, sem ég var látinn gera.
Ég hef hér að framan drepið á það helzta, sem ég var látinn gera
framan af uppvaxtarárum mínum vor, sumar og haust. Við það mætti
bæta alls konar snúningum, svo sem að sækja og reka bæði kýr og
hesta, og alls konar sendiferðum. Þótt mér væri snemma haldið til
starfa og gæfist oft lítill tími til leika, var þess vandlega gætt, að ég
hefði nægan svefn og hollt og gott viðurværi. Tel ég engan efa á, að
þessi vinna átti sinn þátt í að herða mig og stæla og gera mig að dug-
andi manni þegar á unglingsárum mínum. Það studdi einnig að þessu,
að mér varð snemma metnaðarmál að fylgja vinnumönnum föður míns
til ýmissa verka, sem mér voru ekki ofvaxin. Kaus ég þá helzt sem
samverkamenn eldri menn, sem farnir voru að gefa sig við vinnu. Með
því að læra af þeim og reyna mig við þá í laumi, fór mér snemma
mikið fram. Ég sló þannig í allmörg sumur með Jóni Eiríkssyni, vinnu-
manni föður míns. Við höfðum spilduslátt og slógum spildur þvert
yfir engjastykkin hlið við hlið. Ég minnist þess enn, hve ég var glaður
og ánægður með sjálfum mér, þó að ég léti ekki á því bera, þegar svo
var komið, að minn hluti af spildunni var orðinn engu óríflegri en
nafna míns. Við allt slíkt óx mér bæði áhugi og þróttur til að auka
afköstin.
Ég fékk líka snemma það orð á mig, að ég væri áhugasamur við verk,
þó ungur væri, og sparaði mig ekki. Það var siður föður míns, meðan
túnasláttur stóð yfir, að mæla út 15 faðma breiðar spildur þvert yfir
túnið handa hverjum sláttumanni. Voru sett niður prik eða hælar til
aðgreiningar. Þegar ég var kominn á þann aldur, að líklegt þótti, að
ég gæti hangt á lélegustu sláttumönnunum, fékk ég útmælda spildu
eins og aðrir frá föður mínum. Mér er enn í minni kappið, sem í mér
var að verða ekki allra síðastur. Var það svo, að ég gaf mér öðru hvoru
ekki tíma til hvíldar að loknum máltíðum, en fór þess í stað að slá
spilduna. Það var á þessum árum, sem Sigmundur bóndi Andrésson á
Vindheimum hitti mig við slátt suður á túni. Hafði hann síðar orð á
26