Skagfirðingabók - 01.01.1968, Qupperneq 83
SUÐURFERÐIR OG SJÓROÐRAR
hálfgerður fáráðlingur, mest fyrir hvað hann heyrði illa, og varð það
einnig til þess að hann lærði aldrei rétt mál. Nú eins og ætíð endra-
nær var lagt upp með sólbjartar vonir um fjörugt líf og fulla pyngju.
Þegar vestur á Vatnsskarðið kom, náðum við sex manna hóp, sem
einnig var á suðurleið. Voru þeir úr Blönduhlíðinni og Hólminum.
Var Stefán Jónsson frá Völlum, bróðir Sölva smiðs á Sauðárkróki,
formaður fararinnar, frískleika maður og góður félagi. Talaðist svo til
með okkur að gera samsteypu úr hópunum. Héldum við svo áfram
vestur fjallið, og var oft brosað að orðfæri Stjána, einkum þótti þeim
hann sktýtinn, sem ekki þekktu hann áður. Þegar við komum á brún-
ina fyrir ofan Botnastaði, leizt okkur ekki meira en í meðallagi á
niðurgönguna, því öll hlíðin var undir flughála hjarni, og leður-
skórnir á fótum okkar voru eins harðir og svellrunnið grjótið, sem
við stóðum á. Var því ekki um annað að gera en renna sér niður á
stöfunum, en tveir höfðu svo lélega stafi, að þeim var ekki treystandi.
Seffu þeir því gumpinn á hart hjarnið og létu þannig kylfu ráða kasti,
hvernig fara mundi. Allir komumst við þó ómeiddir niður, en aftur-
endinn á þeim, sem ekki brúkuðu stafina, þurfti lækninga við hjá
kvenþjóðinni á Botnastöðum.
Þaðan og vestur í Víðidal bar ekkert sögulegt til tíðinda annað
en það, að þegar við komum að Miðhópi, sér Stjáni lítið svart timbur-
hús, sem byggt var yfir bæjarlækinn. Kallar hann þá upp og segir:
.JSJei, lítil kirkja." Hann hafði aldrei séð önnur timburhús í sveit en
kirkjur. Þetta hús var kornmylla. í Víðidalnum gistum við í Galtar-
nesi, vorum kátir og fjörugir, basði innbyrðis okkar á milli og við
heimafólkið. Við ráðgerðum að verða duglegir daginn eftir og ná
að Melum, en það fór á annan veg.
Morguninn eftir vöknuðum við á undan hröfnunum. Var þá veður
frosthart, glaða tunglsljós og bezta gangfæri.
Sjóndeildarhringurinn í Galtarnesi er þannig, að ekki sér nema stutt
norður eftir, þar til komið er nokkuð upp í hálsinn eða upp undir
brún. Nú með því að veður var gott, héldum við glaðir og öruggir sem
leið liggur upp hálsinn. En þegar ofarlega kom, sáum við sótsvartan
hríðarmökk í norðri, sem með hamförum þeystist hærra og hærra í
loft upp og í áttina til okkar, og innan stundar var skollin á okkur sú
6
81