Skagfirðingabók - 01.01.1968, Side 85
SUÐURFERÐIR OG SJÓROÐRAR
okkur því saman á göngu nafna míns. Þar skiptum við okkur aftur
þannig, að efsti maður var á göngu Stefáns, en hinir allir í röð þar
fyrir neðan, og var ég nú neðstur.
Ekki var ég búinn að ganga lengi, þegar rofaði örlítið til. Sá ég þá,
að ég var staddur á lágu mó- eða melbarði, og um leið þóttist ég sjá
móta fyrir smáþústum á stangli fyrir neðan barðið. Virtist mér helzt,
að þetta líktist skítarein á túni. Þessi sýn stóð ekki lengi yfir, því á
sömu stundu skall aftur yfir sama góðgætið. Fannst mér samt réttast að
rannsaka, hvað þetta væri. En þegar við hópuðum okkur saman,
vantaði efsta manninn, og heyrðum við ekkert til hans, þó við hóuðum.
Nú þótti okkur vandast málið. Ef við leituðum að manninum, var
viðbúið, að við fyndum ekki reinina. En ef við leituðum að reininni,
þá vorum við búnir að tapa manninum. En á sömu stundu afréðum við
að leita mannsins. Fundum við hann eftir stutta stund. Var hann þá
búinn að taka aðra stefnu. Því þegar rofaði, sem áður er getið, sá hann
harðspora á gamalli fönn, fór að rekja sporin, en með því tapaði hann
sambandi við sinn næsta mann. Maður þessi var úr Blönduhlíðinni,
og mig minnir, að hann héti Jón og væri frá Flugumýri. Nú þegar
hann var fundinn, var mér falið að reyna til að hitta reinina eða það,
sem ég hélt vera rein. Hafði ég litla von um, að það gæti lánazt, því
nú varð að sækja því nær beint í veðrið og því vont að verja á sér
augun, sem þá var betra að hafa í lagi, eins og nú stóðu sakir. Lögðum
við samt á stað í halarófu, sem einatt var vermanna siður. Okkur
sóttist vonum framar móti hríðinni, og eftir nokkra stund koinum við
beint á reinarenda á sléttum bala. Að mér skyldi heppnast þetta, get
ég alls ekki þakkað ratvísi minni, heldur mikið fremur tilviljun. En
hvað um það. Nú vorum við þó komnir á tún á einhverjum bæ. En
hvar var nú bærinn? Það kostaði nokkra snúninga að finna bæinn,
samt heppnaðist okkur að vinna bug á þeirri þrautinni líka. Urðum
við fegnari en hér verður frá skýrt, því þó að þessi leið neðan frá
Galtarnesi væri ekki löng, þá er ég samt viss um, að hún skilur eftir
djúp spor í meðvitund okkar allra, sem hér eiga hlut að máli og enn
eru á lífi.
Bær þessi hét Vatnshorn. Voru þar fyrir sex vermenn, sem komu
þangað kvöldið áður. Á bæ þessum var tvíbýli, og bjuggu bændurnir
83