Skagfirðingabók - 01.01.1968, Page 95
SUÐURFERÐIR OG SJÓRÓÐRAR
fiskaðir, tálgaði hann spýtuna frá sér, eins og líf lægi við. En þegar
honum þótti við léttir á vatninu, massaði hann með mestu hægð upp
að bringu sinni, fór síðan heim í bæ og lét okkur ekki sjá sig, það sem
eftir var dagsins.
Snemma á fyrstu vertíðinni tókum við sem oftar salt í Keflavík.
Einnig var þar Ingveldur frá Njarðvík, sú hin sama, sem fyrr er getið.
Bað hún okkur um far inneftir, og var það vitanlega auðfengið. En svo
er háttað lendingu í Tjarnarkoti, að inn í landið gengur ca. 40-50
faðma langt vik með klettaklungri til beggja hliða. Þvert yfir mynnið
á viki þessu liggur þrepskjöldur, sem er þvínær upp úr sjó, þegar
lágt er, þó lónið fyrir innan sé í mitt læri eða klof. Inn þetta lón er
leiðin upp í lendinguna. Nú þegar við komum með saltið og þá
gömlu, flaut ekki yfir þrepskjöldinn. Urðum við því að leggja skipinu,
þar til að félli. En nú vandaðist málið, því eftir var að koma Ingveldi á
þurrt land. A skipinu voru þrír eða fjórir menn, sem hún þekkti. Vildi
hún láta einhvern þeirra bera sig í Iand, en þeir færðust allir undan því
og kváðust ekki treysta sér til þess. Bauð ég henni þá, að ég skyldi reyna
til að bera hana, ef hún þyrði að eiga það á hættu. Kvaðst hún óhikað
þora að láta mig bera sig og bætti við um leið: „En ef þú missir mig
í lónið, skal ég láta þig gjalda þess, meðan ég næ til þín, en ef þú
kemur mér þurri á land, vil ég aftur á móti reyna til að láta þig njóta
þess á einhvern hátt." Þetta mátti heita, að teflt væri á tvær hættur,
því botn lónsins var þakinn þangi og þara, var hann þess vegna flug-
háll, en grjóthöið leðurbrók var ekki heppileg flík fyrir þá, sem ekki
máttu missa mikið af liðlegheitum göngutólanna. Samt gekk þetta
ferðalag vel og var kella mér þakklát fyrir, enda átti ég það skilið, því
ég er viss um, að það hafa verið þau styrkustu faðmlög, sem ég hef
boðið nokkurri stúlku. Ætíð þegar ég kom að Njarðvík eftir þetta, átti
ég víst kaffi hjá Ingveldi. Var það ávallt borgun fyrir sjóferðina inn
lónið. Af þessu ferðalagi með Ingveldi í fanginu varð ég frægur maður
meðal Njarðvíkinga, og ég hygg, að fáir af þeim hefðu viljað vinna
það sama til faðmlaganna.
Áður en ég greini frá fleiri viðburðum, vil ég geta þess, að Arin-
björn var kominn nær sextugu, fyrst þegar ég þekkti hann. En svo var
hann liðugur, að hann gat tekið nál upp af gólfinu með munninum
93