Skagfirðingabók - 01.01.1968, Qupperneq 96
SKAGFIRÐINGABÓK
og haft höndur fyrir aftan bak. Einnig var hann svo glíminn, að hann
var talinn jafnoki Jónasar sterka í Keldudal, ennfremur jafn honum til
sláttar.
Næst vil ég lítillega lýsa svefnlofti okkar tíu sjómanna. Það var yfir
tveim stofum, hjónastofunni og annarri til. Úr þeim stofum gengu tvö
ofnrör upp í gegnum okkar verustað. Rúm voru fimm í loftinu og
því tveir menn í hverju þeirra. í landlegum kom ekki ósjaldan fyrir,
að við loftbyggjendur fengjum heimsókn af hinum, sem annars staðar
sváfu. Lenti þá oft í ryskingum og það stundum svo, að við lá miðux
góðum afleiðingum. Vanalegast kom Arinbjörn upp, þegar hann heyrði
hreyfingarnar niður, en það var aldrei til annars en hvetja menn til
sókna og varna.
Þegar Kristínu húsfreyju þótti helzt til ógætilega stigið á gólfið,
kom hún upp í stigann og skipaði að hætta þessum látum. Sló þá
öllu í dúnalogn. En þegar hún var farin, var vanalegt, að Arinbjörn
segði: „Haldið þið áfram, strákar."
Ekki var það nema fyrst, sem ég mátti taka verulegan þátt í þessari
glaðværð, því þegar nokkuð kvað að hreyfingunum, var vani Arin-
bjarnar að kalla: „Stebbi minn, passaðu annað rörið, ég ætla að passa
hitt." Upp á þessu tók hann ekki fyrr en eftir að ég bar Ingveldi inn
lónið. Stundum kostaði töluverðar stimpingar fyrir okkur Arinbjöin að
verja rörin, ef við á annað borð vildum reynast trúir köllun okkar.
Þess var fyrr getið, að þegar ég kom fyrst til Arinbjarnar, réði ég
mig upp á hundraðatal. Fékk ég þann vetur 700 til hlutar og þannig
60 kr. kaup. Þá var almennt kaup 40-50 kr. Upp frá þessu var vertíðar-
kaup mitt ætíð 60 kr., hvort heldur vel eða illa fiskaðist.
Oft var það, þegar ég kom suður nokkru fyrir vertíð, að ég var
sendur inn í Reykjavík til þess að útvega sjómenn á þennan og þennan
bæinn. Til þess þurfti ég að sitja fyrir vermönnum, þegar þeir voru að
koma. Hafði ég stundum af þessu dálitlar tekjur, því mér voru borgaðar
2 kr. fyrir stykkið. Fékk ég þannig einu sinni 14 kr. Aldrei réði ég
menn nema á þau heimili, sem ég þekkti að góðu, en mennina var
ekki eins gott fyrir mig að velja.
Einn veturinn þurfti Arinbjörn að senda inn í Reykjavík eftir 4000
kr. í peningum, sem hann átti þar á vöxtum og meira til. Peninga þessa
94