Skagfirðingabók - 01.01.1968, Side 110
SKAGFIRÐINGABÓK
mín þá hjá foreldrum sínum, en faðir minn mun hafa verið vinnu-
maður hjá þeim, þar til hann giftist móður minni, en þá fluttu þau -
afi og amma, pabbi og mamma og dætur hennar tvær - að Horn-
brekku og bjuggu þar, þar til þau fluttu að Reykjum á Reykjaströnd.
Við fjögur systkinin, sem komumst til fullorðinsára, vorum öll fædd
í Hornbrekku.
Mikil harðindi voru á Norðurlandi árin 1887 og 1888. Var ís fyrir
landi, svo engin skip komust inn á Eyjafjörð, ekkert um kornmat og
hart í búi. Ekki man ég eftir hungri, en föðurbróðir minn Baldvin, sem
sagði mig léttlynda og káta, hermdi eftir mér, að ég hefði heimtað
„daut" (graut) og „bat" (mat) og ekkert svar fengið. Hefði ég orðið
illreið og kallað hátt: „Demme baadaut". Ekki skildi ég auðvitað, að
ekki var um neinn mat að ræða.
Faðir minn, sem var góð skytta og veiðinn bæði á sjó og landi, sá
fátt til ráða. Hafði hann sjálfur hvorki haft vöxt né viðgang í æsku
fyrir hungri og harðæri, þótti illt, ef sama henti börn sín og afréð að
flytjast vestur í Skagafjörð í þeirri von, að þar mundi betra til bjargar.
Ekki man ég mikið af því ferðalagi. Við vorum víst tíu í förinni:
afi og amma, pabbi og mamma, hálfsystur mínar, 15 og 13 ára, Jó-
hannes bróðir minn 7 ára, Ásbjörn 5 ára, ég hátt á þriðja ári og Jón
átta mánaða.
Við fórum víst landveg á hestum, - ég held þó, að faðir minn og
Friðvin Ásgrímsson, frændi hans, hafi farið sjóleiðis, en Friðvin,
Margrét kona hans og börn fluttu líka að Reykjum, og bjuggu þeir
frændur þar í tvíbýli, þar til við fluttum til Ameríku 1894
Kalt var veður, dimmt uppi yfir og él úr lofti, er lagt var af stað úr
Ólafsfirði til Skagafjarðar, en við munum hafa verið vel búin, svo
hvorki sakaði kuldi né él. Reiðhestar hafa víst ekki allir verið gæðingar
- amma mín reiddi mig á einhverri bikkju hef ég alltaf haldið, því í
þúfnaskorningum og móum rétt eftir að lagt var af stað, hnaut klárinn,
og við ultum báðar af baki. Það var þó ekki skaðlegt, og hefur amma
mín eflaust fært það heim, að „fall væri fararheill."
Á leiðinni var komið við í Gröf á Höfðaströnd. Þegar þangað kom,
hafði Ásbjörn bróðir minn orð á því, að hann væri svangur og lúinn,
syfjaður og þreyttur. Þar bjó föðuramma mín Hólmfríður. Var hún
108