Skagfirðingabók - 01.01.1968, Page 113
FRÁ REYKJASTRÖND TIL VESTURHEIMS
varð það oft hlutskipti hennar að kenna börnum að lesa, bæði á íslandi
og eftir að hún flutti vestur. - Seinasta veturinn á Reykjum var Jó-
hannes bróðir minn sendur að Þverárdal í Húnavatnssýslu til ensku-
náms hjá Brynjólfi Bjarnasyni.
Tveir bræður mínir fæddust á Reykjum: Skúli Bergvin, hann veiktist
af kíghósta á fyrsta ári, sem svo snerist upp í tæringu, og dó hann
tæpra fjögurra ára, og Halldór, sem var ársgamall, þegar farið var til
Ameríku, og dó hann rétt eftir að við komum hingað.
Það mun hafa verið rúmum tveimur árum áður en við kvöddum
ísland, að um vorið rak ís inn á Skagafjörð. Hafði veturinn verið kaldur
og harður. Var það happ, að þessi ís rak á undan sér torfu af höfrung-
um inn í litla vík, sem kölluð var Sandvík, rétt norðan við Reykjabæinn,
og komust þeir ekki út úr víkinni vegna íssins. Var þeim slátrað þar
svo hundruðum skipti. Var þetta hin mesta og bezta björg, og flýtti
þetta happ efalaust fyrir ferðinni til Ameríku.
í Ameríkuferðina var lagt upp snemma í júní 1894. Á Sauðárkrók
dvöldum við í viku, áður en lagt var á sjóinn. Þar bar margt nýstárlegt
fyrir augu okkar krakkanna. Sá ég þar í fyrsta sinn mjög skrautlegan
fugl. Rigsaði hann rembingslega og galaði hátt, - það var sem sé hani.
Er lagt var upp frá Sauðárkrók, slóst í för með okkur Baldvin Hall-
dórsson, sem ekki hafði ætlað að fara, fyrr en hann var að kveðja bróður
sinn, sem kominn var um borð. Baldvin hafði komið með ársgamla
dóttur sína, sem hann ætlaði að senda móður sinni, en foreldrar hans,
Halldór og Ingibjörg, fluttu til Ameríku í „stóra hópnum" 1876 og
settust að á Halldórsstöðum við íslendingafljót - en börn þeirra sex,
sem þá urðu eftir á íslandi, komu öll til Kanada nokkru seinna. Stúlka,
Elín Jónsdóttir frá Hólkoti á Reykjaströnd, var fengin til að líta eftir
dóttur Baldvins á leiðinni, því móðir mín var með sinn dreng og þurfti
að sinna honum.
Á skipi, sem Thyra hét, fórum við til Skotlands og á Allan-línu-skipi
til Quebec, þaðan á eimlest til Winnipeg, þar sem tekið var á móti
okkur af móðursysmr minni Margréti og Guðjóni Thomas manni
hennar. Komst ég þar fyrst í kynni við „vesturheimsku": frænka mín
og maður hennar bjuggu í tvílyftu húsi við Kate stteet, Á móti húsinu,
hinu megin við strætið, var sex íbúða bygging. Eg sá einhvern úti á
111