Skagfirðingabók - 01.01.1968, Síða 114
SKAGFIRÐINGABÓK
svölum á efri hæð hússins, og ég horfði með undrun á þessa byggingu,
ég hafði aldrei séð bæ með sex burstum og því síður með dyr á hverjum
gafli. Svo heyri ég allt í einu kallað: „Halló!" Ég skima í kring, en veit
ekkert hvaðan þetta hljóð kemur eða hvað það þýðir. Aftur er kallað
halló! Ég lít yfir á strætið, sé þar hvítklædda veru með barðastóran
stráhatt, og er blár borði utan um kollinn og langir endar lafandi aftur
úr. Hún ekur á undan sér hvítri barnavöggu á hjólum. Hún horfir á
mig brosandi, svo ég þykist vita, að hún hafi verið að ávarpa mig - og
anza heldur dræmt: „Halló!" Þá lifnar yfir henni, og hún heldur áfram
glaðlega: „Lifir þú hér?" Ég fer að horfa í kringum mig og hugsa sem
svo: Nú ekki er ég dauð, því hér er ég, og anza: „Ja-á." Þá segir hún:
„Ég lifi hjá Mrs. Jones, en vinn hjá Mrs. Arnold - en hún lifir í næstu
dyrum við Mrs. Benson." Ég varð alveg rasandi! Hvernig gat hún lifað
í einum stað, unnið í öðrum stað, og svo lifir einhver í dyrunum! Ég
leit yfir í allar sex dyrnar eftir þeirri, sem átti að lifa í dyrunum, en
sá enga lifandi veru. - Hún heldur áfram: „Ég heiti Jennie. Hvað heitir
þú?" Mér fannst nú helzt, að hún mundi ekki skilja, þó að ég segði
henni nafnið mitt, en hún var svo saklaus og alúðleg, að ég sagði svona
heldur dræmt: „Ég heiti Sigríður." En þá segir hún: „Ójá, mamma mín
hé: Sigríður, en frænka mín hét Guðríður." Aumingja stúlkan, hugsa
ég - og segi: „Eru þær dánar, mamma þín og frænka þín?" „Nei, nei!
Mamma heitir bara Sera núna." „Er þá pabbi þinn prestur?" spyr ég,
því ég hafði heyrt pabba minn segja frá einhverjum karli, sem hafði
heilsað prestsmaddömunni og sagt: „Sælar verið þér, séra Valgerður."
Hún svarar: „Uss nei, nei! Pabbi minn er ríl ísteit (fasteignasali), og
Gudda frænka er ekki dáin, hún heitir bara Gertie núna." Svo fannst
henni nú víst nóg komið, fer af stað, en kallar um leið: „Gúdd bæ Sera."
Mér verður bilt við, hélt henni hefði orðið illt og væri að kalla á
móður sína, en ég sá engan þar. Seinna skildist mér, að hún hafði verið
að kveðja mig í flýti og gefið mér fallegt enskt nafn, en ég var bara
íslenzkur emígrant og skildi ekkert í þessum ósköpum. Svo komst
ég nú samt í skilning um það seinna meir, að fólk lifði hér og þar,
„borðaði sig sjálft" og ynni annars staðar!
Dvölin í Winnipeg var ekki löng. Var farið til Selkirk, en frá Selkirk
fórum við niður Rauðá og norður Winnipegvatn á smá dráttarbát, er
112