Skagfirðingabók - 01.01.1968, Síða 125
EINAR Á REYKJARHÓLl
Kristín lézt frá þremur börnum ungum: elzt var Sigurbjörg, fædd
í Garðsvík 3. apríl 1836, þá Rósa, fædd í Pálsgerði 2. desember 1838,
en yngstur var Einar, sá er hér verður frá sagt í þættinum, fæddur á
Nolli 6. marz 1843. Hann var því svo ungur, er móðir hans féll frá,
að einungis óljósa mynd hennar hefur hann geymt í hugskotinu síðar
á ævi, ef þá nokkra. Við föður sinn og systur hafði hann ekki heldur
langt samneyti, því Sigurður treystist ekki til að sjá börnum sínum
farborða af eigin rammleik og kom Einari þriggja vetra gömlum í
fóstur að Skriðulandi á Galmaströnd, til systur sinnar Rósu og manns
hennar og bónda þar, Stefáns Guðmundssonar. Árið eftir, 1847, var
Rósa send tökubarn að Sigluvík, Sigurbjörg varð um kyrrt á Nolli,
en Sigurður fluttist að Fagrabæ, snertuspöl innar á Kjálkanum, og
varð ráðsmaður ekkjunnar Rósu Stefánsdóttur, sem bjó þar með sex
ungum börnum. Hún hafði séð á bak manni sínum haustinu fyrr í
mislingafaraldrinum, sem þá herjaði. Gegndi Sigurður ráðsmennsku í
Fagrabæ samfleytt til 1860, er hann gerðist vinnumaður á Gautsstöðum,
hjá Benedikt hreppstjóra Árnasyni. Og iauk nú alltíðum vistaskiptum
hans um dagana, en - þó undarlegt kunni að sýnast, þar eð Sigurður tók
nú fast að reskjast og hafði aldrei ævintýramaður verið - beið hans á
Gautsstöðum óvænt leikbragð örlagagyðjunnar: hann batt þar kynni
við kornunga vinnustúlku, Onnu Sigríði Halldórsdóttur, og stóð þann
4. september 1864 í annað sinn fyrir altari Svalbarðskirkju með brúði
sér við hlið. Tæpu ári síðar, 14. ágúst 1865, eignuðust þau dóttur,
sem hlaut í skírn nafnið Kristín Ingibjörg.
Sigríður Halldórsdóttir var fædd 31. marz 1845 á Vöglum á Þela-
mörk, og aldursmunur þeirra Sigurðar því 40 ár. Hún var dóttir Hall-
dórs Ásmundssonar, fyrr bónda á Mógili á Svalbarðsströnd, og seinni
konu hans Sólborgar Jónasdóttur frá Einarsstöðum í Kræklingahlíð.
Sigríður ólst upp á Hlöðum, en réðst sextán ára gömul í vinnumennsku
að Mið-Samtúni í Kræklingahlíð og árið eftir að Gautsstöðum.
Sigurður Einarsson fékk ekki lengi ornað sér við nýja kvonfangið,
hann kvaddi þennan heim á Gautsstöðum 19. júní 1866, á sextugasta
og öðru aldursári. Sigríður giftist síðar manni, sem Guðmundur hét
Jósúason, og eignuðust þau afkomendur.1 Kristín Ingibjörg, dóttir
1 Sjá Svalbarðsstrandarbók, bls. 220.
123