Skagfirðingabók - 01.01.1968, Side 129
EINAR Á REYKJARHÓLI
25. janúar 1860. Fór Rósa sama árið í vinnumennsku að Svíra, þaðan
í Vagla.
Á 19. öld var talsvert um flutning fólks'í Skagafjörð úr næstu sveit-
um norðan Öxnadalsheiðar. Og skipaðist nú svo málum Einars og
Rósu, að þau vistréðust í Skagafjörð, að Valadal til Péturs bónda
Pálmasonar og konu hans Jórunnar Hannesdóttur, eru orðin þar
heimilisföst, þegar Hannes prestur í Glaumbæ húsvitjar í sóknum
sínum í marz og apríl 1868, þá krotar hann við nöfn þeirra: „Nýkomin
hingað í sveit."
Árið, sem Einar fór byggðum í Valadal, var þar sextán manns í heim-
ili og hvergi fjölmennara á bæ í prestakallinu. Þar ríkti að sögn mynd-
arskapur og táp, gestrisni húsbændanna rómuð, iðkaðar hestamennsku-
íþróttir og geymd lífgandi lögg í kút. Má ætla, að Einari hafi fallið
þar bærilega.
Á þessum árum voru börn Péturs og Jórunnar enn á bernsku- og
æskuskeiði (hópur þeirra átti reyndar eftir að stækka), eldri bræðurnir
þó komnir til nokkurs þroska. Bar nú svo við dag einn í Valadal, að
bleyða, sem Jórunn húsfreyja átti og lét sér annt um, varð breima. Mátti
ekki við svo búið standa, en vandhæfi á, því högni var hvergi nær en
á Fjalli í Sæmundarhlíð. Var til þess mælzt við þá bræður, að þeir sæktu
högnann, en þeir færðust undan, þótti lítil frægð í slíkri sendiför. Nú
var leitað til Einars, og tók hann vel bón húsfreyju, reið út að Fjalli,
sótti köttinn og flutti heim með sér í Valadal. Þeir bræður höfðu
kattarsókn þessa í flimtingum við Einar, sem þá túlkaði málstað sinn,
og jafnframt að nokkru lífsreglur sínar, í vísu, hinni elztu, sem eftir
hann hefur fundizt. Þótt ekki sé hún margbrotin, má af henni Ijóst
vera, að eitthvað hefur hann látið eftir sig liggja af tækifærisstökum
norður í Eyjafirði. Einar kvað:
Mitt það tel ég mesta lán
mína skyldu vel að rækja,
þó að öðrum þætti smán
þennan gula kött að sækja.
127