Skagfirðingabók - 01.01.1968, Síða 132
SKAGFIRÐINGABÓK
Vorið 1877 hækkaði hagur Einars nokkuð. Þá losnaði til ábúðar
Reykjarhóll í Seyluhreppi,1 þjóðjörð kostabetri en Kárastaðir. Sá
Einar sér leik á borði og sótti um ábúð þar. Umboðsmaður ritaði amt-
inu og tilkynnti lausasögn jarðarinnar, lýsti henni jafnhliða og tjáði, að
Einar bóndi á Kárastöðum hefði sótt um ábúðina. Bætti síðan við:
„Þar eð Einar bóndi er atorkumaður og hefur töluverðan fólksafla, þó
hann sé heldur fátækur, óska ég, að amtinu mætti þóknast að leyfa mér
að byggja honum jörðina ævilangt . . ."
Amtið reyndist meðmælt þessari byggingartillögu, og var byggingar-
bréf Einars fyrir Reykjarhóli gefið út 1. maí 1877 og staðfest af amtinu
þremur vikum síðar. Þann 9. júní skilaði Einar Kárastöðum í hendur
umboðsmanns, og gekk það allt hrukkulaust.
Vorinu fyrr hafði umboðsmaður byggt út af Reykjarhóli Páli bónda
Péturssyni „vegna fátæktar og vanskila," og fluttist hann vestur um haf.
Tók þá við jörðinni Þorsteinn Bjarnason 2 og galt 160 álnir í land-
skuld og 20 álnir í kúgildaleigur. Samdi Einar um sömu afgjöld, en
það var 20 álnum minna en verið hafði áður, einnig hét hann að slétta
árlega í túni 36 ferfaðma, 3 jafnmikið og Þorsteinn hafði boðizt til.
Ólafur í Ási réttlætti afgjaldalækkunina fyrir amtinu, hið fyrra sinn,
með því, „að þessi jörð hefur verið einna dýrast leigð af Reynistaðar-
klausturjörðum, í samanburði við nytjarnar, auk þess sem hún er nú
mjög laklega umgengin, bæði hvað hús, tún og engjar snertir," en í
seinna sinnið: „. . . þar eð hann [það er Einar] líka býður álitlega
jarðabót, en hér er mjög hart um að fá ábúendur á klausturjarðir
vegna hinna miklu vesturheimsflutninga héðan úr sýslunni."
1 Þar bjó Hannes Þorvaldsson, móðurfaðir Stephans G. Stephanssonar, 1814-
15 og því næst samfleytt frá 1818-57, en á undan honum faðir hans, Þor-
valdur Sigurðsson, frá 1803-18.
2 Í Jarða- og búendatali er Guðm. Sigurðsson talinn ábúandi á Reykjarhóli
fardagaárið 1876—77, en skv. umboðsskjölum Reynistaðarklausturs hefur Þor-
steinn Bjarnason, er lengi bjó í Litlu-Gröf, byggingarbréf fyrir jörðinni þann
tíma. I þinggjaldabók kemur fram, að Þorsteinn hefur leigt Guðmundi 12 hdr.
í jörðinni, Jóhönnu Bergsd. 5.4 hdr., en heldur sjálfur öðrum 5.4 hdr.
3 25 ferfaðma árleg túnasléttun var kvöð á öllum þjóðjörðum, skv. byggingar-
bréfi.
130