Skagfirðingabók - 01.01.1968, Page 143
EINAR k REYKJARHÓLI
að vinnu uti á Sauðárkróki, hjá Eggert söðlasmið Kristjánssyni, vann
þar af sér skuld, og bar um svipað leyti niður víðar. Fjárhagurinn var
bágborinn, en vinir hans hlupu óspart undir bagga og veittu peninga-
lán. Kom sér nú vel að hafa ekki átt í harðskiptum við nokkurn mann.
Á Reynistað blés ekki kalt um Einar gamla. Hann var þar fjósa-
maður og trúr í starfi. Heimilið var fjölmennt, margt af glöðu æsku-
fólki og vísnatilefnin eftir því, enda varpaði hann æði oft fram stöku
um hitt og þetta, sem næst lá, mælti þær fyrirhafnarlaust af munni. Þó
var það vinnustúlka á sextánda árinu, glaðleg og greind, Ingibjörg
Magnúsdóttir frá Torfmýri í Blönduhlíð, sem fékk frá honum vísur
fleiri en aðrir. Þau Einar urðu samrýnd og beztu vinir, hlógu og
glettust saman. Eitt sinn kvað hann til hennar:
Veröldin er við mig smeyk,
værðir allar dvína,
en eins og saklaust lamb ég leik
við litlu Imbu mína.
Aprílmánuður 1910 gekk í garð með blíðu og rauðri jörð, en svo
brá skyndilega til nepju og síðan hríðargarra. Þessi snöggu veðrabrigði
surfu að Einari, og lagðist hann veikur með aðkenningu að lungna-
bólgu. Hann lá ekki þungt haldinn, en þó seig nú fast að endadægri. í
veikindunum óskaði hann þess, að enginn yrði látinn annast um sig
nema Ingibjörg. Var það fúslega veitt. Hlynnti hún að þessum aldraða
vini sínum með stakri alúð, lét ekki dagsstundirnar nægja, heldur fór
ofan á næturþeli til að fylgjast með líðan hans. Síðustu nóttina, sem
hann lifði, leit hún til hans að venju, veitti honum aðhlynningu og
spurði því næst, hvort hann þyrfti ekki einhvers með frekar. „Þú ert
búin að gera fyrir mig allt, sem hægt er," svaraði Einar, „en ég ætla
að lofa þér að heyra vísu:
Oft á fætur fer um næturtíma,
aðspyr hljótt: „Er Einar þar?"
Imba dóttir Magnúsar."
Morguninn eftir, þá var runninn 9. dagur aprílmánaðar, þyngdi Einari
snögglega og var örendur stuttu síðar.
141