Skagfirðingabók - 01.01.1968, Side 150
SKAGFIRÐINGABÓK
Einhvern tíma á góðu dægri sat Einar við skál með Ólafi bónda í
Víðimýrarseli. Hann bjó með ráðskonu, sem Sigríður hét Ólafsdóttir,
úr Húnavatnssýslu. Ólafur var jafnaldri Einars, en Sigríður mun eldri.
Einar mælti þá fram vísu, sem Ólafi mislíkaði, en svaraði henni engu,
þótt hagorður væri:
Yrkja vil ég óðarskrá,
Ólafur svo fái að heyra:
Sigríði hann sefur hjá,
og sumir halda’ hann geri meira.
Þau Einar, Rósa og Pétur fylgdu öll Heimastjórnarflokknum, þegar
glaðast brunnu eldar landsmálanna kringum aldamót, Pétur rammlega,
Einar allfast, og Rósa predikaði stundum heimastjórnarpólitík yfir
gestum, sem að garði bar. Aldamótaárið bauð Jón á Hafsteinsstöðum
sig fram til þings sem Valtýingur gegn Stefáni skólameistara Stefáns-
syni. Þá rann vígamóður á Einar bónda, og hann orti heróp með sínu
sérstaka lagi. Þar heldur hann því fram óbeinum orðum, að séra Hall-
grímur Thorlacius í Glaumbæ og fleiri, sem boðuðu Valtýskuna af
hugaræsingi, hafi ýtt undir framboð Jóns. Einar kvað:
Óhljóð presta og ýmsra þras
yfirtók með þanka óglöðum.
Gef oss heldur Barabbas,
en burt með Jón á Hafsteinsstöðum!
Einar hvarf ekki frá fylgi sínu við Hannes Hafstein. Þegar deilurnar
hófust um símann, safnaði séra Hallgrímur undirskriftum gegn lagn-
ingu hans. Þá orti Einar enn, og er af vísunni að sjá, að prestur hafi
riðið milli bæja þar fremra, eftir að mjög var tekið að skyggja:
Undirskrifta kolsvart kvöld
kostar marga skeinu.
Eg læt ekki Valtýs völd
véla mig í neinu.