Skagfirðingabók - 01.01.1968, Blaðsíða 167
ÚR FÓRUM JÓNS JÓHANNESSONAR
Á mánudaginn fékk ég svo að fara á hvalfjöruna, - var sendur með
mat handa piltunum og eitthvað af þurrum fatnaði. Ég fór ríðandi,
því frá Heiði, þar sem ég átti heima, er um það bil stundarreið á
staðinn. Það var svört þoka, sótsvört, en eigi úrkoma til muna, og
kaldur austan eða norðaustan andvari. Líklega hefur ísinn ekki verið
mjög fjarlægur, þótt ekkert sæist til hans, því ég man, að andvarinn
var napur.
Ég man, að það fyrsta, sem ég sá, var mesti urmull af hrossum, sem
voru þarna á víð og dreif um nesið á beit, mörg heft eða tjóðruð, og
þegar ég kom nær, sá ég fjölda af mönnum. Það voru menn, sem
komnir voru til að sækja hval, ýmist hluti manna, sem voru á skurði,
eða sem þeir keyptu. Voru ýmsir þeirra að búa upp á hesta sína, aðrir
að fara eða koma. Fæsta þekkti ég, því svo fljótt hafði hvalsagan borizt,
að margir voru komnir þá þegar lengra að, utan úr Fljótum og innan
úr Óslandshlíð.
Bakkar eru lágir vestan á Straumnesinu, en fjara stórgrýtt, og ganga
þar klettagjögur fram í sjóinn víða og þröngir básar inn í milli. í
einum þessara bása var nú hvalurinn. Ég hygg, að það hafi verið blá-
hvalur, en ekki var hann mjög stór. Lengi hefur hann verið búinn að
liggja í sjónum og flækjast, því allt þvesti á honum var óætt. Sterkum
festum hafði verið brugðið um spyrðustæði hvalsins og hjóltaug
strengd úr þeim og upp í klöpp uppi við bakkann, og gengu á taglið
eins margir menn og að komust, þegar að var fallið, og drógu hvalinn
upp svo sem til vannst. Féll þá út undan honum á fjörunni, svo að
hægt var að skera hann. Þó var við það vaðall mikill. Hitt var og til
mikilla óþæginda, að dálítið öldugjálfur var við f jöruna, og þar sem eigi
var völ á festum svo sterkum sem skyldi, sleit hvalurinn oft á flóðunum
af sér festarnar. Þó lagaðist þetta, eftir því sem meira skarst af honum.
Ég Ieitaði föður minn uppi. Það var einmitt verið að draga hvalinn
lengra upp á fjöruna, þegar ég kom, og nú varð uppihald, þar til
nokkuð féll út, og fékk ég að bíða, svo að ég gæti séð, hvernig var
farið að því að skera hvalinn og bjarga honum á land. Fremur var
þarna ömurlegt að vera. Ekkert hús var neins staðar nálægt, og höfðu
mennirnir, sem þarna unnu, ekkert skjól, nema hvað tjaldað hafði verið
yfir tvær dálitlar klettaskorur milli framskagandi klappa uppi við
165