Skagfirðingabók - 01.01.2001, Síða 31
DANSKI ÚRSMIÐURINN SEM VARÐ SKAGFIRÐINGUR
væri slæmt að reka hana þessa löngu leið út á Krók og bauðst
til að reykja skrokkinn. Samkomulag varð um þetta, og fékk
bóndi vöruúttekt út á væntanleg kaup. Þetta var algengur
verslunarmáti á þessum árum. Eftir tilsettan tíma sendi bóndi
okkur reyktan ærskrokk. En þvílíkt kjöt! Svo magurt kjöt
höfðum við aldrei séð, og var það lítt ætt. Aldrei lét bóndi sjá
sig. Þetta varð til þess, að pabbi keypti aldrei óséðar afurðir hjá
bændum nema hjá þeim er hann þekkti. Pabbi, ásamt Króks-
urum yfirleitt, verslaði oft milliliðalaust við bændur, og var af
því góð reynsla. Þessi verslun lagðist af að mestu, er frystihúsin
komu til sögunnar. Okkar heimili þurfti mikið af kjöti og
sméri.
Það er líklega óhætt að segja frá því núna, að æðarbændur
komu stundum á vorin og buðu einstaka mönnum nokkur egg,
en varlega var farið í þau viðskipti. Pabbi spurði eitt sinn
bónda, er líka var hreppstjóri, hvort þetta væri nú ekki hættu-
legt fyrir hann? Bóndi svaraði: „I lögunum stendur að ekki
megi láta eggin af hendi, en ég ýti þeim bara til þín með fætin-
«
um.
Pabbi var mikið fyrir feitt kjöt, líka hrossakjöt og notaði feiti
út á. Hann varð líka holdamikill með árunum. Eitt sinn sem
oftar kom Jónas Kristjánsson læknir í búðina, og voru þeir að
gantast um eitt og annað, og bauð hann pabba að flá af honum
ístruna. Pabbi klappaði á magann og sagði að það gengi ekki:
„Þetta er lánstraustið mitt.“ Stundum tóku þeir metrakvarð-
ann og toguðust á yfir búðarborðið og voru það mikil átök, því
að báðir voru mjög handsterkir. Þeir fóru lfka í sjómann og
unnu báðir!
Er við höfðum aldur til, vorum við strákarnir sendir í sveit,
einnig Hulda, er fór að Hvammi í Laxárdal. Ég fór að Ási og
Ríp í Hegranesi. Georg fór heim að Hólum í Hjaltadal, Garði
í Hegranesi og Sjávarborg. Páll var sumar í Torfgarði og á
Reykjum á Reykjaströnd. Aðalsteinn var sitt sumar á Ríp.
Ottó var nokkur ár í Flugumýrarhvammi.
29
L