Skagfirðingabók - 01.01.2001, Side 110
SKAGFIRÐINGABÓK
sem heita Grænur, en partur af þeim er þó eftir innan við skrið-
una. Neðan til í hlíðinni rann jaðar skriðunnar ofan í Rauðsgil-
ið. Meginskriðan hafnaði í Nautabúsárgilinu og hálffyllti það,
en krafturinn var það mikill að bylgjan kastaðist upp á gils-
brúnina á móti. Flest bendir til að aurskriðan hafi verið svo
þunnfljótandi að hún hafi sjálf sigið af stað niður gilið, x beinu
framhaldi af því að hún féll.1 Þykkt hennar sást af aurmörkum
báðum megin í gilinu. Hún var þykkust efst, og þar voru aur-
mörkin Kjarvalsstaðamegin við gilið hærri en Nautabúsmegin,
sem bendir til bakslags. Þegar utar dró smá þynntist skriðan,
líklega vegna aukins hraða og meiri vatnsblöndunar úr farveg-
inum. Þegar skriðan ruddist niður gilið eyðilagði hún gott
haglendi, því að þar voru víða góðir blettir, sem eftirsjá er að.
Einnig skóf hún sums staðar upp urð og möl úr gilsbotninum,
svo að víða glittir þar í klappir og jökulberg. Annars staðar,
t.d. skammt ofan við Nautabú, hlóð skriðan möl og grjóti í far-
veginn og grynntist hann þar um nokkra metra.
Nautabúsárgilið er djúpt og nokkuð beint, en utan til grynn-
ist það og beygir til vinstri ofan við Nautabú. Þar var gamli
Nautabússtekkurinn, grjóthlaðinn, rétt við ána. Hann hvarf
undir hlaupið, og Stekkjarklettarnir, sem voru ofan við stekk-
inn, eru nú nánast á kafi í aur og möl. Kjarvalsstaðamegin, þar
sem gilið beygir, er Stekkjardalsmelurinn, og gekk aurflóðið
upp á hann norðanverðan þegar það var að beygja, og hefur
e.t.v. tekið eitthvað norðan úr honum. Uppi á melnum, u.þ.b.
einn metra frá jaðri flóðsins, fann Hallgrímur lóuhreiður,
óskaddað. Frá Stekkjardalsmelnum stefndi flóðið beint á bæinn
á Nautabúi, en skall á háum bakka ofan við túnið, og er líklegt
að það högg hafi verið jarðskjálftinn sem ábúandinn á Nauta-
búi fann. Þessi bakki kom að mestu í veg fyrir tjón á Nautabúi,
1 Hugsanlegt er að eitthvert vatn hafi safnast fyrir í gilinu ofan við skriðuna,
og þungi þess hjálpað til við að ryðja henni fram. Það er þó frekar ólíklegt
því að engin merki sáust um slíka vatnssöfnun.
108