Skagfirðingabók - 01.01.2001, Síða 129
KOMSTU SKÁLD í SKAGAFJÖRÐ?
slagið að fasteigna- og farandsölu. Ötull starfsmaður þótti
hann jafnan og alls staðar hinn liðtækasti, enda vel metinn í
starfi sínu.
A yngri árum tók Magnús þátt í íþróttum og gat sér frægð-
arorð sem spretthlaupari. Hann tók þátt í kapphlaupum, sem
háð voru í Winnipeg og vann þar a.m.k. þrisvar sinnum til
verðlauna. Þá tók Magnús verulegan þátt í vestur-íslenskum
félagsmálum og reyndist þar löngum þarfur maður í sveit.
Annars var hann kunnastur meðal landa sinna fyrir ljóðagerð
sína. Tvær ljóðabækur komu út eftir hann, Ljóðmœli (1907) og
Hljómbrot (1924). Áttu þær báðar vinsældum að fagna, ekki
síst vestan hafs. I dag er hann að vísu flestum gleymdur, m.a.
af sömu ástæðum og skáldbróðir hans, Kristinn Stefánsson.
Skuggi stórskáldsins vestan Héraðsvatna er sá gleymskuhjúp-
ur, sem því hefir öðru fremur valdið.
Ekki er hægt að segja, að ljóð Magnúsar skeri sig úr hvað
frumleik snertir. Þau eru ekki stórbrotin og hafa sjaldnast „arn-
súg í flugnum." En yfir þeim hvílir heiðríkja drengilegra hugs-
ana og hjartagöfgi. Hann er andlega skyldastur sumum hinna
eldri, íslensku þjóðskálda og hefir greinilega orðið fyrir all-
miklum áhrifum frá þeim, ekki síst síra Matthíasi Jochums-
syni. Hann var, eins og flest vestur-íslensku skáldin, algjörlega
sjálfmenntaður. Má um hann að verðleikum segja, að vel hafi
hann ávaxtað sitt pund. Ljóðareit sinn ræktaði hann með auð-
mýkt og trúnaði við hið besta x sjálfum sér og sínum íslenska
menningararfi, innilega þakklátur fyrir þá náðargjöf, sem
skáldskapargáfan var honum í blíðu og stríðu á lífsins braut.
Um ljóðagerð Magnúsar kemst dr. Richard Beck m.a. svo að
orði: „Rímsnilld Magnúsar er við brugðið. Kvæði hans eru svo
áferðarfögur, að vart sér þar hrukka á. Er það auðsætt, að fyrir-
hafnarlítið falla orð í stuðla hjá Magnúsi. Aðaleinkenni ljóð-
skáldsins eru hljómfegurð og þýðleiki, málmýkt og lipurð.
Göfugrar hugsunar gætir víða og næmra tilfinninga. Siðgæðis-
127