Skagfirðingabók - 01.01.2001, Síða 167
MÚRINN RAUÐI Á HÓLUM
sem var rík hefð fyrir steinhöggi. Að öllum líkindum hefur
smíði stórrar steinkirkju verið nokkuð stór biti að kyngja fyrir
biskupsdæmið, auk þess sem timburkirkjan mikla á Hólum
var alls ekki komin að fótum fram og því engin ástæða til að
taka hana ofan. Þess vegna kann Gottskálk að hafa valið þá
hagfelldu leið, að nýta rauðgrýtið til þess að prýða og styrkja
kirkjuna, með því að hlaða múr í kringum kórinn, og skýla
henni þannig fyrir stórviðrum. Hinar fornu timburkirkjur
voru töluvert háreist hús og fyrir tíma Gottskálks hafði ein
þeirra, Jörundarkirkja, fokið í ofviðri um jólin 1394. Það er
einnig ljóst af lýsingum að menn gerðu sér fulla grein fyrir
þessum veikleika og að töluvert var lagt í styttur og skástoðir
beggja vegna til þess að verja kirkjurnar foki.30 Jafnvel þeir
sem álitu múrinn vera frá dögum Auðunar rauða velktust ekki
í vafa um að hann væri gjörður „til hlífðar fyrir veðrum" eins
og séra Þorsteinn Pétursson frá Staðarbakka komst að orði árið
1763.31 Skjólgarðar úr steini tíðkuðust einnig á þessum tíma
sunnanlands. Stefán Jónsson, sem var biskup 1491-1518, lét
sér mjög annt um að hýsa stórmannlega stað og kirkju í Skál-
holti, m.a. með miklum grjótmannvirkjum. Á hans tíma var
hlaðinn geysihár garður um kirkjuna í Skálholti, henni til
skjóls, þó sú mikla bygging yrði eldi en ekki vindi að bráð árið
1527.32
30 Sjá umfjöllun Þorsteins Gunnarssonar (1993) um þetta atriði, bls. 18-19.
31 Hér er enn vitnað í tvíblöðung, JS 513 4to, þar sem segir orðrétt: „Auðunn
biskup lét gjöra múr í kringum kórinn austan til, til hlífðar fyrir veðrum."
Sjá ennfremur Sigurjón Páll ísaksson (1987), bls. 85-86, og (1989), bls. 190,
sem hefúr áætlað að upphaflegur höfundur textans sé séra Þorsteinn Péturs-
son á Staðarbakka.
32 Svo virðist sem þeir Skálholtsmenn hafi vandað mjög til verka og lagt í tölu-
vert umstang til þess að ná í grjót í garða sína. Páll Eggert Ólason segir svo
frá í Sögu íslendinga IV, bls. 13-14, að Stefán biskup hafi haft „tvo menn fasta
í því að flytja grjót heim á staðinn, sumar sem vetur. Tóku þeir upp grjót og
hellur miklar hjá Vatnsleysu í Biskupstungum. Var þetta flutt á skipum nið-
ur Tungufljót og Hvítá, en á vetrum í akfæri..."
165