Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1968, Side 10
8
MÚLAÞING
í Fossárdal og hafi þá aftur leitað til nýbýlis sins í Víðidal.
Nokkuð er það, að Anna er talin innkomin úr Víðidal árið
1840, er hún leitar sér vistar aftur og athvarfs hjá dóttur
sinni og tengdasyni á Aðalbóli. Kólnaðar hafa þá verið ástir
þeirra Stefáns í volki lífsins. Þau eru talin skilin að borði og
sæng. Anna dvaldi á Aðalbóli, það sem eftir var ævi til bana-
dægurs 15. jú.ní 1862, nær áttræð að aldri.
Fátt er kunnugt um feril Stefáns eftir þetta. Líkast er að
hann hafi verið laus við og víða farið. Það finnst að hann
var vinnumaður í Berufjarðarhjáleigu tvö ár eða þrjú nokkr-
um árum eftir að þau Anna skildu. Á þeim árum er líklegt
að orðið hafi viðureign hans við Skálabrand, sem í sögnum
er skráð. Ævi sína endaði hann í Stafafellssókn 27. maí 1853,
hátt á áttræðisaldri, og er þá kallaður „ferðamaður úr Múla-
sýslu“.
Tilbrigðaríkur hefur verið lífsferill þessara hjóna, en ekki
gæfusamur að sama skapi að yfirsýn. Dátt hefur verið ásta-
far þeirra í fyrstu og sennilega lengst af á meir en 20 ára
samvistarferli þeirra. Fjöliyndi Stefáns á Litluvíkurárunum,
sem Önnu var manna bezt kunnugt um, lætur hún ekki valda
samvistaslitum. Ásthugirnir endast til samkomulags um að
festa sér byggð í eyðidal fjarri byggðum bólum og manna-
ferðum.
Hafi verið baslarabúskapur í Litluvík, þar sem notið gat
bæði land- og sjávargagns, er augljóst að rýrari miklu hlutu
bjargræðisskilyrðin að verða í Víðidal. Hvort sem það hefur
vald;ð eða annað, hafa ásthugirnir beðið þar þann hnekki,
sem dregur til samvistaslita, og hvorugt leitar annars fundar
eftir það.
Ekki er að sjá að barnsvilluævintýrið í Litluvík hafi verið
talið stórt áfall á siðferðislegt álit þeirra að dæma eftir vitn-
isburði Hofsprests, Bergs Magnússonar. Siðferðisvottorð
þeirra er að vísu gefið með nokkrum dræmingi að skilja má,
,,ei illa“ segir þar. Og síðar er vottað, að siðferðileg framkoma
Stefáns sé „sæmileg". Aftur á móti er hiklaust vottað, að þau
séu vel læs og vel kunnandi.