Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1968, Page 119
MÚLAÞING
11?
til að komast af og styrkja og gleðja þá sem ættu við van-
heilsu að stríða. Einnig að veita lið framfaramálum í sveit-
inni. Því sagði hún að þessi samkoma væri haldin, til að aura
saman upphæð sem verja ætti í þessu skyni.
Ekki var aðstöðunni fyrir að fara þarna í Atlavíkinni og
mundi lítið þykja til þess koma nú. Einu tilfæringarnar voru
eitt lítið tjald sem stóð á grasfiöt vestan lækjarins, þar var
hitað kaffi, og á enda tjaldsins var eins konar lúga sem kaff-
ið var sett út um. Þar fengu menn bollann í hendurnar og
brauð, velútilátið, á undirskál eða smádiski. Síðan fóru menn
með þetta út undir einhvern buskann, settust niður og neyttu
veitinganna og skiluðu síðan bollanum í tjaldið, borguðu og
þökkuðu fyrir sig.
Nú — Þegar Þuríður hafði lokið máli sínu voru sungin
nokkur ættjarðarljóð. Að því loknu var flutt ræða, og hún
fannst mér svo snjöll að eg lærði inntakið í henni og kann
það enn.
Þuríður gat þess í lok má'.s síns að þær konurnar hefðu
beðið Jón á Egilsstöðum, Jón Bergsson, að tala við þetta
tækifæri. Þá stígur fram á lækjarbakkann hæglátur maður
og virðulegur á miðjum aldri — hann hefur líklega verið
nálægt fimmtugu þegar þetta var. Eg man ekki til að eg
hefði séð Jón Bergsson fyrr. Ræðan var ekki löng:
— I framhaldi af ræðu Þuríðar vil eg segja þetta til hins
unga félags sem efnt hefur til þessa mannfagnaðar hér: —
Lítil lind kemur upp í mosató hér hátt til fjalla. Hún seytiar
undan brekkunni, þangað til á vegi hennar verður lækur sem
hún sameinast. Og lækurinn streymir áfram, sameinast öðr-
um lækjum á leið sinni niður fjallið, svo að þeir verða að á.
Þessi á fellur síðan í Löginn sem við sjáum hér framundan,
bjartan og spegilsléttan.
Um leið og hann sagði þetta benti hann út á Löginn og hélt
síðan áfram:
— Það er ósk mín og von að sú lind sem hér er sprottin
upp, megi vökva þó ekki sé ncma eitt af hinum mörgu bruna-
börðum mannlífsins.