Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1968, Side 128
126
MÚLAÞING
„Skrúðsey, almennt kölluð Skrúður, er upphá eins og lítið
fjall, nærri kringlótt, víðast hvar að sunnan, vestan og norð-
an sett misháum, þverhníptum björgum neðantil, en grasi-
vaxin að ofan og að austan sumstaðar að sjómáli. Að suð-
austan gengur inn vík sú, er He’lisvík heitir. Að henni heldur
að sunnan flughátt bjarg, en að norðan sæbrattar klappir.
Upp af henni gengur hellir einn mikill rúmlega 50 faðma að
lengd og meðal steinsnar á hæð. Hann skiptist í tvo hluta.
Innri hellirinn breikkar fyrir innan dyrnar mikið til suðurs
og er þar nálægt 50 föðmum á breidd. Sá fremri er töluvert
mjórri.
1 framhellinum er bjart að framan. Þar verpir fjöldi rit-
fugla upp um allt bergið, og er indæli mikið að skoða helli
þennan, einkum um morguntíma framan af sumri þá sólin
skín upp á hann. Allt er á ferð og flugi, en kliður fuglanna
og niður sjávarins kveður við í hinni tignarlegu byggingu.
Allur hellirinn liggur í vestur og eru veggir hans að sunn-
an og vestan þverhnípt bjarg, en að norðanverðu gengur nið-
ur frá hvelfingunni, allt fram til miðs, brött skriða, mjög
lausgrýtt, af bleikum sandsteini. Fyrir framan hana að norð-
an er aftur bjargveggur undir mestöhum framliellinum.
I innri hellinum er býsna draugalegt og dimmt, því þar sést
engin skíma utan lítil undirbirta, þá er menn hafa staðið þar
nokkra stund. Sést bá fyrst óglöggt til mænis og umhverfis
innan um hellinn. Þá sýnist tilsýndar innanvert uppi yfir
skriðunni litlar dyr, sem þegar gengið er upp í skriðuna og
skoðað við ijós ekki er nema grunnur skúti.
Þaðan er sprottin sú hégilja, að skúti þessi væri dvr á afhelli
nokkrum með iárngrindum fyrir. Átti þar að byggja bjargbúi
nokkur sem Skrúðsbóndi er kallaður, og fortelja gamlir menn,
að hann hafi eitt sinn tjl forna fleygt skriðu þeirri, er fyrr
getur á átján menn, er hnýsast vildu um byggð hans, og
héldu margir, þá eg hingað kom, hættuspil mikið að ganga
upp i skriðuna og hnýsast eftir um samkomu hennar við
bergið. Þetta hef eg nú tvívegis gert með logandi ljósum og
sannfærst svo um, að enginn afhellir gengur þar inn“.