Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1968, Síða 130
128
MÚLAÞING
þá eru útfall og innfall; skakkafall og aukafall; hringsnún-
ingur og vitlausafall; uppgjafafall og liggjandi.
Öll þessi föll mynda sandbletti á vissum stöðum við eyna,
en einmitt þar heldur sandsílið sig og það er uppáhaldsfæða
þorskfiska. Sandblettir þessir ganga undir einu nafni hjá sjó-
mönnum: „Glöggvurnar". Nafnið er gott; vegna þess hvað
straumar eru breytilegir á þessum stöðum, eru það aðeins
glöggir menn sem fiska vel þar, en hjá öðrum gengur á ýmsu.
Faðir minn, Úlfar Kjartansson, er fæddur 26. nóv. 1895 á
Vattarnesi og hefur alltaf átt þar heima. Hann er því kunn-
ugastur allra núlifandi manna á þeim slóðum sem við ræðum
hér um. Við skulum því láta hann segja okkur frá, fyrst
hvað hann heyrði í æsku af Skrúðsbónda og vinum hans, en
síðan af Skrúðsferðum sínum:
„Skrúðsbóndi bjó í Skrúðnum, Vöttur á Vattarnesi, og Kol-
freyja bjó á Kolfreyjustað. Þau voru öll góðir vinir.
Eitt sinn reri Vöttur til fiskjar í góðu veðri. Þeir voru tólf
á.Hann fór út fyrir Skrúð og var með færi, þar sem heita
Rastir. Þegar á daginn leið brast á norðanveður svo mikið að
þeir Vöttur drógu ekki fram hvernig sem þeir reru. Útlitið
var því slæmt þar sem vindur stóð af landi.
Kolfreyja hafði líka róið þennan morgun á steinnökkva sín-
um sem hét Kumli; hún var ein á. Hún hafði róið á djúpmið
og farið lengra út en Vöftur. Nú sjá þeir Vattarnesingar, þar
sem þeir eru í nauðum staddir, hvar Kolfreyja kemur róandi
að utan og rær bakföllum. Þegar hún rær fram úr þeim kallar
hún: „Ró þú í kjölfar mitt, Vöttur vinur, og mun þá ganga".
Þeir gerðu svo, og gekk þá fram, og náðu þeir landi. Um
þennan róður sagði Kolfreyja: „Þá rykkti eg í og reif aftur
úr“.
Vöttur vildi launa Kolfreyju greiðann. Hann sendi henni
efni í vettlinga, 30 álnir af vaðmáli. Næst þegar þau hittust
þakkaði Kolfreyja honum sendinguna, en sagði: „Kort var
efnið, Vöttur vinur, það vantaði í alla þumlana“. Þá sendi
Vöttur henni 10 álnir í viðbót; þá kvartaði hún ekki.