Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1990, Side 94
92
MÚLAÞING
Á þessum tímum var mjög lítið um olíu á Austfjörðum yfirleitt,
engar varabirgðir, varla hægt að kría út olíutunnu hvað sem í boði
var. Það var því engin furða þótt olíuna þryti hjá bátunum, þegar
óveður tafði ferðir þeirra. Svo var að þessu sinni, að enga olíu var að
fá á Fáskrúðsfirði og því engar aukabirgðir um borð í Gnoðinni og
Ægi, en Drífa var betur birg að heiman.
Á þessum árum var öll olía flutt á trétunnum. Vélarnar gengu yfirleitt
fyrir steinolíu. Trétunnurnar voru, að mig minnir, með 100 kg innihaldi
hver tunna, þegar þær voru fullar, en það var nú oft að á það vantaði,
að þær skiluðu réttu innihaldi, þótt greitt væri fyrir sem fullar væru.
Það smitaði mikið út úr þessum tréílátum, ef þær voru úti í miklum
hita. Svo var það heima á Seyðisfirði, en þar er oft mikill hiti á sumrum,
að taka varð olíutunnurnar úr sólskininu vegna útsmitunar. Það kom
oft fyrir heima, að við veltum tunnunum undir gólfið á beitningarskúrn-
um hjá Sjólyst, sem stóð á stöplum niður við fjöruna og geymdum þær
þar í skugganum.
Sumir kraftamenn tóku þessar olíutunnur í fangið og réttu þær niður
í bát sinn, tóku við þeim á bryggjubrún, þótti það vel af sér vikið, því
þyngdin var allmikil þegar tunnurnar voru fullar, og þær voru úr eik,
sem var býsna þung, sem bættist við innihaldið að þyngd. En stundum
var líka borð á tunnunum sem fyrr segir.
Trétunnurnar voru merktar upphafsstöfunr D. D. P. A., sem merkti
nafn danska olíufélagsins, Det Danske Petroleum Aktieselskab. Yms-
um fannst vel til hlýða að þýða þessa 4 stafi þannig: „Danskur djöfull
pínir alþýðuna“.
En snúum okkur nú aftur að ferðinni eftir þennan útúrdúr. Veðrið
fór nú stöðugt versnandi, bæði hvað sjólag og veðurhæð snerti. Við
vorum nú snúnir við og reyndum að fjarlægjast landið. Næstu nótt
urðum við olíulausir. Veður var orðið mjög slæmt, hvass suðvestah og
úfinn sjór. Þá voru sett upp segl og siglt austur um. Á þessari siglingu
rifnaði fokkan. Var þá ákveðið að setja út drifakkeri.
Það var hugmyndin að taka tóma olíutunnu, festa keðju í hana og
setja í hana svolítinn sjó og láta drífa með hana, en áður en við komum
þessu í framkvæmd, fékk Ægir á sig dálítinn hnút og tunnan fór fyrir
borð, sína leið. Nú var úr vanda að ráða, útlitið afar slæmt, en þó var
það lán í óláni, að enginn okkar skipverja fórfyrir borð ásamt tunnunni.
En þá var gripið til annarra ráða. Við höfðum nokkuð af timbri á
dekkinu, sem var svo vel frá gengið, að það tók ekki út þegar við
fengum á okkur sjóhnútinn. Þannig stóð á timbri þessu, að Drífa átti