Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1990, Page 175
MÚLAÞING
173
hjá okkur, Björn Björnsson á Galtastöðum og faðir minn. Þegar allt
var tilbúið þurfti bara að bíða eftir einsýnu veðri, landátt með logni.
Pabbi var allra manna veðurgleggstur, og eg mundi enn í dag trúa
veðurspá hans betur en veðurstofunni, að henni ólastaðri. Pabbi fylgdist
með himinhvolfinu alla daga, en eg lærði aldrei þessa speki. Eg man
fæst af orðalagi hans þegar hann var að tíunda skýjafarið, en hann
talaði um rosabauga um sól og tungl, gíla, nethimnu, bólstra sem
virtust í hörkuslag, bláma til hafsins, heiðríkjurifur sem voru ráðning
á áttum og svo mætti lengi telja.
Loks rann upp sá dagur sem faðir minn taldi hæfan; mun hann þá
hafa vakað mestan hluta nætur og rýnt í himinhvolfið. Þá var snemma
risið úr rekkju og sent í Galtastaði. Allt tekið til sem þurfa þótti, þar
á meðal nesti, Stóribrúnn sóttur í haga og spenntur fyrir sleða, og
kjálka þurfti að hafa við sleðann, því Brúnn var rammfælinn og leit
sleðann illum augum, líkt og hann ætti hann alltaf vísan á hæla sér.
Svo mun honum ekki hafa litist á sleðafæri á þessum tíma árs.
Faðir minn og Björn ætluðu að vera með ferjuna, en Hannes að
fara með Brún að svonefndum Steinboga við fljótið. Þar áttu þeir að
hittast við þennan klettahrygg við Fljótið, og fyrir hann þurfti að draga
ferjuna. Hannes þurfti að velja skástu leið með klárinn, fara norður
fyrir bæinn og þaðan út á bakka Geirastaðakvíslar, niður með henni
að svonefndum Svartabakka, en þar voru eyrar að Kvíslinni og hægt
að fara yfir með sleða. Síðan var hægt að rekja sig eftir sléttum aurum
allt að Steinboga.
Þetta kom allt heim og saman. Þeir komu á ferjunni, henni draslað
upp á sleðann og dregin fyrir Steinbogann og sett þar á flot. Áfram
var haldið, og ferjumönnum gekk vel þar sem undan straumi var að
róa. Hannes átti að fara með sleðann austur á móts við Hól og skilja
hann þar eftir. Þaðan átti að aka orgelinu í Geirastaði. Hannes átti
svo að fara með Brún út með Fljóti þar sem ferja átti yfir.
Þetta gekk allt eftir áætlun, en drjúgur spölur er frá ferjustað á Geira-
stöðum og út á Héraðssanda - 13 - 14 km. Þegar kom á hinn áætlaða
stað þar sem fara átti yfir, voru aktygin tekin af Brún og hann hafður
aftan í ferjunni yfir Fljótið. Þegar yfir kom voru aktygin aftur sett á hann
og ferjunni tyllt aftan í hann. Þungfært var í sandinum, en Brúnn var
ýmsu vanur og tók hraustlega á. Mér fannst Brúnn alltaf öruggur þegar
pabbi hafði stjórnina, á milli þeirra virtist sérstakur trúnaður. Hann var
því ekki óvanur að bera og draga meira en aðrir hestar. Eitt sinn var
raðað á hann af Krosshöfða og inn að Ósi, sem eru 3-4 km. Til gamans