Jökull - 01.12.1991, Qupperneq 67
Fjarlægðin milli enda gossprungunnar er um 25
km en í henni er um 8 km löng eyða, þannig að alls
hefur gosið á um 17 km langri sprungu. Syðri hlutinn
er um 10,5 km að lengd og nyrðri hlutinn um 6,5 km.
4.1 Gossprungan og jarðskjálftabeltið á Suðurlandi
Frávik gossprungunnar frá hinni venjulegu norðaustur-
suðvestur sprungustefnu á Reykjanesskaga, sem
kemur fram við Vigdísarvelli, á sér einfalda skýringu.
Á u.þ.b. 5 km breiðu belti, sem liggur því sem næst frá
Hjalla í Ölfusi til vesturs um jarðhitasvæðin í
Brennisteinsfjöllum, Krísuvík og Svartsengi út á
Reykjanestá, eru víða skástígar sprungur, sem stefna
norður-suður, lfkt og sprungur sem myndast hafa í
Suðurlandsskjálftum (Fíaukur Jóhannesson 1989).
Beltið er í raun aðeins framhald af jarðskjálftabeltinu á
Suðurlandi til vesturs og þar sem gossprungan liggur í
gegnum það kemur fram breyting á stefnu hennar.
Eftirtektarvert er að í annál Flateyjarbókar (1945) og í
Konungsannál (Storm 1888) er getið um húshríð eða
húsrið samfara eldgosinu 1151, sem bendir til að því
hafi fylgt allsterkir jarðskjálftar.
Við Vigdísarháls er gossprungan slitrótt og tiltölu-
lega lítið hraun hefur runnið frá henni þar. í
jarðlögum í Vigdísarhálsi er veruleg jarðhitaum-
myndun og nær hún allt norður að Traðarfjöllum.
Þetta sýnir að jarðhitasvæðið í Krísuvík hefur
einhvem tíma náð mun lengra til vesturs en nú er.
Lítið hraunrennsli á þessu svæði bendir til að
hraunkvikan hafi ekki náð upp til yfirborðs í gegnum
undirliggjandi jarðhitakerfi, heldur myndað innskot
sem hugsanlega gætu verið hluti af orkugjafa
jarðhitans í Sveifluhálsi sem er þama skammt undan.
Því má ætla að jarðhitasvæðið í Krísuvík hafi áður
verið mun stærra en það er nú, ellegar að það hefur
færst til austurs. Jafnvel er hugsanlegt að jarð-
hitavirkni svæðisins sé á stöðugu flandri eftir því
hvar ný innskot myndast til að viðhalda orku
svæðisins.
5. HRAUN KRÍSUVÍKURELDA
Eins og sjá má á 1. mynd mynduðust fjórir aðskildir
hraunflákar í Krísuvíkureldum. Syðst er Ögmundar-
hraun sem nær frá Djúpavatni í Móhálsadal suður í
sjó. Næst norðan við það er lítið hraun sem mnnið
hefur út á Lækjarvelli og er það langminnst þessara
hrauna. Þriðja hraunið er við Mávahlíðar, norðaustur
af Trölladyngju, og liggur til hliðar við megin-
gossprunguna. Nyrst er svo Kapelluhraun sem mnnið
hefur frá Undirhlíðum til sjávar.
Öll hraunin eru ólivínþóleiít basalt. Bergfræði-
rannsóknir Einars Gunnlaugssonar (1973) sýna að
þau eru hvert öðru lík og að hraunin í Móhálsadal
verða ekki greind hvert frá öðm í þunnsneið. Þau eru
dæmigerð fyrir apalhraunin sem koma upp í gliðn-
unarhrinum á Reykjanesskaga. Hraunin eru þunn-
fljótandi og gasrík og mynda oft þunnt frauðkennt
helluhraun næst gígunum. Algeng þykkt slíkra
hrauna er um einn metri á sléttu landi og eru hraun-
jaðrarnir oft ekki nema um hálfur metri á hæð. Þegar
hraunin hafa runnið nokkur hundruð metra frá
gígunum hefur verulegur hluti gassins verið rokinn úr
hraunkvikunni, þannig að hún verður seigari og
hraunið þykknar og breytist smám saman í apalhraun
sem verður þeim mun úfnara sem fjær dregur
gígunum. Hæstu hraunjaðrar af þessari gerð á
Reykjanesskaga eru 10-15 m.
5.1 Ögmundarhraun
Hraunið sem rann frá syðsta hluta gossprungunnar
fyllti allan Móhálsadal sunnan Djúpavatns og rann í
sjó fram á um 5 km breiðu belti. Hraunið fyllti allstóra
vík sem að líkindum hefur verið hin forna Krísuvík.
Þessi hraunfláki er stærstur af þeim fjórum sem
mynduðust í Krísuvíkureldum. Hann gæti hafa
myndast í tveimur gosum (en þó í sömu goshrinu). Sá
hluti hraunsins sem kominn er frá gígunum við
Djúpavatn hefur runnið til austurs og síðan til suðurs
austan Traðarfjalla. Við suðurbrún Traðarfjalla leggst
yfir það yngra hraun sem runnið hefur frá þeim hluta
gígaraðarinnar sem liggur í skarðinu milli Traðarfjalla
og Núpshlíðarháls. Samsvarandi mörk hafa hins vegar
ekki fundist á sjálfri gígaröðinni, sem virðist alveg
samfelld norður skarðið að gígunum við Djúpavatn.
Norðurbrún hraunsins er milli 0,5 og 1,0 m há en
annars staðar hefur fyllst að jöðrunum þannig að þeir
sjást ekki. Hraunið er allúfið austan Traðarfjalla, enda
hefur það runnið þar í nokkrum halla.
Syðri hluti hraunsins fyllir allan Móhálsadal
JÖKULL, No. 41, 1991 65