Dagblaðið Vísir - DV - 24.10.2014, Blaðsíða 20
Helgarblað 24.–27. október 201420 Fréttir
Lögreglan getur
ekki haft sjálfdæmi
n Tíðari „slys“ þar sem lögreglan ber vopn n Opinber umræða um breytingar er nauðsynleg
D
r. Helgi Gunnlaugsson er pró-
fessor í afbrotafræði við Há-
skóla Íslands. Hann metur
það svo að með upplýsingum
DV og síðar annarra miðla
um hríðskotabyssur í fórum lög-
reglunnar og mögulega dreifingu
þeirra til lögregluembætta um allt
land og sömuleiðis í lögreglubíla, þyki
þjóðinni og Alþingi sem komið hafi
verið bakdyramegin að sér. Hann seg-
ir að umræðan um meiriháttar stefnu-
breytingu í vopnaburði og vopnabún-
aði lögreglu verði að vera opin og að
mörgu sé að hyggja. Jóhann Hauksson
náði tali af Helga og bað hann meðal
annars bera Ísland saman við aðrar
þjóðir í þessum efnum.
„Menn verða að gæta að mörgu í
þessu sambandi. Þar er forvitnilegt að
bera okkur saman við önnur Norður-
lönd. Svíar hafa lengi haft mun harðari
stefnu í vopnaburði lögreglu en Norð-
menn sem fylgt hafa mildari stefnu.
Reyndin er sú að slys, dauðsföll og
önnur atvik sem tengjast vopnaburði
eru mun tíðari í Svíþjóð en í Noregi.
Þetta er í það minnsta umhugsunar-
vert og beinir athygli að nauðsyn þess
að stíga varlega til jarðar þegar taka
á meiriháttar ákvarðanir um vopna-
burð lögreglu. Þarna getur verið um
að ræða einhvers konar stigmögnun.“
Einstakir atburðir geta hleypt
öllu af stað
„Við gætum verið að fórna þeirri hefð
sem ríkt hefur í okkar friðsama samfé-
lagi. Við þurfum að gera upp við okk-
ur hvort við viljum stefnubreytingu
í þessu efni. Við þurfum að athuga
hvað það er sem kallar á breytta
stefnu og við sjáum það kannski ekki
alveg. Þetta er viðkvæmt. Við sjáum til
dæmis varðandi þróun vopnabúnað-
ar lögreglu í Evrópu að stigmögnunin
hefur stjórnast að verulegu leyti af
einstaka atburðum. Við höfum dæmi
frá Danmörku fyrir nokkrum árum
þegar skotið var á lögreglu af ein-
hverjum úr Hells Angels. Þar varð
stefnubreytingin nánast á einni
nóttu. Spurningin er hvort það sé far-
sælt. Er lögreglan sjálf tilbúin til þess?
Það þarf að þjálfa lögreglumenn því
þeir þurfa að vera í stakk búnir til að
takast á við ýmis tilvik þar sem grípa
þarf til vopna. Spurningin er hvort við
eigum að stökkva til í kjölfar atburð-
ar sem kannski gefur tilefni til þess
að endurskoða málin. Svona einstak-
ir atburðir hafa verið rannsakaðir og
spyrja má hverju vopn eða vopna-
burður lögreglu hefði breytt í slíkum
aðstæðum. Það er alltaf undirliggj-
andi að lögreglan á að sýna ákveðið
umburðarlyndi og þolinmæði og
reyna rökræður við menn sem ógna
öryggi borgaranna. En þeir verða
að geta gripið til harðari viðbragða í
neyðartilvikum.“
Þegar lögregla fer að líkjast her
Menn hafa nokkrar áhyggjur af því að
ef lögreglan fer að verða eins og hálf-
gildings her þá breytist ásýnd henn-
ar í augum borgaranna. Þeir fara ef til
vill að líta á hana sem einskonar ógn-
un og sumir þeirra fara að bera þetta
saman við alræði og lögregluríki,
henni verði beitt með harðari hætti
gegn andstöðuhópum og friðsöm-
um mótmælum. Um þetta eru dæmi
frá Spáni og víðar, segir Helgi. „Það er
vitanlega til dæmi um leynilega starf-
semi lögreglu sem vinnur óhæfu-
verk á laun í nafni ríkisins. Það að
sínu leyti tengist pólitískri spillingu
og menn óttast vitanlega þess hátt-
ar. Þetta er líka spurning um að þegar
lögreglumaður er farinn að bera vopn
og eitthvað gerist eins og þegar borg-
ari féll í Hraunbænum í lögregluað-
gerð þá eru lögregluþjónarnir í viss-
um skilningi fulltrúar borgaranna
þegar þeir skjóta. Lögreglumaður
sem skýtur á annan borgara í lög-
regluaðgerð gerir það í nafni sam-
félagsins, hann er ekki bara eyland
sem heyrir undir einn yfir mann. Við
lifum í lýðræðissamfélagi og lög-
reglan starfar í nafni okkar allra. Leiði
lögregluaðgerð til dauða einhvers
má kannski segja að við séum sjálf
farin að framkvæma dauðarefsingu á
staðnum. Mikill meirihluti Íslendinga
er á móti dauðarefsingu. Þetta er ein
af ástæðunum fyrir því að umræðan
um þetta verður að vera opin. Við eig-
um að ræða opið hvernig lögreglu við
viljum hafa og hvaða stefnu hún eigi
að fylgja vegna þess að hún starfar í
nafni okkar allra.“
Skiptar skoðanir – skotgrafa-
hernaður?
Í umræðu á Alþingi skiptust menn í
tvö horn; stjórnarandstæðingar sem
gagnrýndu pukur og leynd og vildu
opna umræðu og greiðan aðgang
að upplýsingum um vopnavæðingu
lögreglunnar og svo hinir sem virtu-
st styðja aðgerðirnar og gagnrýndu
fjölmiðla og þingmenn fyrir að leka
upplýsingum um aðgerðir þeirra.
Bentu á að við lifðum nú í hörðum
heimi og lögreglan yrði að hafa svig-
rúm til að bregðast við margvíslegum
ógnunum.
Helgi er afdráttarlaust þeirrar
skoðunar að umræðan um lög-
regluna eigi að vera opin. „Hún á að
fara fram á vettvangi samfélagsins.
En lögreglan á sjálf að vega og meta
störf sín, hafa sínar heimildir og fylgja
settum reglum. Lögreglan þarf að
koma sjónarmiðum sínum til sinna
yfirmanna og ráðherra þarf að bera
ábyrgð gagnvart löggjafarvaldinu og
samfélaginu. Þarna verður að vera
samspil. Lögreglan verður að vega og
meta hvaða viðbúnaður er nauðsyn-
legur í hverju tilviki á vettvangi. Það
stendur henni næst að meta þetta í
löggæslustörfum og við að annast ör-
yggi borgaranna. En lögreglan getur
ekki farið fram ein og sér og haft sjálf-
dæmi um þetta. Við búum ekki í al-
ræðisríki. Við búum ekki í lögregluríki
þar sem lögreglan að einhverju leyti
er eins og ríki í ríkinu. Hún verður að
sækja umboð til sinna yfirmanna; til
ráðuneytis og Alþingis. Og hluti af því
er almenn umræða.“
Helgi telur ekki farsælt að lög-
reglan hafi sjálfdæmi um það í hverju
umdæmi hvaða vopn hún ber eða
hvernig fara eigi með þau. „Við eigum
ekki að reka þetta rétt eins og hver
lögreglustjóri hafi sjálfdæmi um
vopnabúnað í sínu umdæmi. Miklu
eðlilegra er að fram fari almenn
stefnumótun um það hvernig þessu
er háttað og lögreglan og yfirmenn
hennar framfylgi slíkri stefnu. Þetta á
ekki að vera háð geðþótta þannig að
lögreglunni t.d. á Seyðisfirði þóknist
að hafa hríðskotabyssu í bifreið sinni
en þessu sé öðruvísi háttað annars
staðar. Þetta býður heim geðþótta og
því þarf að taka um þetta ákvarðanir
á breiðum grundvelli. Þannig verður
ábyrgðin miklu skýrari ef eitthvað
kemur upp á. Að vísa þessu til sér-
hvers lögreglustjóra er frekar losara-
leg stjórnsýsla að mínu viti.“
Farsæl stefna í áratugi
Helgi Gunnlaugsson segir það skipta
mjög miklu máli að sú hefð sem
hér hefur lengi ríkt í samskiptum
almennings og lögreglu sé varð-
veitt. „Við eigum að vera stolt af
þeirri hefð. Ef hér á að verða stefnu-
breyting, til dæmis í þá veru að setja
hríðskotabyssur í allar lögreglubif-
reiðar, þá verðum við að taka um-
ræðuna um það hvort við viljum
breyta eðli lögreglunnar. Íslenska
lögreglan hefur verið mjög farsæl
stofnun og kannski sú opinbera
stofnun sem nýtur mesta traustsins
í öllu landinu. Við megum ekki grafa
að ástæðulausu undan því trausti.
Lögreglan hefur verið í takti við þjóð-
ina og við megum ekki fara fram úr
okkur. Við þurfum að vera varfærin í
þessu efni. Það verður líka að halda
því til haga þegar rætt er um traust til
lögreglunnar, að hún hefur farið mjög
vel með vald sitt í gegnum tíðina. Við
höfum verið með sérsveit sem starf-
að hefur í um þrjátíu ár. Hún hafði
aldrei beitt vopnum á vettvangi fyrr
en í fyrra. Hún hefur talsvert vopna-
búr, allt að 600 byssur, en hefur nán-
ast aldrei beitt þeim. Að þessu leyti á
lögreglan að baki mjög farsæla sögu.
Og þá vaknar spurningin: Er einhver
ástæða til að breyta stefnunni á ein-
hvern róttækan hátt hvað þetta snert-
ir? Erum við tilbúin til þess að fórna
þessari farsælu sögu um samskipti
lögreglunnar við borgarana? Við
þurfum að minnsta kosti að stíga var-
lega til jarðar í þeim efnum. Og ef hér
á að gera breytingar á verður að fara
fram umræða um það í samfélaginu
öllu,“ segir Helgi og lýkur þar með
máli sínu. n
Sú mynd að Ísland sé land fárra afbrota
hefur einkanlega byggst á mati þar sem
skort hefur opinberar skýrslur og gögn um
afbrot. Þar til nýlega hafa talnagögn lög-
reglu ekki verið aðgengileg þar eð skráning
hefur engin verið eða óregluleg af hálfu
opinberra aðila. Af þessu leiðir að ekki hefur
reynst auðvelt að draga upp nákvæma og
sögulega mynd af afbrotum á Íslandi. Þetta
hefur verið afbrotafræðilegum rannsóknum
erfiður ljár í þúfu og gert þær jafnvel með
öllu ómögulegar. Á síðari árum hefur þó
skráning afbrota tekið framförum á sama
tíma og athygli hefur beinst í ríkari mæli að
afbrotum í samfélaginu.
Talnagögn lögreglunnar úr samtímanum
leiða í ljós að heildarfjöldi upplýstra afbrota
er raunverulega umtalsvert minni en í
mörgum öðrum löndum. Sem dæmi nam
heildarfjöldi skráðra brota um 6.000 fyrir
hverja 100.000 íbúa hér á landi á árunum
2000 til 2003. Fjöldinn var 9.000 í Dan-
mörku á sama tímabili, 10.000 í Finnlandi
og nær 14.000 í Svíþjóð. Á tímabilinu 2006
til 2008 var fjöldinn enn svipaður á Íslandi
og árin 2000 til 2003, eða um 6.000 fyrir
hverja 100.000 íbúa. Eldri skýrslur Interpol
um upplýst afbrot sýna einnig að tíðni hvers
kyns alvarlegra afbrota er lægri í Reykjavík
en í öðrum höfðuðborgum Norðurlanda.
Hér þarf að hafa í huga að vandasamt er að
bera saman afbrot í alþjóðlegu samhengi á
grundvelli opinnberra gagna um afbrot, svo
sem lögreglugagna. Verklag við skýrslugerð
er mismunandi frá landi til lands en það á
einnig við um framkvæmd laga og þann
hátt sem dómsmálayfirvöld hafa á skrán-
ingu og skýrslugerð um glæpi og brotahegð-
un. Þetta torveldar samanburðarrannsóknir
á afbrotum.
Jóhann Hauksson
johannh@dv.is
Afbrot og refsing á Íslandi á nýrri öld
Úr riti eftir Helga Gunnlaugsson
„En lögreglan getur
ekki farið fram ein
og sér og haft sjálfdæmi
um þetta.
Stigmögnun Helgi
Gunnlaugsson prófessor:
Stigmögnunin í vopna-
búnaði lögreglu hefur
stjórnast að verulegu leyti
af einstaka atburðum.