Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2013, Blaðsíða 206
204
Gunnar Ólafur Hansson
um framburði þeirra. Ekki væri þá ótrúlegt að af og til væri skotið yfir markið og
upprunalega tvíkvæðar myndir einnig „fyrndar" með því að fella burt u úr end-
ingunni og nota þær í stýfðu vísuorði — setja til dæmis konur í lok stýfðs vísuorðs
eins og einkvætt væri (þ.e. beita myndinni eins og hún væri, eða hefði til forna
verið, ,,konr“). Ef slíkt gerist aldrei hjá þessum tilteknu skáldum síðari alda þá
væri það býsna merkilegt, enda erum við þá aftur að sjá merki um sundur-
greinandi hefð (þar sem greint er á milli gamalla -r og -ur orðmynda), en í þessu
tilviki löngu eftir að tónkvæði er horfið úr málinu að áliti Hauks. Spurning er
hversu það mætti vera, enda sýnist mér að þá myndi veikjast allverulega sú rök-
semdafærsla Hauks að skáld hljóti að hafa reitt sig á tónkvæði til að halda í hina
sundurgreinandi rímhefð orðmynda með -(u)r á 15. öld. Því vil ég spyrja Hauk:
Spurning 5: Sér þess einhvern stað að 18. aldar skáld eins og Þorvaldur
Magnússon eða Sveinn Sölvason beiti óvart upprunalega tvíkvæðum mynd-
um (sögur, konur) í lok stýfðra vísuorðra, þar sem þær áttu hvorki heima
fyrir né eftir tíma stoðhljóðsinnskots — skriki sem sagt fótur við það að
„fyrna mál sitt“ í rími? Ef ekki, má eitthvað ráða af þeirri staðreynd?
Eg ætla að halda aðeins áfram með þá tilgátu mína að einhvers konar hljóðkerf-
isgerð — í það minnsta fónemísk gerð í hefðbundnum skilningi — liggi að ein-
hverju leyti til grundvallar jafngildisvenslum í kveðskaparhefðinni. Þá vaknar sú
spurning hversu „djúpt“ bragreglur geta seilst niður fyrir (eða aftur fýrir) hina
hreinu hljóðfræðilegu yfirborðsgerð orðmynda. Með öðrum orðum: Hversu
langt frá jrfirborðsgerð getur sú hljóðkerfisgerð legið sem bragreglur kunna að
skírskota til? Þetta er spurning sem oft kemur við sögu í ritgerðinni og færir
Haukur sterk rök fyrir því að bragreglur hafi ekki greiðan aðgang að svokölluð-
um baklægum gerðum klassískrar generatífrar hljóðkerfisfræði, en þar eru flest
hljóðbeygingarleg víxl leidd af hljóðkerfisreglum sem taldar eru verka á leiðinni
úr baklægri gerð yfir í yfirborðsgerðina og baklæga gerðin getur þ.a.l. verið býsna
hlutfirrt og frábrugðin þeim framburði sem sést á yfirborðinu. Þau rök sem eru
mest sannfærandi í þessu sambandi — og sem mér finnst að Haukur hefði jafn-
vel mátt hnykkja enn meir á en gert er í ritgerðinni — eru að ef svo væri ættum
við von á að sjá mun fleiri dæmi um að samhljóma orðmyndum væri haldið skipu-
lega aðskildum í rími á þeim forsendum að þau séu ólík í baklægri gerð. Þannig
ættu skáld t.d. að geta veigrað sér við því að ríma saman hvorugkynsmyndirnar
svalt, allt, kalt og valt, þar sem orðstofnar þeirra enda á ólíkum samhljóðum
eða samhljóðaklösum, sbr. karlkynsmyndirnar svalur, allur, kaldur, valtur.5 Slík
ímynduð dæmi mætti margfalda að vild.
Hins vegar má ímynda sér mörg stig á milli baklægrar gerðar af þessum toga
og fónemískrar gerðar, sem eru reyndar hvorttveggja djúpgerðir í þeim skilningi
5 Hér er ég vel að merkja að tala um skáld sem eru ekki með raddaðan framburð á It,
enda eru þessar myndir ekki allar samhljóða í þeirri mállýsku.