Bændablaðið - 12.02.2015, Blaðsíða 6

Bændablaðið - 12.02.2015, Blaðsíða 6
6 Bændablaðið | Fimmtudagur 12. febrúar 2015 Málgagn bænda og landsbyggðar Bændablaðið kemur út hálfsmánaðarlega. Því er dreift til allra bænda landsins og fjöl margra annarra er tengjast land búnaði. Bændablaðinu er dreift ókeypis til þeirra er stunda búskap en þéttbýlisbúar geta gerst áskrifendur að blaðinu. Árgangurinn kostar kr. 7.500 en sjötugir og eldri og lífeyrisþegar greiða kr. 3.750. Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300– Fax: 562 3058 – Kt: 631294-2279 Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is – Sími: 563 0339 – Rekstur og markaðsmál: Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is Blaðamenn: Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Sigurður Már Harðarson smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is Auglýsingastjóri: Erla H. Gunnarsdóttir ehg@bondi.is – Sími: 563 0303 – Frágangur fyrir prentun: Prentsnið. Netfang blaðsins (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is Netfang auglýsinga er augl@bondi.is Vefsíða blaðsins er www.bbl.is Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Landsprent og Íslandspóstur annast dreifingu blaðsins. ISSN 1025-5621 LEIÐARINN Það eru mörg baráttumálin hjá hagsmunasamtökum og pólitískum öflum á Íslandi. Nokkur þeirra virðast hafa það að höfuðmarkmiði að ganga af íslenskum landbúnaði dauðum. Þannig að hann sé ekki að þvælast fyrir kaupmönnum sem vilja óheft frelsi í innflutningi og álagningu á landbúnaðarvörur. Í þessari baráttu skiptir engu máli hvaða rök íslenskir bændur bera fram né íslenskir og erlendir vísindamenn og virtir fræðimenn í þróun matvælaframleiðslu á heimsvísu. Hinn íslenski Mammon þarf aukið olnbogarými á markaðnum. Fyrrverandi ritstjóri á Frétta- blaðinu og núverandi framkvæmda- stjóri Félags atvinnurekenda talaði í viðtali í Bítinu á Bylgjunni 5. febrúar um nauðsyn á frelsi í innflutningi á kjötvörum og sagði m.a.: „Okkar röksemdafærsla hjá Félagi atvinnurekenda hefur fyrst og fremst verið sú að neytendur eigi að geta valið. Það á að vera hægt að flytja inn kjöt á lágum eða helst engum tollum … og það þarf að vera umræða og upplýsing á meðal neytenda.“ Það er einmitt það. Er þá ekki rétt að ræða um aðvörunarorð lækna og tölur frá Evrópsku lyfjastofnuninni (EMA – European Medicine Agency) um lyfjanotkun í landbúnaði? Upplýst hefur verið að megnið af innflutta kjötinu komi frá Þýskalandi sem er mesti lyfjanotandi í landbúnaði í Evrópu! Framkvæmdastjórinn sagði frá því að erlendir birgjar íslenskra kjötinnflytjenda uppfylltu strangar kröfur um innra og ytra eftirlit með heilbrigði og hollustu, vottuð gæðakerfi og rekjanleika vörunnar niður á einstakar skepnur. Einmitt það. Í sjónvarpsþætti á RÚV fyrir skömmu var heimildamynd um kjötflutninga á milli landa sem sýndi vel fáránleika upprunamerkinga sem ESB gefur út. Þar var m.a. greint frá grísum sem aldir voru upp í Litháen, Finnlandi og í Danmörku og fluttir lifandi til Póllands. Eftir stutt áframeldi í Póllandi fóru þeir í pólsk sláturhús og var pakkað samkvæmt reglum ESB. Og viti menn, þá var upprunaland grísanna Pólland. Svipuð tilvik hafa komið upp varðandi kjúklinga-, hrossa- og nautakjöt. Menn vita lítið um raunverulegan uppruna. Þessi skrípaleikur er farinn að ganga mjög nærri úrvinnsluiðnaði í Danmörku og finnskir bændur óttast að þegar búið verði að hrekja þá af heimamarkaði muni innflutt kjöt stórhækka í verði. − Getur verið að það sé líka undirliggjandi markmið með óheftum innflutningi á kjöti til Íslands? /HKr. LOKAORÐIN Villandi tölvuleikir Viðskiptaráðs Viðskiptaþing er nú haldið undir yfirskriftinni „Tölvan segir nei“. Í þessum dálki var í síðasta tölublaði vikið að könnun sem Viðskiptaráð lét gera í tilefni þingsins þar sem meðal annars var spurt um hvort að svarendum þætti rétt að Bændasamtökin fengju rekstrarstyrk á fjárlögum. Hluti af niðurstöðum könnunarinnar var birt samhliða viðtali við framkvæmdastjóra ráðsins í Morgunblaðinu fyrir skömmu. Þar kom fram að meirihluti svarenda væri mótfallinn því að samtök bænda væru fjármögnuð af fjárlögum. Staðreyndum snúið á hvolf Þetta væri mögulega sanngjörn spurning ef Bændasamtökin fengju slíkan styrk. Það er hins vegar fjarri lagi eins og margoft hefur verið leiðrétt. Jafnframt kom fram í síðasta blaði að haft var samband við framkvæmdaaðila könnunarinnar og bent á að þarna væri verið að spyrja um hlut sem ætti sér ekki stað. Svarið var að eins mætti skilja spurninguna sem svo að hún snerist um hvort Bændasamtökin ættu að fara að fá rekstrarstyrk á fjárlögum þó það væri ekki þannig nú! Ef að samtökin hefðu verið spurð í könnuninni um hvort þeim hugnaðist að fá opinberan rekstrarstyrk hefði svarið klárlega verið nei. Það er ekki eftirsóknarverð staða fyrir hagsmunasamtök sem hafa heilmiklar skoðanir á því sem ríkisvaldið er að gera hverju sinni, að eiga allt undir árlegum fjárframlögum þess sama ríkisvalds. Bændasamtökin eru frjáls félagasamtök og í bókhaldi þeirra er skilið á milli þeirra fjármuna sem koma frá ríkinu vegna búnaðarlagasamnings og fjármuna sem fara í að reka hagsmunabaráttu bænda. Það er til fyrirmyndar hjá Viðskiptaráði að taka til umræðu skilvirkni og umbætur í rekstri hins opinbera á Viðskiptaþingi. Enn fremur er eðlilegt að Viðskiptaráð spyrji um og hafi skoðanir á því hvernig opinberu fé er varið. Það er réttur okkar allra að spyrja gagnrýninna spurninga, en þær þurfa að vera málefnalegar og byggja á staðreyndum. Þegar staðreyndum er snúið á hvolf eins og í þessu tilfelli hefði nú líklega verið betra að tölva Viðskiptaráðs hefði sagt nei! Andleg og líkamleg næring Bændur þekkja vel umræðuna um stuðning við landbúnað. Ýmsir telja að þeim fjármunum sem varið er til þeirra verkefna sé illa varið. Margoft hefur verið farið yfir rökin fyrir stuðningi við landbúnað á síðum Bændablaðsins og sú umræða mun vafalítið halda áfram. Matvælaframleiðsla er mikilvæg fyrir hverja þjóð, raunar svo að allar þjóðir láta sig hana varða á einhvern hátt. Það þarf ekki að fjölyrða um hvað mikilvægt er að tryggja fæðuöryggi. Við verðum öll að borða og við viljum alltaf hafa stöðugan og öruggan aðgang að nægu framboði gæðamatvara. Að því markmiði hafa stjórnvöld hérlendis alltaf unnið að með einhverjum hætti og gera það nú með beinum stuðningi annars vegar og tollvernd hins vegar. Þrátt fyrir það flytjum við inn landbúnaðarvörur fyrir 52 milljarða á ári, en út fyrir rúma 8. Ýmsir gætu sagt að þar væri ekki sérlega langt gengið við að efla innlenda framleiðslu. Vissulega munum við aldrei framleiða innanlands allar þær landbúnaðarvörur sem fluttar eru inn, en það er alveg örugglega tækifæri til að sækja þarna fram. Sitjandi ríkisstjórn starfar eftir stjórnarsáttmála þar sem meðal annars eru fyrirætlanir um að efla matvælaframleiðslu. Tími er kominn til að eitthvað fari að sjást til verka þar til dæmis með því að hefja vinnu við að móta starfsskilyrði landbúnaðarins á næstu árum. Greinin bæði þarf og vill sækja fram á næstu árum. Næstu búvörusamningar þurfa því að vera sóknarsamningar. Það er ekkert vit í öðru. En það er líka önnur næring sem skiptir samfélagið máli fyrir utan þá líkamlegu. Það er hin andlega næring. Rétt eins og framlög til landbúnaðarmála eru stundum gagnrýnd þá eru oft hnýtt í framlög til lista- og menningarmála. Stundum eru þá notuð svipuð rök að framlög til menningarmála skili litlum eða óljósum ávinningi. Hagsmunasamtök hinna skapandi greina hafa meðal annars látið skrifa skýrslur um hvað þær skili raunverulega miklum efnahagslegum ávinningi í ríkissjóð eða til landsframleiðslunnar. Ekki skal farið ofan í þær niðurstöður hér, enda er það staðreynd að hver þjóð þarf að styðja við sína menningu, hver sem hin raunverulegi hagnaður er. Sá hagnaður verður heldur ekki mældur í krónum eða aurum. Listir og menning hafa fylgt manninum eins langt og þekking okkar nær og þeirra gætir í öllum samfélögum. Löngu fyrir nútímann fann fólk hjá sér þörf fyrir að skapa, skreyta og túlka veruleikann með sínum hætti, þrátt fyrir að það væri ekki beinn hluti hinnar baráttu til að hafa í sig og á. Hin Íslenska alfræðiorðabók Arnar og Örlygs segir að menning sé „sú heild þekkingar, siðferðis, trúar og tákna sem er undirstaða mannlegs samfélags“. Ef við viljum hafa með okkur samfélag er hin andlega næring ekki síður mikilvæg en sú líkamlega. Þar þarf líka að sækja fram. Spennandi tímar Nú nálgast Búnaðarþing og í næsta blaði verður umfjöllun um helstu mál sem liggja fyrir þinginu. Bændasamtökin eru stolt af ýmsum verkefnum sem hafa fengið framgang eftir stefnumörkun Búnaðarþings hverju sinni. Eitt af þessum verkefnum er Opinn landbúnaður, sem felur í sér að hópur bænda hefur tekið að sér að opna bú sín til þess að skapa aukin tækifæri fyrir íbúa og gesti landsins til að kynna sér landbúnað og sveitamenningu. Ástæða er til þess að þakka þessum aðilum óeigingjarnt starf. Opinn landbúnaður og opin umræða á að vera okkar keppikefli. Það er þess vegna fagnaðarefni að nú liggja fyrir Búnaðarþingi nokkur stór mál sem ætla má að fái góða umræðu og farsælar lyktir á fulltrúaþingi okkar sem hefst 1. mars. Meira um það síðar. /SSS Dulin markmið? Ný bók um fjárhunda, þjálfun þeirra og uppeldi er komin út. Höfundurinn er Elísabet Gunnarsdóttir, en hún er menntaður hundaþjálfari og hefur haldið fjölmörg námskeið. Bókin heitir Border Collie fjárhundar – leiðarvísir um þjálfun og uppeldi. Í formála bókarinnar kemur fram að framboð á íslensku fræðsluefni um Border Collie fjárhunda – og tamningu þeirra – hafi ekki aukist í takt við aukna útbreiðslu tegundarinnar. „Margir þeir sem eiga slíka hunda gera sér ekki endilega grein fyrir hvaða væntingar þeir geta haft til hundsins eða hvaða vinna liggur að baki tömdum hundi. Allt of algengt er að bændur fari með hund í smalamennskur án þess að nokkur markviss tamning hafi átt sér stað og skammi svo hundinn þegar hann gegnir ekki. Það er því miður hlutskipti margra hunda sem vel gætu orðið ágætis fjárhundar, að sinna mjög takmörkuðum verkefnum eða vera jafnvel lokaðir inni þegar á að fást við fé. Útgáfa þessarar bókar mun vonandi stuðla að jákvæðri breytingu þar á,“ segir í formálanum. Bókin er til sölu í móttöku í Ásgarði á Hvanneyri og kostar 3.500 kr. Hægt er að panta bókina í síma 433-5000 eða á netfanginu dagny@ lbhi.is. /smh Ný bók komin út um þjálfun fjárhunda Elísabet með brúnu tíkina Lúsý. Forsíða bókarinnar.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.