Bændablaðið - 12.02.2015, Blaðsíða 14

Bændablaðið - 12.02.2015, Blaðsíða 14
14 Bændablaðið | Fimmtudagur 12. febrúar 2015 Endurkortlagningu náttúrulegra birkiskóga og -kjarrs á Íslandi er lokið. Niðurstaða kortlagningarinnar sýnir að í fyrsta sinn frá landnámi eru birkiskógar landsins að stækka og þekja nú hálft annað prósent landsins. Mest hafa skógarnir breiðst út á Vestfjörðum og Suðurlandi. Á kynningarfundi Rannsókna- stöðvar Skógræktar Íslands að Mógilsá sagði Aðalsteinn Sigurgeirsson forstöðumaður að hnignun skóganna sem hófst við upphaf byggðar í landinu sé lokið og birkiskógarnir farnir að breiðast út á ný. Arnór Snorrason skógfræðingur, sem stýrði verkefninu, rakti stuttlega sögu birkikortlagningar á Íslandi og hvernig hún hefði nýst við endurkortlagninguna sem tók fimm ár. Því næst rakti Björn Traustason landfræðingur helstu niðurstöður verkefnisins. Útbreiðsla birkiskóga aukist um 10% frá 1989 Í máli Björns kom fram að í dag þeki birki 1,5% landsins eða 1.506 ferkílómetra lands. Flatarmál þess hefur aukist um tæp 10% frá árinu 1989 eða um130 ferkílómetra. Til samanburðar benti Björn á að aukin útbreiðsla skóganna væri 50% meir en núverandi flatarmál Nornahrauns í Holuhrauni. Misjafnt er hversu mikið birkiskógarnir hafa breiðst út eftir landshlutum. Mest er aukningin á Vestfjörðum og Suðurlandi en minnst á Norður- og Austurlandi. Skýringuna á þessu má hugsanlega rekja til þess að meðalhiti hefur hækkað meira á vestanverðu landinu síðustu áratugi en á austurhelmingi landsins. Tré fullvaxta tveggja metra há Á fundinum kom fram að samkvæmt íslenskri skilgreiningu verði trjágróður fullvaxta þegar hann nær 2 m hæð og og geti þá kallast skógur. Annars er talað um kjarr. Íslenska birkið skiptist þannig að birkikjarr telst nú þekja hálft prósent landsins, um 547 km2, en birkiskógur þar sem fullvaxin tré eru tveir metrar eða hærri þekur um eitt prósent af heildarflatarmáli landsins, um 960 km2. Ef nota ætti alþjóðlega skilgreiningu um skóg þyrfti birkið að ná fimm metra hæð eða meira fullvaxið og þá teldust einungis um 115 km2 íslenska birkiskóglendisins vera skógur. Mikið verk óunnið úr gögnum Þrátt fyrir að niðurstöður liggi fyrir um flatarmál íslenskra birkiskóga er enn mikil vinna eftir sem tengist kortlagningunni og útbreiðslu einstakra birkiskóga í landinu. Kortlagningin sýnir að flatarmál birkis á Þórsmörk hefur aukist um 10 km2 frá eldri kortlagningu sem sýndi 4 km2. Útbreiðsla birkisins þar er því geysimikil sem má meðal annars þakka 80 ára friðun svæðisins fyrir beit. Borgarbyggð er það sveitarfélag á landinu sem mældist mest af birkiskógi og birkikjarri á landinu. . Umhverfisráðherra ánægð með niðurstöðurnar Undir lok kynningarinnar færði Jón Loftsson skógræktarstjóri Sigrúnu Magnúsdóttur umhverfisráðherra prentað kort af Íslandi þar sem birkiskóglendið hefur verið merkt inn. Af því tilefni sagðist Sigrún fagna gjöfinni og lýsti ánægju sinni með þær niðurstöður sem kynntar voru á fundinum. Vefsjá og „app“ Í tengslum við kynningu n i ð u r s t a ð n a n n a h e f u r skóglendisvefsjá Skógræktar ríkisins verið uppfærð á vef stofnunarinnar (skogur.is). Vefsjáin sýnir allt skóglendi sem upplýsingar eru til um á Íslandi, bæði náttúrulegt birkiskóglendi og ræktaða skóga. Enn fremur hefur verið útbúið smáforrit eða app sem nota má til að skoða vefsjána í símum og spjaldtölvum. /VH Fréttir Endurkortlagning náttúrulegra birkiskóga og -kjarrs á Íslandi: Birki þekur 1,5% landsins − útbreiðsla birkiskóga aukist um 10% frá 1989 prentað kort af Íslandi þar sem birkiskóglendið hefur verið merkt inn. Myndir / VH Arnór Snorrason skógfræðingur, sem stýrði verkefninu, rakti stuttlega Björn Traustason landfræðingur kynnti niðurstöður verkefnisins.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.