Bændablaðið - 12.02.2015, Blaðsíða 25
25Bændablaðið | Fimmtudagur 12. febrúar 2015
Víknaslóðum sem er gönguparadís.
„Fjallahringurinn hér hefur
geysimikið aðdráttarafl, hér um
slóðir var snemma byrjað á því að
stika gönguleiðir upp til fjalla og
það var allt gert í sjálfboðavinnu
af heimamönnum. Þannig að þegar
„gönguæðið“ rann á bæði Íslendinga
og erlenda ferðamenn var þetta
svæði tilbúið, fullt af stikuðum
leiðum um okkar tignarlegu fjöll
og við höfum búið að því. Kannski
má orða það sem svo að hér um
slóðir búi framsýnt fólk, við vorum
svolítið á undan okkar samtíð hvað
þetta varðar. Að þessu framtaki
stóð á sínum tíma Ferðamálahópur
Borgarfjarðar eystri og allt starf var
unnið í sjálfboðavinnu, bæði lengri
og skemmri gönguleiðir hér um
slóðir voru stikaðar, skálar reistir
eða lagfærðir þeir sem fyrir voru,
þannig að hér var allt til reiðu þegar
tækifæri sköpuðust í göngutengdri
ferðaþjónustu,“ segja þau Margrét
og Jakob.
Ekkert gsm-samband
Ekkert GSM-samband er í
Njarðvíkinni og kemur sér oft illa í
vetrarakstrinum þegar færð og veður
eru varasöm á Vatnsskarði og ekki
næst samband við áætlanabílstjórann
til að kanna hvort hann komist
yfir eða hafi lent í einhverjum
vandræðum.
„Þá er biðin oft löng fyrir þann
sem heima situr og ekki síður
bílstjórann ef bíða þarf lengi eftir
aðstoð. Á hinn bóginn getur þetta
GSM-sambandsleysi verið upplifun
fyrir ferðamanninn. Margir af okkar
gestum hafa haft orð á því hversu
gott er að vera án símasambands,“
segja þau.
Gestum gefst kostur á að kynnast
störfum bóndans
Þau hjónin tóku sig sjálf til og hófu
ferðaþjónustu á Borg í húsi sem
foreldrar Jakobs byggðu 1992.
Hugmyndin er sú að gefa íslenskum
og erlendum ferðamönnum kost
á að dvelja á staðnum, njóta
náttúrufegurðar en einnig að
gefa þeim kost á að taka þátt í
hefðbundnum landbúnaðarstörfum
með heimafólki og kynnast um leið
fjölbreyttu starfi bóndans.
„Við byrjuðum á þessu árið 2010
og starfsemin hefur vaxið jafnt og
þétt upp frá því,“ segir Margrét, en
þau eru innan Ferðaþjónustu bænda.
„Einnig erum við inni á vefsíðunni
booking.com, hún virðist ansi öflug
og margir sem nýta sér hana.“
Ferðaþjónustan er opin allt árið,
langmest er að gera yfir sumarið,
en elsta dóttir þeirra, Guðfinna, sá
um reksturinn síðasta sumar. Fram
að því höfðu þau séð um reksturinn
sjálf. „Það gekk mjög vel hjá okkur
á liðnu sumri og það næsta lítur
sömuleiðis afskaplega vel út, þannig
að þetta er vaxandi starfsemi hér hjá
okkur,“ segir Margrét. Hún nefnir
að þau hafi ekki sérstaklega farið í
markaðsátak vegna vetrarferða og
minna sé umleikis í ferðaþjónustunni
á þeim tíma.
Þorrablótið hápunktur
skemmtanalífsins
„Það er alltaf alveg nóg að gera
hjá okkur,“ segir Margrét sem
starfar meðal annars í kvenfélaginu,
kirkjukórnum og situr í fjallskilanefnd
hreppsins svo eitthvað sé nefnt,
Jakob er í sveitarstjórn og hefur
verið oddviti frá 2006. Ekki megi
gleyma þorrablótsnefndinni, þar sem
þau starfa fjórða hvert ár með alveg
ágætis fólki, en þorrablót í hinum
dreifðu byggðum landsins eru oftar
en ekki hápunktur skemmtanalífsins
á hverjum stað.
„Það er bara þannig í smærri
samfélögum að menn leggja hönd
á margan plóginn, þurfa að ganga
í öll störf og það gerum við svo
sannarlega hér um slóðir,“ segir
hún. Þorrablótið er einmitt gott dæmi
um það, en heimamenn sjá um allan
pakkann, frá A til Ö, sjá um öll aðföng
eins og matinn, skreyta salinn, búa til
skemmtiatriði og svo þarf að ganga
frá eftir öll herlegheitin.
Gott samfélag og mikil samheldni
„Þetta er gott samfélag og hér
er gott að búa, samheldni meðal
íbúa er mikil og hver og einn er
samfélaginu mikilvægur,“ segja þau.
Yfir vetrartímann una menn glaðir
við sitt, búa sjálfir til sína skemmtun
og þá gjarnan í kringum skólastarfið
þar sem færi gefst á að hittast og
eiga góða stund saman yfir spilum
eða kaffibolla og kökusneið. Íbúar
í sveitarfélaginu eru um 140 talsins,
í grunnskólanum eru 17 börn og 4 á
leikskólanum.
„Við búum sjálf til okkar viðburði
yfir veturinn og fólk er duglegt að
sækja þær samkomur sem í boði
eru enda hafa menn gaman af því
að hittast og spjalla,“ segir Margrét.
Umferð um svæðið að sumarlagi
hefur aukist mjög hin síðari ár og
þar á tónlistarhátíð Bræðslan sinn
þátt, en æ fleiri leggja leið sína á
hátíðina.
„En hér er líka mikil kyrrð, fegurð
og friðsæld sem margir sækja í, það
er ekki ónýtt að geta boðið upp á
þannig aðstæður.“ /MÞÞ
Það er fallegt í Njarðvík þar sem heimilisfólkið í Hlíðartúni rekur ferðaþjónustuna Borg. Mynd / MÞÞ
Ferðaþjónustan Borg Njarðvík
býður upp á bændagistingu á
Austurlandi. Borg er staðsett í
Njarðvík um 9 km frá kauptúninu,
Bakkagerði í Borgarfirði eystra.
Býlið stendur spölkorn frá
veginum, skömmu áður en
komið er að hinum alræmdu
Njarðvíkurskriðum en yfir þær
þarf að fara til að komast inn að
Bakkagerði. Vegurinn til Egilsstaða
liggur yfir Vatnsskarð og inn eftir
Héraðinu, en þangað eru um 62
kílómetrar.
Á Borg er starfrækt gistihús og
hægt er að bóka allt frá eins manns
herbergi upp í 4–6 manna íbúð. Á
efri hæð hússins eru herbergi til
leigu, með sameiginlegu eldhúsi og
tveimur snyrtingum og aðgangur að
baði og sturtu á annarri þeirra. Efri
hæðin hýsir átta í gistingu í rúmum,
en auðvelt er að bæta við dýnum ef
með þarf. Hæðin hentar ágætlega
fyrir t.d. tvær fjölskyldur. Á neðri
hæð hússins er íbúð sem hentar
vel fyrir 4–6 í gistingu og þar er
eldhúskrókur og eitt baðherbergi með
sturtu. Á báðum hæðum er aðgangur
að þráðlausu neti.
„Við erum í samstarfi við
Ferðaþjónustu bænda og leggjum
mikla áherslu á að veita friðsælt og
róandi umhverfi fyrir gesti okkar þar
sem þeir geta notið þess að vera í
íslensku sveitaumhverfi ásamt því að
upplifa sveitasæluna,“ segir Margrét.
Víkin fagra og magra
„Víkin fagra og magra“, eins og
nafna hennar, Margrét ríka á Eiðum,
sem uppi var í byrjun 16. aldar nefndi
Njarðvíkina, hefur upp á marga
möguleika að bjóða þegar kemur
að útivist, en m.a. eru fjölmargar
og skemmtilegar gönguleiðir í
nágrenninu. Ferðamenn sækja
einmitt mjög í gönguferðir og koma
margir hverjir gagngert til að stunda
slíkar ferðir.
Margrét nefnir nokkrar, m.a.
Stórurð sem er stikuð leið inn af
Njarðvíkinni, sem og gömlu leiðina
til Héraðs um Gönguskarð. Þá er stutt
í Víknaslóðir þar sem einnig eru vel
stikaðar gönguleiðir. Eins er friðsælt
og notalegt að rölta um fjöruna í
Njarðvík og ekki spillir fyrir að þar
má af og til sjá seli. Tveir hellar eru
í Norðurkrók fjörunnar sem gaman
er að líta inn í.
Njarðvíkursandur er skemmtilega
bogamynduð fjara og syðsti hluti
hennar er kallaður Suðurkrókur.
Þar rennur Njarðvíkuráin til sjávar
og myndar allstórt lón. Lækurinn
sem fellur niður í krókinn heitir
Krókslækur. Á bakkanum við
krókinn stóð býlið Króksbakki, en
það fór í eyði árið 1936 og enn þann
dag í dag má sjá tóftirnar af honum.
Fallegur fjallahringur
Njarðvíkin státar einnig af fallegum
fjallahring, þó svo að ekki séu stikaðar
gönguleiðir um allan hringinn eru
þó allnokkrar fjárgötur sem hægt
er að fylgja. Innst í víkinni blasa
Súlurnar við, 768 m að hæð. Svo
eru það Geldingsfjall, Sönghofsfjall,
Grjótfjall (697 m), Kerlingarfjall,
Tóarfjall og Skjaldarfjall. Stutt
er líka í gönguleiðar-paradísina,
Víknaslóðir, en þar má finna margar
skemmtilegar stikaðar gönguleiðir.
Inni í Njarðvíkinni er Innra-
Hvannagil, staður sem allir sem eru
á ferðinni um þessar slóðir ættu að
kíkja á. Hægt er að aka dálítinn spöl
upp með gilinu og þá er stutt ganga
Bændagisting á Borg Njarðvík:
Friðsælt umhverfi þar sem gestum
býðst að upplifa sveitasæluna
Ferðaþjónustan Borg Njarðvík býður upp á bændagistingu á Austurlandi, en starfsemin er í stóru og reisulegu
húsi á tveimur hæðum. Þar er hægt að bóka allt frá eins manns herbergi upp í íbúð sem hýsir 6 manns. Áhersla
Mynd / Hlíðartún
Framhald á næstu síðu.