Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2014, Blaðsíða 24
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 2. tbl. 90. árg. 201420
ástæður, sem þátttakendur nefndu að
stæðu í vegi fyrir því að þeir lærðu hjúkrun,
lág laun og mikið vinnuálag. Í löndum, þar
sem laun hjúkrunarfræðinga eru há, er
starfið eftirsótt og laðar að fleiri karlmenn.
Þátttakendur voru beðnir um að nefna
eitthvað þrennt sem félli undir starfssvið
hjúkrunarfræðinga. Langoftast voru
lyfjagjafir nefndar og því næst umönnun.
Þá nefndu mun fleiri karlar en konur
að hlutverk hjúkrunarfræðinga væri
að aðstoða lækna en það samræmist
einmitt þeirri gamalgrónu mynd sem áður
loddi við starfið.
Skortur
Því er spáð að starfandi hjúkrunar
fræðingum í hinum vestræna heimi þurfi
að fjölga um 30% á næstu 10 árum til að
uppfylla vaxandi hjúkrunarþörf. Væntanleg
fjölgun stafar af auknu forvarnarstarfi í
höndum hjúkrunarfræðinga, hækkandi
tíðni langvinnra sjúkdóma, svo sem offitu
og sykursýki, og hækkandi aldri fólks.
Einnig mun stór hluti hjúkrunarfræðinga
láta af störfum á næstu árum sökum
aldurs. Skortur á hjúkrunarfræðingum
skapar mörg tækifæri en hefur einnig
slæmar afleiðingar. Ólík sjónarmið geta
skipt sköpum þegar kemur að meðferð
sjúklinga. Fjölbreytileiki innan stéttarinnar,
sem fæst meðal annars með fjölgun
karlmanna í stéttinni, eykur víðsýni sem
stuðlar að fjölþættari og betri meðferð.
Vegna þess hversu mörg störf þarf að
ráða í á næstu árum á karlmönnum
trúlega eftir að fjölga innan stéttarinnar
víða um heim. Í félagatali Félags
íslenskra hjúkrunarfræðinga eru karlar
89 talsins og það gerir þá rétt um tæp
2% félagsmanna. Um 8% þeirra eru
yngri en 30 ára og karlar í hjúkrunarnámi
við Háskóla Íslands eru aðeins um 1%.
Ísland mun því dragast enn frekar aftur
úr ef engin breyting verður á.
Fjölmiðlar
Sú ímynd hjúkrunarfræðinga, sem þætti
æskileg, á undir högg að sækja og
eru fjölmiðlar þar ein helsta ógnin. Í
mörgum sjónvarpsþáttum eru læknar
í aðalhlutverki og leika hetjur en
hjúkrunarfræðingar eru þeim innan
handar, ef þeir sjást þá yfir höfuð. Í
þáttunum eru sömu læknar oft einnig
látnir sinna hlutverkum hjúkrunarfræðinga
og jafnvel sjúkraliða og þannig verður til
sá misskilningur að læknar séu einir
uppistaðan í heilbrigðiskerfinu.
Í fréttum og umfjöllun um kjör og starf
hjúkrunarfræðinga eru karlar sjaldséðir.
Það mæðir mikið á þeim sem nú þegar
eru í sviðsljósinu og þreytast þeir fljótt á
allri athyglinni en það er nauðsynlegt að
karlar í hjúkrun taki höndum saman og
láti mikið á sér bera. Því oftar sem fólk
sér karla við hjúkrunarstörf því fyrr fer því
að finnast það hversdagslegt, ómerkilegt
og að lokum „eðlilegt“.
Það er staðreynd að störf lögreglu
manna, sjúkraflutningamanna og slökkvi
liðs manna þykja karlmannleg. Oft eru
hin svokölluðu karlastörf tengd háum
launum en það á ekki við um þessi
störf. Hvort þau þykja karlmannleg
vegna táknmyndarinnar um að vinna
hetjudáð veit ég ekki, en öruggt er
að hjúkrunarfræðingar á nýburagæslu,
gjörgæslu, bráðamóttöku, skurðstofu
eða á hvaða legudeild sem er framkvæma
slík afrek á hverjum degi.
Almennt er litið á hjúkrun sem göfugt
og umhyggjusamt starf en svo virðist
sem lítið sé gert úr hversu yfirgripsmikil
þekking liggur að baki. Staðfest er að
hjúkrunarfræðingar gegna mikilvægu
hlutverki við öryggi sjúklinga og eflingu
heilbrigðiskerfisins. Þá sýna rannsóknir
að dánartíðni gjörgæslusjúklinga eykst
eftir því sem sjúklingum fjölgar á hvern
hjúkrunarfræðing.
Brengluð ímynd
Maður og sonur hans lenda í alvarlegu
bílslysi. Faðirinn deyr en sonurinn er
sendur á bráðamóttökuna. Þegar
læknirinn lítur á hann hrópar hann: „Þetta
er sonur minn!“ – Hver er læknirinn?
Svarið við gátunni hér að ofan er gott
dæmi um það hversu djúpt staðalímyndir
eru greyptar í huga okkar. Mannsheilinn
er svo snöggur að vinna úr upplýsingum
og flokka þær að við veitum því ekki einu
sinni athygli ef við höfum myndað okkur
skoðun á öðru fólki áður en við kynnumst
því. Hafi þér ekki tekist að ráða gátuna,
eins og höfundi þessarar greinar á sínum
tíma, gæti þér brugðið við svarið en
eðlilega er læknirinn móðir stráksins.
Eins og staðan er nú minnir staðalímynd
íslenskra hjúkrunarfræðinga um margt
á umhyggjusama og blíða móður. Það
er því ekki furða að fáir karlmenn sæki
í þetta starf. Breyta þarf umræðunni
og sýn almennings á hlutverk og starf
hjúkrunarfræðinga til þess að auka
aðsókn karla í starfið. Erlendar rannsóknir
sýna að karlmenn velja hjúkrun af sömu
ástæðu og konur, þ.e. að hlúa að veikum
og slösuðum, takast á við vandasöm
verk í starfi og njóta starfsöryggis um
heim allan.
Því er stöðugt haldið á lofti, ekki síst af
hjúkrunarfræðingum sjálfum, að hjúkrun
feli í sér mikla umhyggju og nánd. Við
það skapast þakklæti og viðurkenning í
garð stéttarinnar sem oft þarf að kljást
við erfiðar aðstæður. En slík ummæli
um starfið geta verið varasöm. Eigi
karlar á þeirri hættu að vera álitnir
tilfinninganæmir eða meyrir vegna starfs
síns hefur það óneitanlega áhrif á aðsókn
margra þeirra í starfið. Betur þyrfti að
greina á milli þeirrar umhyggju er byggist
á væntumþykju og flestir þekkja úr eigin
lífi og umhyggju sem afurð sérfræðilegrar
færni og þekkingar.
Vinir í neyð
Tengsl eru einnig mikilvæg í starfi
hjúkrunarfræðinga en orðið „tengsla
myndun“ eitt og sér getur virkað
fráhrindandi á marga. Þó ætti eitt
eftirminnilegt dæmi um myndun slíkra
tengsla að nægja til að lýsa fegurðinni
í einfeldni þeirra. Í myndinni Les
Entouchables, sem er byggð á sannri
sögu, réð hátt settur maður, bundinn við
hjólastól, ungan mann sem umönnunar
aðila. Ungi maðurinn var bláfátækur og
hafði enga reynslu á slíku sviði. Þeir
voru afar ólíkar manngerðir en áttu þó
það sameiginlegt að koma fram hvor
við annan sem jafningja. Virðing og
traust leiddi til væntumþykju og loks til
ósvikinnar vináttu.
Þó svo að velvild sé einstaklingsbundin
eru hjúkrunarfræðingar markvisst þjálfaðir