Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2014, Side 39
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 2. tbl. 90. árg. 2014 35
Staðbundin einkenni húðsýkinga felast
í roða, bólgu, hita, verk og vessa. Í
heimakomu er húðin oftast rauð og
upphleypt. Brúnirnar eru afmarkaðar
þannig að auðveldlega er hægt að strika
umhverfis roðasvæðið og fylgjast með
gangi mála. Stundum fylgir rauð rák
sogæðakerfinu upp eftir fótleggnum og
endar í eitlastöðvum í nára og er þar oft
eymsli að finna. Í slæmri sýkingu geta
myndast vökvafylltar blöðrur sem springa
og verða að sárum (Hirschmann og Raugi,
2012). Roði húðnetjubólgunnar er ekki
eins afmarkaður og er algengt í slæmum
sýkingum að myndist graftrarkýli undir
húð (e. abscess) sem þarf að opna með
ífarandi aðgerð og jafnvel drenísetningu
(Penrosedren) (Bailey og Kroshinsky,
2011). Einstaklingur með húðsýkingu
getur fengið hita og einkenni eins og
slappleika, höfuðverk, ógleði og jafnvel
uppköst (Nazarko, 2012). Þessi almennu
flensueinkenni birtast oft fyrst og koma
staðbundin einkenni roða og bólgu
ekki fyrr en eftir margar klukkustundir.
Þetta leiðir til þess að einstaklingurinn
er lengur að leita sér læknisaðstoðar og
því seinkar greiningu og réttri meðferð
(Carter o.fl., 2007). Sé sýkingin ekki
meðhöndluð tímanlega geta fylgikvillar
komið eins og graftarkýli, beinsýking,
drep í mjúkvefjum, blóðsýking og dauði
(Celestin o.fl., 2013).
Hverjir fá þessar sýkingar?
Fólk á öllum aldri getur fengið húðsýkingu.
Algengast er að menn fái sýkingu eftir
einhvers konar áverka þannig að húðin
rofnar og hleypir bakteríunum inn.
Áhættuþættir eru margir eins og sjá má í
töflu 1 (Björnsdóttir o.fl., 2005). Algengt
er að karlmenn á miðjum aldri, sem
stunda sund og heita potta og sinna
lítið fótum sínum, fái sýkingu. Þeir eru
gjarnan með sveppasýkingar á fótum,
milli táa og á tánöglum. Sveppirnir rjúfa
húðina og hleypa þannig bakteríunum
inn. Aldraðir koma inn vegna byltna og
áverka í kjölfarið. Þeir hafa einnig marga
aðra sjúkdóma, eins og sykursýki, og
leggjast inn með sykursýkisár og fá
húðsýkingu þar í kring.
Bjúgur er algengur áhættuþáttur sem getur
verið tilkominn vegna fyrri sýkinga, vegna
bláæðavandamála, sogæðavandamála
eða fyrri aðgerða á fótleggjum. Bjúgur
hefur reynst bæði orsök og afleiðing
húðnetjubólgu og sýnt hefur verið fram á
tengsl langvinns bjúgs og endurtekinnar
sýkingar (Cox, 2006). Bjúgurinn leiðir
til þess að húðin verður gegndræp og
viðkvæmari fyrir sýkingum. Þeir sem hafa
langvinnan bjúg eru oft komnir með
litabreytingar í húð, stasaexem og mikinn
þurrk. Kláði fylgir í kjölfarið og hætta á
sýkingu eykst. Offitusjúklingar leggjast
í vaxandi mæli inn með húðsýkingar
þar sem bláæðarnar í fótunum eru oft
ónýtar vegna þyngsla og oft og tíðum má
sjá mikinn sogæðabjúg hjá þessu fólki.
Þeir ná ekki niður á fæturna til þess að
sinna almennu hreinlæti (Hirschmann og
Raugi, 2012). Sykursýki, offita, fótasár
og hækkandi aldur hafa leitt til þess
að innlagnir vegna húðnetjubólgu hafa
aukist um 77% síðastliðin 7 ár í Bretlandi
(Nazarko, 2012).
Umfang og alvarleiki húðsýkinga
Húðnetjubólga er algeng ástæða
þess að einstaklingar leita þjónustu
heilbrigðiskerfisins. Algengast er að þeir
leiti til heilsugæslunnar vegna einkenna
og eru sendir heim á töflumeðferð. Alls
voru 2.702 komur til heilsugæslulæknis
árið 2010 vegna húðnetjubólgu. Oft
dugir töflumeðferð ekki, einkennin fara
versnandi og endar það með inngjöf
sýklalyfja í æð annaðhvort á göngudeild
eða með innlögn á sjúkrahús. Þeir
sem leggjast inn eru yfirleitt aldraðir,
með ýmsa sjúkdóma, geta ekki verið
á fótum vegna einkenna og eru orðnir
bráðveikir. Sjúklingarnir leggjast yfirleitt
inn til stutts tíma ef engir fylgikvillar
koma upp. Legurnar geta verið mislangar
því samkvæmt tölum Landspítalans árið
2010 voru legur allt frá einum degi til
72 daga. Sýnt hefur verið fram á að
lengd legu er í beinum tengslum við
endurteknar sýkingar þannig að hver
ný sýking er erfiðari viðureignar og
tekur lengri tíma að ná á henni tökum
(Karppelin o.fl., 2010).
Erlendis er talið að meðallegutími
einstaklinga með húðnetjubólgu sé
sjö til tíu dagar (Dutton o.fl., 2009).
Einu tíðnitölur um húðsýkingar á
öllu landinu er að finna á heimasíðu
landlæknisembættisins. Síðustu tölur eru
frá 2009 og voru legur á sjúkrahúsum
vegna sýkingar í húð og húðbeði 455
talsins en meðallegutími á sjúkrahúsum
5,3 dagar. Legudagar á Landspítala
árið 2012 voru 1.394 sem má túlka
þannig að fólk með húðnetjubólgu taki
fjögur legudeildarpláss á hverjum degi.
Af 218 legum árið 2012 fengu 105 þeirra
einstaklinga ekkert eftirlit eftir útskrift eða
í tæpum 50% tilfella. Miðað við skráningu
og upplýsingar frá sjúklingum er mjög
algengt að einstaklingar hafi fengið
endurteknar sýkingar í gegnum árin. Það
er mjög mismunandi hve langur tími
líður á milli sýkingartilfella, mjög algengt
með eins til þriggja ára millibili. Erlendar
heimildir staðfesta þetta en talið er að
3050% einstaklinga fái sýkingu á nýjan
leik (Hirschmann og Raugi, 2012). Af
framansögðu er ljóst að hópur sjúklinga,
sem leggst inn á Landspítala, er nokkuð
stór, legudagar eru margir og allt of fáir fá
eftirlit eftir útskrift af spítalanum.
Meðferð við húðsýkingu
Fyrir 2012 var meðferð á Landspítala
við húðnetjubólgu sýklalyf í æð í nokkra
daga og svo voru sjúklingarnir útskrifaðir
á töflumeðferð heim. Staðbundna með
ferðin var hálega á sýkta útlimnum og
húðmeðferð var ómarkviss. Sjaldan var
hugsað út í orsakir og þær meðhöndlaðar.
Fræðsla til þessa fólks var óformleg
og hugsanlega engin. Ég hef hjúkrað
einstaklingum með húðsýkingar í 14 ár
og átt við þá samræður. Komið hefur í ljós
að margt má betur fara í þjónustunni sem
þeir fá. Í augum heilbrigðisstarfsmanna er
kannski um einfalda sýkingu að ræða en
Tafla 1. Áhættuþættir húðsýkinga.
• Örverugróður á fótum (sveppir)
• Áverki á húð (bruni, skrámur, brot,
skurður, húðflúr)
• Offita
• Aðgerðir
• Fyrri sýkingar
• Bláæða og/eða sogæðasjúkdómur
• Sár
• Ónæmisbæling/næringarskortur
• Bjúgur
• Bit og klór
• Exem og psoriasis
• Þurr húð
• Alkóhólismi og sprautufíkn.