Morgunblaðið - 26.09.2015, Side 16

Morgunblaðið - 26.09.2015, Side 16
16 FRÉTTIRInnlent MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 26. SEPTEMBER 2015 Guðni Einarsson gudni@mbl.is Landhelgisgæslan (LHG) býður landsmönnum til opins húss á morg- un, sunnudag, í flugskýli sínu í Naut- hólsvík. Tilefnið er þrefalt afmælisár hjá LHG. Móttakan stendur yfir frá klukkan 12.00 til 16.00. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar ætla að taka vel á móti gestum. Fjöl- breytt starfsemi gæslunnar verður kynnt og gestir geta skoðað þyrlur hennar og flugvél og ýmsan annan búnað. Þar má nefna báta, köfunar- búnað, sprengjueyðingarbúnað, sjó- kort, ýmis mælitæki og margt fleira. Gestum er bent á að leggja bílum á stæði við Háskólann í Reykjavík og í Nauthólsvík. Bílastæði við flug- skýlið verða eingöngu fyrir gangandi umferð og hreyfihamlaða. Þrjú afmæli á árinu „Það eru merk tímamót hjá Land- helgisgæslunni á þessu ári,“ sagði Sindri Steingrímsson, flugrekstr- arstjóri LHG. „Flugdeildin verður 60 ára á árinu, þyrlusveitin okkar 50 ára og eins eru 40 ár síðan land- helgin var færð út í 200 sjómílur. Hugmyndin er að bjóða lands- mönnum í heimsókn í opið hús hér á Reykjavíkurflugvelli af þessum til- efnum.“ Sindri sagði starfsmenn LHG vona að sem flestir kæmu í heimsókn til að kynna sér starfsemina, hitta mannskapinn, skoða búnaðinn og fagna tímamótunum. Eignaðist fyrst flugbát Landhelgisgæslan fór snemma að nýta flugvélar til eftirlits með land- helginni. Fyrstu árin voru leigðar farþegaflugvélar til eftirlitsflugs með góðum árangri. Togarar voru staðnir að landhelgisbrotum og skip- stjórar þeirra dæmdir. Árið 1955 eignaðist LHG sína fyrstu flugvél. Það var Catalina- flugbátur af gerðinni PBY-6A sem fékk einkennisstafina TF-RAN. Jafnframt var flugvélinni gefið nafn- ið Rán í höfuðið á konu jötunsins Ægis. Hann var konungur hafsins samkvæmt norrænni goðafræði. Flugvélin hafði verið í eigu varn- arliðsins á Keflavíkurflugvelli og var notuð til eftirlits- og björgunarflugs við landið. Vélin laskaðist við Norð- austurland. Flugmálastjórn eign- aðist flugvélina og lét gera við hana. Síðan eignaðist Landhelgisgæslan flugbátinn. Flugvélin fauk svo á hvolf í ofsaveðri og eyðilagðist. Landhelgisgæslan og Slysavarna- félag Íslands ákváðu árið 1964 að festa í sameiningu kaup á lítilli þyrlu. Fyrsta þyrlan kom 1965 Þyrlan kom til landsins árið eftir eða fyrir 50 árum og var fyrsta þyrla Landhelgisgæslunnar. Þyrlan var af gerðinni Bell 47J og fékk einkennis- stafina TF-EIR. Hún var nefnd eftir ásynjunni Eir sem var lækninga- gyðja heiðinna manna. Landhelgisgæslan hafði öðlast nokkra reynslu af þyrlum Varnar- liðsins áður en þyrlan var keypt. Nýjasta varðskipið á þeim tíma, Óð- inn, var með þyrlupall. Forsvars- menn LHG töldu orðið löngu tíma- bært að stofnunin eignaðist þyrlu. Slysavarnafélagið hafði átt aðild að sjúkraflugi allt frá 1949 og átti hluti í þremur sjúkraflugvélum þeg- ar ákveðið var að kaupa helming í þyrlu á móti Landhelgisgæslunni. Þyrlan var í notkun frá 1965 til 1971. Útfærslan í 200 mílur Barátta Íslendinga fyrir fiskveiði- landhelgi sinni var hörð og frækileg. Íslensk landhelgisgæsla hófst upp úr 1920 með leiguskipum. Síðan eign- uðust Íslendingar eigin varðskip. Fiskveiðilögsagan var færð út í 12 sjómílur árið 1958. Bretar, sem stunduðu miklar togveiðar við land- ið, brugðust hart við og sendu her- skip á Íslandsmið. Næst var landhelgin færð út í 50 sjómílur árið 1972 og svo aftur í 200 sjómílur árið 1975, fyrir 40 árum. Bretar brugðust enn harðar við en áður í tveimur síðari þorskastríð- unum vegna 50 og 200 mílna útfærsl- anna. Það kom til átaka milli ís- lensku varðskipanna og breskra herskipa og dráttarbáta á miðunum. Íslensku varðskipin beittu óspart leynivopni sínu, klippunum, og skáru á togvíra útlendra togara sem ekki virtu landhelgismörkin. Öllum þremur landhelgisstríð- unum lauk með fullum sigri Íslend- inga. Þjóðin fylkti sér á bak við hetjur hafsins sem mönnuðu ís- lensku varðskipin. Barátta Íslend- inga fyrir fiskveiðilögsögu ruddi leið- ina fyrir aðrar þjóðir sem nú njóta einnig 200 sjómílna fiskveiði- landhelgi. Morgunblaðið/Árni Sæberg Flugflotinn Landhelgisgæslan starfrækir nú þrjár Super Puma þyrlur og sérútbúna flugvél af gerðinni Dash - 8 Q300. Myndin var tekin við flugskýli Landhelgisgæslunnar í Nauthólsvík. Opið hús á þreföldu afmælisári  Flugdeild Landhelgisgæslunnar er 60 ára  Þyrlusveitin 50 ára  40 ár frá útfærslu í 200 mílur Morgunblaðið/Árni Sæberg Grænland Þyrla Landhelgisgæslunnar að störfum við verkefni í Grænlandi. Flugvél LHG hefur oft verið leigð til eftirlitsstarfa á Miðjarðarhafi. Ljósmynd/Landhelgisgæslan Fyrsta flugvélin Landhelgisgæslan eignaðist flugbátinn Rán fyrir 60 árum. Ljósmynd/Landhelgisgæslan Fyrsta þyrlan LHG og Slysavarnafélagið keyptu þyrlu fyrir 50 árum.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.