Iðjuþjálfinn - 01.06.2015, Blaðsíða 34

Iðjuþjálfinn - 01.06.2015, Blaðsíða 34
34 Landspítali Háskólasjúkrahús (LSH) í Fossvogi og við Hringbraut er bráðasjúkrahús sem hefur það markmið að þjónusta allt landið. Iðjuþjálfun á þessum stöðum er rekin sem ein eining og eru átta stöðugildi iðjuþjálfa auk sérhæfðs starfsmanns. Starfsemi iðjuþjálfunar er staðsett á endurhæfingadeild og heyrir undir Flæðissvið LSH. Iðjuþjálfar sinna öllum deildum spítalans eftir þörfum og þjónusta einstaklinga sem eiga erfitt með að takast á við athafnir daglegs lífs eftir slys eða veikindi. Orsakir færniskerðingar geta verið af ýmsum toga, m.a. skapast af völdum sjúkdóma eins og heilabilunar, hjarta-, lungna-, krabbameins-, smit- og taugasjúkdóma. Einnig geta slíkar skerðingar komið í kjölfar liðskiptaaðgerða, heilablóðfalls og/eða annarra áfalla. Meginstarf iðjuþjálfa er að meta færni einstaklings við daglegar at- hafnir með tilliti til þess að útskrifa það heim eða til þess að meta þörf á frekari endurhæfingu. Gerð er skimun á vitrænni getu, aðstæður einstaklings metnar, aksturshæfni svo og hjálpartækjaþörf eftir því sem við á. Við mat á færni og getu eru í flestum tilvikum notuð viðurkennd stöðluð matstæki, spurninga- og gátlistar. Iðjuþjálfar eru virkir þátttakendur í þverfaglegum teymum spítalans innan sem utan deilda. Sem dæmi um teymi utan deilda má þar helst nefna MND, útskriftar- og fullorðinsteymi. Leitast er við að nálgast einstaklinginn á heildrænan máta þar sem hver og einn fagaðili kemur inn með sína sérþekkingu. Skipu leggja þarf áætl- un með það að markmiði að auka færni einstaklingsins og undirbúa næstu endurhæfingarskref eða útskrift. Einstaklingum og hópum er meðal annars veitt fræðsla, kennsla og ráðgjöf varðandi hjálpartæki, líkamsbeitingu og húsnæðisbreytingar. Leitast er við að stuðla að aukinni sjálfsbjargargetu og auknu öryggi heima við. Á bráðadeildum þarf vinnan að ganga hratt og vel fyrir sig þar sem flæði er mikið og legutími einstaklinga í flestum tilfellum skammur. Sökum þess er samstarf við önnur úrræði utan LSH mikilvæg. Sem dæmi um önnur úrræði má nefna aðrar heilbrigðisstofnanir, Sjúkratryggingar Íslands og heimahjúkrun. Í Fossvogi er starfandi iðjuþjálfi í fullu starfi við spelkugerð sem vinnur í nánu samstarfi við handaskurðlækna og sjúkraþjálfara. Aðallega eru útbúnar spelkur fyrir efri útlimi og þá helst vegna skaða, skipulagðra aðgerða og eftir bruna. Um er að ræða spelkur, allt frá litlum fingurspelkum upp í dýnamískar togspelkur. Á mynd 1 má sjá dæmi um dýnamíska togspelku fyrir radialis paresu. Spelkugerð er einnig sinnt í göngudeildarþjónustu þar sem beiðnir berast frá sérfræðingum utan LSH. Í byrjun árs 2014 hófst mikil vinna þar sem starf iðjuþjálfunar á bráðadeildum var endurskoðað. Meðal annars var farið í það að finna út hvaða þjónustuferli hentaði starfseminni. Haldnir voru vinnufundir þar sem allir iðjuþjálfar á bráðadeildum LSH komu saman, farið var yfir greinar og aðrar heimildir og það borið saman við þá þjónustu sem veitt er. Út frá þeirri vinnu var ákveðið að styðjast við Occupational Therapy Intervention process Model (OTIPM). Helstu ástæður fyrir því að þetta ferli varð fyrir valinu voru þær að það hentar vel í bráðaþjónustu og ferlið leggur áherslu á færniskerðingu í kjölfar veikinda eða slysa. Auk þess sem ferlið er sveigjanlegt, ekki bundið við ákveðna hugmyndafræði og gefur því möguleika á að notast við margvíslegar aðferðir við mat og íhlutun. Í aprílmánuði það sama ár var haldin vinnusmiðja um hugmyndafræði á vegum fagráðs iðjuþjálfunar á LSH þar sem fjallað var um þjónustuyfirlit sem grundvöll gæðaeftirlits og sem kveikju að hugmyndaþróun á starfsstöðvum iðjuþjálfa. Ekki verður farið nánar í það hér en hægt er að kynna sér það frekar í grein Guðrúnar Árnadóttur um þetta efni. Í kjölfar vinnusmiðjunnar var unnið að því að hanna og útbúa yfirlitstöflu í þeim tilgangi að fá betri yfirsýn yfir þjónustuna og það þjónustuferli sem unnið er eftir. Þrátt fyrir stuttan reynslutíma hefur taflan reynst vel og skilað sér út í starfið. Hún er gott verkfæri sem gerir starfið skilvirkara og áþreifanlegra. Þjónusta iðjuþjálfa er í sífelldri endurskoðun og er leitast við að hafa hana gagnreynda, vegna þess er taflan í sífelldri þróun og þeirri vinnu er í raun aldrei endanlega lokið. Án efa mun hún nýtast vel í framtíðinni fyrir nýtt starfsfólk og nema í vettvangsnámi. Þessi vinna var þörf og hefur virkilega verið í senn lærdóms- og árangursrík. Eins og vonandi hefur skilað sér í þessari grein þá er starf iðjuþjálfa innan bráðadeilda afar fjölbreytilegt og spennandi. Enginn dagur er öðrum líkur og á hverjum degi er tekist á við nýjar áskoranir sem krefjast útsjónarsemi og lausnamiðaðrar nálgunar. Iðjuþjálfun á bráðadeildum Landspítala Aldís Ösp Guðrúnardóttir iðjuþjálfi á bráðadeild Landspítala Guðríður Erna Guðmundsdóttir iðjuþjálfi á bráðadeild Landspítala Mynd 1 . Dýnamisk togspelka

x

Iðjuþjálfinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.