Þjóðmál - 01.12.2010, Page 91
Þjóðmál VETUR 2010 89
Jónína nefnir af einhverjum ástæðum
ekki nafn þess manns, sem braust
inn í tölvu hennar, hnuplaði þaðan
tölvuskeytum og seldi síðan Fréttablaðinu
og DV . Hygg ég, að sá sé hinn sami og
skrifaði undir dulnefninu rimryts . Birtu
þessi tvö blöð Baugsfeðga tölvuskeytin,
og tókst Jónínu ekki að fá lögbann við
birtingu þeirra staðfest fyrir dómstólum,
þótt með þessu væri ráðist freklega inn
í einkalíf hennar . Reyndu Baugsfeðgar
með þessu og mörgu öðru að sýna fram
á, að kæra Jóns Geralds Sullenbergers,
lögreglurannsóknin í framhaldi af henni og
ákæran væri runnin undan rifjum Davíðs
Oddssonar, sem þeir töldu fjandsamlegan
sér . Ekkert í þessum tölvuskeytum veitir
hina minnstu vísbendingu um það . Jónína
reyndi margsinnis að hafa tal af Davíð í
forsætisráðherratíð hans, en það tókst ekki,
þar eð hún vildi aldrei greina frá erindi
sínu .
Bók Jónínu Benediktsdóttur staðfestir,
svo að ekki verður um villst, að Baugsmálið
var ekki stjórnmálalegt í eðli sínu . Tveir
einstaklingar, sem töldu Baugsfeðga hafa
leikið sig grátt, efndu til málareksturs
á hendur þeim, og að lokum sakfelldu
dómstólar Jón Ásgeir . Eftir lestur þessarar
bókar hugsaði ég með sjálfum mér, að ekki
vildi ég vera óvinur Jónínu: Hún barðist
við ofurefli liðs með öllum þeim ráðum,
sem henni voru tiltæk, góðum og vondum .
Sást hún þá ekki ætíð fyrir . Minnir hún
á kvenskörunga fornaldar á Íslandi, ekki
síður Hallgerði langbrók en Guðrúnu
Ósvífursdóttur . Hitt er annað mál, að ekki
vildi ég heldur vera vinur Jónínu, því að
hún sýnir mikið tillitsleysi, þegar hún birtir
í leyfisleysi tölvuskeyti frá mönnum og segir
frá tveggja manna tali á þann hátt, sem kann
að koma viðmælandanum illa . En hvað sem
því líður, er bók Jónínu fróðleg heimild um
Baugsmálið .
Pólitísk sjálfsmynd
Björgvins G .
Björgvin G . Sigurðsson: Stormurinn reynslusaga
ráðherra. Nýtt land, Reykjavík 2010, 222 bls .
Eftir Grétu Ingþórsdóttur
Í viðtali við Björgvin G . Sigurðsson, sem birtist í Fréttatímanum síðustu helgina í
nóv ember, segir hann að hann hafi ákveðið
að festa „undangengna atburði“ (væntanlega
ráðherratíðina, hrunið og landsdómsmálið)
á bók til að draga af þeim lærdóm og skrifin
hafi hjálpað sér að vinna úr „þessari erfiðu
reynslu“ . En bókin er augljóslega einnig
skrifuð í þeim tilgangi að festa Björgvin í
sessi sem stjórnmálamann, útskýra bak-
grunn hans og uppruna sem slíks, ítreka
áherslur hans og draga fram staðfestu hans í
fá um en veigamiklum málum .
Ekki kemur margt nýtt fram um hrun-
dagana haustið 2008 eða samskipti manna
á þeim tíma . Hann reynir þó að varpa
ljósi á það hvers vegna fram hjá sér hafi
verið gengið þegar menn réðu ráðum
sínum í kjölfar þess að Glitnir leitaði ásjár
Seðlabankans 25 . september 2008 . Hann
segir frá því að Ingibjörg Sólrún, þá í New
York á leið í læknismeðferð, hafi sett Jón
Þór Sturluson, aðstoðarmann Björgvins og
efnahagsráðgjafa Samfylkingarinnar, inn í
málið eftir að forsætisráðherra hafði upplýst
hana um stöðuna . Hún hafi einnig skipt um
staðgengil, sett Össur Skarphéðinsson inn
í stað Þórunnar Sveinbjarnardóttur . „Báða
bað hún að segja engum frá þessu fyrst um
sinn .“ Björgvin kemst að þeirri niðurstöðu
að úr því að forystumenn ríkisstjórnarinnar
treystu honum ekki fyrir aðkomu að málinu
þá hefðu þau átt að biðja hann að víkja eða
bregðast við því með öðrum hætti . Hann
segir frá samtali við Ingibjörgu Sólrúnu