Skólavarðan - 01.04.2010, Blaðsíða 30

Skólavarðan - 01.04.2010, Blaðsíða 30
30 Skólavarðan 3.tbl. 2010 Sigurlína Sjöfn Kristjánsdóttir Kveðja frá Kennarasambandi Íslands Sigurlína Sjöfn Kristjánsdóttir fæddist í Reykjavík 1. maí 1947. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 2. apríl 2009. Sigurlína var elst sjö systkina. Foreldrar hennar eru Kristján V. Kristjánsson kjötiðnaðarmeistari (1920-1998) og Ragnhildur Magnúsdóttir, f. 1924. Eiginmaður Sigurlínu er Trausti Björnsson kennari, f. 5.1. 1943. Börn þeirra eru Halldóra, f. 5.9. 1965 og Björn, f. 3.12. 1967. Sigurlína ólst upp á Lambhól í Reykjavík. Hún gekk í Melaskóla og síðan í Hagaskóla og varð gagnfræðingur þaðan árið 1964. Frá þrettán ára aldri vann Sigurlína öðru hvoru í Fiskvinnsluhúsi Alli- ance, síðan í kjötverslun J.C. Klein hjá föður sínum, á skrifstofu Alþýðublaðsins, við handavinnukennslu á Laugum, í Hraðfrystihúsi Eskifjarðar, á bókasafni Eskifjarðarskóla, sem læknaritari á Eski- firði og læknaritari á Landspítalanum. Sigurlína hóf störf hjá Kenn- arasambandi Íslands árið 1986. Hún var formaður Kvenfélags Eski- fjarðar, söng í Eskjukórnum og síðan með Söngfélagi Skaftfellinga og var formaður þess. Hún var félagi í BPW. Sigurlína og Trausti giftust 30.12. 1969. Þau bjuggu fyrst í Reykjavík en svo á Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu 1971-73, Eskifirði 1973-82 og fluttust aftur til Reykjavíkur árið 1982. Úr minningarorðum Eiríks Jónssonar í Mbl. 15. apríl 2009 Sigurlína hóf störf hjá Kennarasambandi Íslands árið 1986 og var sá starfsmaður sem lengst hefur unnið hjá sambandinu. Sigurlína hefur alla tíð séð um símsvörun ásamt öðrum störfum sem henni hafa verið falin og því verið eins konar rödd Kennarasambandsins. Flestir sem hafa hringt eða átt erindi í húsið kannast við hana. Fólk hefur haft orð á því að Sigurlína hafi jafnan tekið öllum af ljúfmennsku og kurteisi og lagt sig fram um að leysa hvers manns vanda. Ég held að á engan sé hallað þó að ég fullyrði að ekki er hægt að hugsa sér betri starfsmann í því starfi sem Sigurlína gegndi. Það skiptir verulegu máli fyrir samtök eins og Kennarasamband Íslands að þeir sem þangað leita séu boðnir velkomnir og að þeim sé sinnt af áhuga og skilningi. Þannig starfsmaður var Sigurlína, ljúf, jákvæð og lipur í samskiptum. Hún hefur verið einstaklega góður samstarfsmaður og félagi og jafnan staðið framarlega við skipulagningu alls konar félagsstarfs meðal starfsmanna. Þá hefur hún einnig verið nokkurs konar hirðljósmyndari í húsinu og ófáar myndir sem hún tók er að finna í myndasafni í albúmum sem hún raðaði jafnóðum í. Þó missir okkar starfsmanna í Kennarahúsinu sé vissulega mikill við fráfall Sigurlínu er missir eiginmanns, barna, tengdabarna, barna- barna og annarra náinna ættingja margfalt meiri. Sigurlína var mikil fjölskyldumanneskja og talaði alltaf um sína nánustu af mikilli hlýju og virðingu. Ég vil persónulega og fyrir hönd Kennarasambands Íslands og starfsmanna þess þakka Sigurlínu fyrir samstarfið, tryggð og vináttu. Ég bið algóðan Guð að blessa minningu Sigurlínu S. Kristjánsdóttur. Eiríkur Jónsson, formaður KÍ fólkiÐ Jón Hnefill Aðalsteinsson Jón Hnefill Aðalsteinsson lést í Reykjavík 2. mars sl. hátt á 83. aldursári. Jón Hnefill fékkst við kennslu nærri alla sína starfsævi, bæði sem kennimaður og kennari á öllum skólastigum. Hann réðst að Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1969 og kenndi þar til 1988 að hann varð fyrsti lektor í þjóðfræði við Háskóla Íslands og prófessor frá 1992 og vann þar gagnmerkt brautryðjendastarf. Í Hamrahlíð kom Jón Hnefill í hóp ungra og róttækra kennara sem á næstu árum umbyltu íslensku framhaldsskólakerfi undir forystu Guðmundar Arnlaugssonar. Þó að Jón væri hvorki í hópi þeirra róttækustu né hinna hraðskreiðustu lagði hann með hægð sinni, íhygli og lævísum húmor margt gott til mála. Einkum verður hans minnst fyrir frumkvæði og forystu í að taka upp nýjar kennslugreinar á sviði sögu og félagsgreina sem áður hafði lítt verið fengist við í menntaskólum landsins, svo sem hugmyndasögu þar sem eftir hann liggur ágæt kennslubók. Jón Hnefill tók virkan þátt í félagslífi menntaskólakennara og varð formaður félags þeirra. Á árunum rétt fyrir 1980 var mikil hreyfing í þá átt að sameina félög kennara en þá störfuðu fjögur stéttarfélög kennara. Illu heilli tókst það ekki til fulls en þó tókst að sameina þau tvö og tvö. Jón Hnefill varð fyrsti formaður Hins íslenska kennara- félags (HÍK), en það varð til úr Félagi menntaskólakennara og Félagi háskólamennaðra kennara. Undir forystu Jóns Hnefils voru stigin fyrstu ákveðnu sporin í þá átt að búa til úr klúbbi virðulegra verkfallsréttarlausra hámenntamanna róttækt og baráttuglatt stéttarfélag meðvitaðra kennara. Sú leið var löng og torsótt en skilaði á endanum verulegum árangri. Fyrir þessi mikilvægu störf er samtökum kennara ljúft og skylt að minnast Jóns Hnefils. Jón Hnefill var hæglátur kennari, mjög fróður um marga hluti og með hlýjan en oft meinlegan húmor. Hann var ráðagóður og hjálpfús og greiddi eftir mætti götu nemenda sinna þótt það væri ekki endilega í hans verkahring. Blessuð sé minning hans. MiNNiNGARoRð

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.