Skólavarðan - 01.04.2010, Blaðsíða 10
10
Skólavarðan 3.tbl. 2010
Reykjavíkurborg hefur eins og önnur sveitarfélög landsins sett fram
metnaðarfulla stefnu í fræðslumálum. Í henni segir meðal annars að
grunnskólinn skuli vera án aðgreiningar, nám við hæfi hvers og eins,
skólastarfið eigi að vera skapandi og skólinn skuli stuðla að jákvæðri
sjálfsmynd nemenda. Í málflutningi stjórnmála- og embættismanna
hefur komið fram að ekki standi til að gefa afslátt af kröfum til skóla-
starfs og áfram verði unnið í anda þeirrar skólastefnu sem boðuð hefur
verið.
Það er fagnaðarefni að yfirvöld hafi metnað til að standa vörð um
menntun barna en spurningar hljóta að vakna um hvernig mæta megi
þörfum nemenda með æ minna fjármagni frá ári til árs.
Sparnaðarátak hófst í grunnskólum borgarinnar á fyrstu dögum
kreppunnar í október 2008. Allir rekstrarþættir voru brotnir til
mergjar, innkaup endurskoðuð og yfirvinna skorin niður eins og
hægt var. Hagræðing haustið 2008 breyttist í hreinan niðurskurð árið
2009 og enn meiri 2010. Áhersla var lögð á að halda úti kennslu í
samræmi við lög og reglugerðir en skera niður af öðrum þáttum, svo
sem stjórnun, gæslu í frímínútum, félagsstarfi, ferðalögum nemenda,
almennum rekstri og orkunotkun.
Þörf fyrir gæslu í frímínútum og matartímum er meiri en nokkru
sinni og öflugt félagslíf í skólum gegnir mikilvægu hlutverki í því
ástandi sem ríkir í samfélaginu og endurspeglast í líðan nemenda.
Niðurskurðurinn er kominn að þolmörkum. Með frekari niðurskurði
verður að draga úr þjónustu við nemendur eða hreinlega hætta að sinna
ákveðnum þáttum sem skólinn hefur nú á sinni könnu.
Sveitarstjórnarmenn standa frammi fyrir vandasömum verkefnum.
Grunnskólinn er stærsti einstaki málaflokkur sveitarfélaganna.
Ábyrgðin er því mikil þegar teknar eru ákvarðanir sem hafa áhrif á
framtíð heillar kynslóðar. Með frekari niðurskurði er hætt við að
gengið verði svo nærri grunnskólum í landinu að þeir láti á sjá og
nemendur fái ekki þá menntun sem þeim ber. Mál er að linni. Stjórn-
málamenn verða að forgangsraða í þágu menntunar – forgangsraða í
þágu barnanna í landinu.
Niðurskurðurinn er kominn að þolmörkum.
Með frekari niðurskurði verður að draga úr
þjónustu við nemendur eða hreinlega hætta
að sinna ákveðnum þáttum sem skólinn
hefur nú á sinni könnu.
Texti: Hreiðar Sigtryggsson.
Hreiðar er skólastjóri Langholtsskóla í Reykjavík
og formaður Skólastjórafélags Reykjavíkur.
Menntun í fyrsta sæti –
forgangsröðun í þágu barna
Afturábak eða áfram?
VORIÐ 2008 ÁKVÁÐUM VIÐ AÐ:
• Hugsa skólastarf, og löggjöf um það, miklu meira út frá
nemandanum og þörfum hans en áður hafði verið gert.
• Auka fjölbreytni og fjölga valkostum í námi.
• Hvetja alla nemendur af alefli og með öllum tiltækum
ráðum til að stunda skólanám til að minnsta kosti átján
ára aldurs.
• Fækka stórlega í hópi þeirra sem flosna úr
námi fljótlega eftir að grunnskóla lýkur.
EN SVO KOM KREPPAN
...og nú erum við enn verr stödd en fyrir nýju lögin um leik-,
grunn- og framhaldsskóla frá vori 2008. Þetta er að gerast:
• Verri þjónusta við nemendur.
• Fábreyttara námsframboð.
• Jafnmikið brottfall.
• Stærri námshópar.
• Minni tími fyrir hvern nemanda.
Elna K. Jónsdóttir
SPURÐU STJÓRNMÁLAMENNINA
• Hvað finnst þér skipta mestu máli í skólamálum?
• Ætlar þú að skera niður í skólamálum? Ef svo, nákvæmlega
hvað ætlarðu þá að skera niður?
• Veist þú hvaða breytingum fjárframlög til skólahalds
í sveitarfélaginu þínu hafa tekið eftir 2008?
• Veist þú hvaða þættir hafa verið skornir niður og áhrif þess
á starf í skólunum?
• Mörg börn fá ekki aðstoð við heimanám heima hjá sér.
Ætlar þú að sjá til þess að þau fái það í skólanum?
• Í sumum löndum er leikskólinn gjaldfrjáls að öðru leyti en
því að foreldrar borga fyrir máltíðir. Hvað finnst þér um þetta?
• Geta allir foreldrar í þínu sveitarfélagi keypt mat fyrir börnin
sín í skólamötuneyti?
• Eru ungmenni í þínu sveitarfélagi sem ekki komast í
framhaldsskóla vegna fjárhagserfiðleika foreldra þeirra?
• Ætlar þú að taka þátt í hækkun gjalda í skólum og
á frístundaheimilum á næsta kjörtímabili?
• Hefur þú hugleitt hvað jafnrétti til náms þýðir?
• Ert þú vakandi yfir hvers kyns félagslegri mismunun barna
og ungmenna? Skiptir það þig máli að koma í veg fyrir hana?
• Hefur þú kynnt þér skólastarf í sveitarfélaginu
sem þú vinnur fyrir? Með hvað hætti?
• Þekkir þú löggjöf um skólastarf, hefurðu til dæmis
kynnt þér vel menntalögin frá 2008?
• Hver eða hverjir eru mikilvægustu málaflokkarnir í
hverju sveitarfélagi að þínu mati? Af hverju?
• Hefur þú hugleitt hlutverk tónlistarskóla innan menntakerfisins?
• Hver er þín skoðun á mikilvægi listkennslu og
skapandi starfs fyrir menntakerfi samtímans?
• Hver er þín skoðun á einstaklingsmiðuðu námi?
• Hvað vilt þú gera til að efla samstarf skóla og heimila?
• Fá öll ungmenni í þínu sveitarfélagi nám við hæfi?
málefni