Skólavarðan - 01.04.2010, Blaðsíða 24

Skólavarðan - 01.04.2010, Blaðsíða 24
24 Skólavarðan 3.tbl. 2010 Texti: Dagbjört Ásgeirsdóttir, M.Ed. Dagbjört er leikskólastjóri Krílakots í Dalvíkurbyggð Mynd: Fanney Davíðsdóttir Í þessum pistli eru vangaveltur mínar um 3. grein siðareglna KÍ sem er svohljóðandi: „Kennurum ber að hafa jafnrétti allra nemenda að leiðarljósi í skólastarfi. Kennarar eiga að vinna gegn fordómum og mega ekki mismuna nemendum t.d. vegna kyns, þjóðernis eða trúar- bragða.“ Ég velti fyrir mér merkingu hugtaksins mismunun? Þarf mismunun í sjálfu sér að vera röng? Og að sama skapi, hvað er jafnrétti? Merkir það að allir fái allt alveg eins? Ég læt jafnréttisspurninguna bíða betri tíma. Mismunun þarf í sjálfu sér ekki að vera röng. Bæði er hægt að beita jákvæðri og neikvæðri mismunun. Og kennarar beita mismunun á hverjum degi. En það skiptir máli hverjum eða hvernig er mismunað. Þegar kennari mismunar metur hann ákveðnar þarfir nemenda eða skilur á milli jákvæðrar og neikvæðrar hegðunar og bregst við á til- tekinn hátt. Þau viðbrögð sem hann sýnir einum nemanda eiga ef til vill alls ekki við um aðra. Kennarinn metur hegðun eða frammistöðu nemenda út frá forsendum hvers og eins og þeim væntingum sem hann hefur til þeirra. Þegar einstaklingum er mismunað án tillits til hegðunar eða verðleika, það er að segja út frá staðalmyndum, tel ég að um for- dóma sé að ræða. Í flestum tilfellum tengjum við fordóma við hugmyndir um etníska hópa. En er það svo einfalt? Hvað með félagslega fordóma? Kannast ekki margir við að hafa heyrt eitthvað á þessa leið: Það er nú ekki að búast við að hann Gunni geti lært. Óli bróðir hans var aldrei til friðs og ekki gat nú mamma þeirra lært. Í daglegu starfi er nauðsynlegt fyrir kennara að staldra við, horfa inn á við og spyrja hvort þeir geti í raun komið auga á fordóma, sína eigin fordóma? Hvenær verða eðlileg viðbrögð að fordómum? Einnig er mikilvægt og hollt fyrir kennara að velta fyrir sér hvað fordómar eru og sér í lagi hvað duldir fordómar standa fyrir, en þá má sjá í ýmsum myndum í þjóðfélaginu. Duldir fordómar eru til dæmis að byggja við- horf sín og skoðanir á tilteknum hópum á staðalmyndum. Þeir lýsa sér í pirringi, óvingjarnlegri framkomu, tortryggni, uppnefnum, háði, hroka, afskiptaleysi og verri þjónustu (Guðrún Pétursdóttir, 2003)1. Fordómar geta auðveldlega leynst undir yfirborðinu og fólk átt erfitt með að gera sér grein fyrir þeim. Þegar vel er að gáð held ég að langflestir hafi einhvern tíma tekið þátt í fordómafullri hegðun. Alloft hefur heyrst setning eins og: Ég fékk mér „Tæju“ til að þrífa hjá mér. Dæmi sem margir kennarar kannast við um pirring og jafnvel hræðslu er að þegar innflytjendum fjölgaði til muna á Íslandi fyrir nokkrum árum töldu sumir foreldrar af íslenskum uppruna að börn þeirra fengju verri þjónustu í grunnskóla vegna þess hve mikill tími færi í að sinna útlenskum börnum. Mikilvægt er að kennarar á öllum skólastigum séu meðvitaðir um þau hugtök sem þeir kjósa að nota. Hvaða hugtök notum við til dæmis um nemendur af erlendu bergi í skólakerfinu? Notum við útlendingar, nýbúar eða vísum við til uppruna eða þjóðernis þeirra sem pólsku, albönsku eða litháísku nemendurnir svo að eitthvað sé nefnt? Um nemendur sem eru fæddir á Íslandi eða orðnir íslenskir ríkisborgarar? Í hugtökum er oft dulin meining sem orðið hefur til í meðförum og notkun tungumálsins; eins og í hugtakinu nýbúi. Margir nota það án nokkurrar neikvæðrar merkingar en oftar en ekki er það samt notað um innflytjendur frá Asíu og Afríku eða einstaklinga sem eru ólíkir Íslendingum í útliti (Guðrún Pétursdóttir, 2003). Forsenda þess að kennarar geti unnið gegn fordómum, líkt og fram kemur í 3. grein siðareglna KÍ, er sú að þeir geri sér grein fyrir hvað fordómar eru – og ekki síst eigin fordómum. Þeir þurfa að vera gagnrýnir á sjálfa sig og spyrja sig hvort þeir hafi fundið fyrir pirringi gagnvart tilteknum einstaklingum eða hópum, sýnt óvingjarnlega framkomu, hroka eða jafnvel afskiptaleysi, verið tortryggnir, uppnefnt eða hæðst að einhverjum. Sterkasta vopnið gegn fordómum er að mínu mati þekking. Þó að þekking sé ekki ávísun á fordómaleysi veitir hún aukna innsýn og skilning á því sem annars væri óþekkt, því hið óþekkta vekur gjarna hjá okkur óöryggi og jafnvel ótta. sAmræÐA Í daglegu starfi er nauðsynlegt fyrir kennara að staldra við, horfa inn á við og spyrja hvort þeir komi auga á sína eigin fordóma. 1 Guðrún Pétursdóttir. 2003. Allir geta eitthvað, enginn getur allt. Hólar. Hinir lúmsku fordómar

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.