Skólavarðan - 01.04.2010, Blaðsíða 31

Skólavarðan - 01.04.2010, Blaðsíða 31
31 Skólavarðan 3.tbl. 2010 Fullt af nýju fínu efni í Netlu Við vekjum athygli á nýjum greinum í Netlu á þessari önn. Þar kennir margra grasa og líklega óhætt að fullyrða að allir kennarar sem rata inn á vefinn fái eitthvað fyrir sinn snúð. Sjáið til dæmis þessar: Kristín Bjarnadóttir dósent í stærðfræði við Háskóla Íslands segir sögu þríliðunnar í grein sem hún nefnir Hvað er þríliða? Greinin fjallar um hlutfallareikning, sér í lagi þríliðu, sem var talin ómissandi aðferð allt fram um 1970 er hún hvarf snögglega úr kennslubókum í reikningi. Rakin er saga hlutfallareiknings og sýnd dæmi allt frá dögum Forn- Egypta. Þótt þríliðan hafi verið fordæmd á seinni árum sem stöðnuð og úrelt reikningsaðferð má færa henni nokkuð til málsbóta og í nýrri sænskri rannsókn er varpað fram spurningu um hvort hin munnlega hefð sem tengist þríliðu geti fleytt nemendum yfir þröskuld að inngangi algebrunnar. Kristín hefur kennt stærðfræði og eðlisfræði við grunn- og framhaldsskóla um árabil, samið kennslubækur og stýrt vinnu við námskrár í stærðfræði fyrir grunn- og framhaldsskóla. Doktorsritgerð hennar, sem út kom árið 2006, fjallar um sögu stærðfræðimenntunar á Íslandi í sögulegu og félagslegu samhengi. Benedikt Jóhannsson sálfræðingur skrifar um málshætti, íslenskt uppeldi og sígildar dygðir. Í greininni leitast hann við að tengja íslenska málshætti og orðtök við sex höfuðdygðir. Þær eru sóttar til klassískrar heimspeki og helstu trúarbragða heims og er hér meðal annars fylgt hugmyndum bandaríska sálfræðingsins Martin Seligman. Dygðirnar eru viska og þekking, hófsemi, hugprýði, réttlæti, kærleikur og mildi og andríki. Benedikt starfar hjá Fjölskylduþjónustu kirkjunnar og Reykjavíkurborg auk þess að reka eigin sálfræðistofu. Guðmundur Sæmundsson aðjunkt skrifar greinina Orð sem aldrei gleymast: Skapandi nám í kennslufræði en þar segir frá nýstárlegu verkefni sem höfundur vann með nemendum sínum á námskeiði á íþrótta- og heilsubraut. Það fólst í því að yrkja ljóð um einelti en slíkt verkefni hafði hann aldrei áður lagt fyrir háskólanema. Markmiðið var meðal annars að fá nemendur til að lifa sig inn í aðstæður og til- finningar þeirra sem verða fyrir einelti. Árangurinn varð sérstaklega áhugaverður eins og lesa má um í greininni. Guðmundur kennir við íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild Háskóla Íslands. Ingvar Sigurgeirsson prófessor og Ágúst Ólason, Björn Gunn- laugsson, Hildur Jóhannesdóttir og Sif Vígþórsdóttir, sem öll starfa við Norðlingaskóla, skrifa grein um þróunarverkefnið Smiðjur. Smiðjurnar eru nokkurs konar verkstæði þar sem nemendur vinna að samþættum viðfangsefnum í aldursblönduðum hópum. Markmiðum verkefnisins er lýst, fjallað um undirbúning þess og framkvæmd, gefin eru dæmi um nokkrar smiðjur, gerð grein fyrir tilhögun námsmats og mat lagt á starfið, en það hefur í heild gefið góða raun. Ingvar er prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands og ráðgjafi við verk- efnið. Ágúst og Hildur eru deildarstjórar við Norðlingaskóla, Björn er kennari og Sif er skólastjóri. Wolfgang Edelstein skólamaður skrifar grein sem hann nefnir Lýðræði verður að læra. Þar fjallar hann um mikilvægi þess að skólar séu börnum uppspretta lýðræðislegrar reynslu. Bent er á að einstaklingshyggja og alþjóðavæðing stefni lýðræði í ýmsum sam- félögum í hættu, eins og sjá má í þeirri hag- og félagskreppu sem nú gengur yfir. Í stjórnmálafræði er hafin umræða um siðgæðisforsendur lýðræðis og siðgæðisstyrk sem þörf er að rækta til að viðhalda lýð- ræði þegar kreppur sækja að. Í greininni eru færð rök fyrir því að mikilvæg forsenda þess að viðhalda lýðræði sé að unga kynslóðin fái strax á skólaaldri reynslu af lýðræðislegum starfsháttum. Höfundur bendir á ýmsar leiðir sem hægt sé að fara til að venja ungt fólk við virkt lýðræði, m.a. með bekkjarfundum, samfélagsverkefnum og þátttökunámi. Wolfgang er fyrrverandi stjórnandi Max-Planck menntarannsóknarstofnunarinnar í Berlín. Hann var ráðgefandi við menntamálaráðuneytið 1966 - 1984 og aftur 1989 - 1991 og er höfundur bókarinnar Skóli – nám – samfélag. Ingibjörg E. Jónsdóttir skólastjóri skrifar grein um þróunarverkefnið Fjörulallar, það erum við! sem var unnið í leikskólanum Bakka vetur- inn 2008–2009. Það byggðist á útinámi og var aðalhugmyndin að áhugi og forvitni barnanna réði ferðinni. Það gekk eftir og verkefnið leitaði inn á ófyrirséðar brautir með spennandi viðfangsefnum. Ingibjörg er leikskólastjóri á Bakka en skólinn er í útjaðri Reykjavíkurborgar. Nýlega hafa líka birst ritfregnir og ritdómar um námsefni og fræðirit á heimasíðu Netlu: netla.khi.is netlA

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.