Skólavarðan - 01.04.2010, Blaðsíða 37
37
Skólavarðan 3.tbl. 2010
Það verður að breyta starfsumhverfi í leikskólum þannig að það geri
kennurum kleift að uppfylla faglegar kröfur. Okkur skortir tíma til
þess að skipuleggja, undirbúa og endurmeta starfið og hafa samráð
við samstarfsfélaga. Víða er vítahringur álags og forfalla og ekki
bætir niðurskurður úr skák. Það er skrítin reiknikúnst að halda að
niðurskurður í starfsmannahaldi skili einhverjum aurum. Hann endar
alltaf með því að verða miklu dýrara. Leikskólastjórar eru margra
manna makar og stundum finnst mér að gengið sé á lagið með
samviskusemi þeirra. Þeir leggja allt á sig til að láta daginn ganga upp,
sinna forfallakennslu og ganga hiklaust í öll störf. En þó að það geti
verið heillandi að vita ekki að morgni hvað dagurinn ber í skauti sér þá
bitnar það á gæðum leikskólans ef skólastjórinn þarf ítrekað að ýta til
hliðar tilætluðu hlutverki sínu sem faglegur leiðtogi.
Við verðum að vera leiðandi í því að forgangsraða þannig að
skólastarfið gangi fyrir. Við eigum að bjóða börnum upp á menntandi
umhverfi sem uppfyllir okkar faglegu kröfur og megum ekki grípa
til þess ráðs að ýta faglegu starfi til hliðar. Leikskólastjórnendur
verða að hafa svigrúm til þess að standa við lögbundna námskrá og
kjarasamninga - sem eru þó bara byrjunarreitur fyrir góða skóla.
Þetta snýst um svo miklu meira en að hafa hæfilega mörg börn miðað
við einn fullorðinn - í þessu samhengi þarf ég að fá að leiðrétta þann
leiða misskilning að aukin menntun kennara geri þá hæfari til þess að
annast um og kenna fleiri börnum. Við tökum ekki meistaragráðu í að
ráða við fleiri krakka, þá væri hægt að hafa einn doktor á deild og loka
á eftir honum. Þetta snýst um betri menntun og betri skóla sem leiðir af
sér betra mannlíf og betra samfélag.
Leikskólastjórnendur eru núna komnir með vettvang þar sem þeir fá
tækifæri til að ræða og koma áherslum sínum á framfæri. Ef ég þekki
okkur rétt verður það áfram á þeim forsendum að bjóða börnum upp
á bestu hugsanlegu menntun. Til þess verðum við að styrkja innviðina
með betra starfsumhverfi, fleiri leikskólakennurum og betri kjörum. Við
eigum eftir að standa saman að þessu í báðum félögum, FSL og FL,
og tvö félög með eina rödd geta hljómað hærra og betur og náð meiri
árangri. Við höfum alltaf sett hagsmuni barna í fyrsta sæti og skoðum
öll mál út frá velferð þeirra, það hefur ekkert breyst. Hagsmunir okkar
allra og hagsmunir barna fara saman.
Leikskólastjórnendur verða að hafa svigrúm
til þess að standa við lögbundna námskrá
og kjarasamninga - sem eru þó bara
byrjunarreitur fyrir góða skóla.
fólkiÐ