Skólavarðan - 01.04.2010, Blaðsíða 38

Skólavarðan - 01.04.2010, Blaðsíða 38
38 Skólavarðan 3.tbl. 2010 Marta: Það má segja að ég hafi fengið áhugann bæði á leikskólakennara- starfinu og félagsstörfum í móðurarf. Mamma mín, Sólveig Ásta Ásgeirsdóttir, fór í fóstrunám eins og það hét í þá daga þegar ég var enn í leikskóla, og starfaði við fagið allt þar til hún lét af störfum fyrir nokkrum árum. Ég man ekki eftir mér öðruvísi en í mikilli nálægð við leikskólann. Mamma var virk í félagsstörfum og ég man til að mynda eftir mér við kaffisölu í BSRB húsinu, á fræðslufundum og svo auðvitað í kröfugöngum. Í minningunni var þarna á ferðinni óskaplega skemmtilegur hópur og mér hefur alla tíð þótt mjög vænt um þetta félag. Mér leist því ekki á blikuna þegar talið barst að því á sínum tíma að skipta félaginu upp í kennarafélag annars vegar og stjórnendafélag hins vegar. En ég hef fengið tíma til að aðlagast hugmyndinni og við gerum auðvitað það besta úr stöðunni. Ég vil leggja mitt af mörkum til að félögin tvö eigi sem mest og best samstarf. Við verðum að hafa hugfast að það er miklu fleira sem sameinar okkur en greinir okkur að. Við stöndum óneitanlega á tímamótum, í fyrsta sinn í sögu félags leikskólakennara verða stjórn félagsins og nefndir eingöngu skipaðar almennum leikskólakennurum. Nýju fólki fylgja nýjar áherslur og hugmyndir og það verður spennandi að sjá hvaða breytingar verða á störfum félagsins við þessi umskipti. Stjórnendahópurinn stendur vel og býr yfir mikilli og góðri reynslu en hana skortir hins vegar töluvert í kennarahópnum. Á þessum tíma- mótum er því gríðarlega mikilvægt að leikskólastjórar hvetji kennara sína til þátttöku í trúnaðarstörfum fyrir félagið okkar og skapi þeim um leið svigrúm til að sinna þeim. Það ríður á að vel takist til strax í upphafi. Hvað sjálfa mig varðar er ég fylgin mér og tel mig hafa sterka rétt- lætiskennd. Ef málstaðurinn er góður stendur ekki á mér að berjast fyrir hann. Ég er líka svolítið félagsmálafrík. Ég hef til dæmis verið í formennsku fyrir foreldrafélag grunnskóla dætra minna og var áheyrnarfulltrúi starfsfólks leikskóla í leikskólanefnd og síðar fræðslu- ráði Hafnarfjarðar. Ég tók snemma að mér trúnaðarstörf fyrir FL og hef setið bæði í stjórn og samninganefnd. Ég er full tilhlökkunar að takast á við þau krefjandi verkefni sem formannstarfinu fylgja og lít björtum augum til framtíðar. Við tökum við góðu búi. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa kynnst vel störfum Bjargar sem for- manns FL undanfarin ellefu ár og gæti haft um það mörg orð hversu mikla mannkosti hún hefur til að bera og hversu ötullega hún hefur starfað fyrir okkur í gegnum tíðina. Það er ljóst að við eigum henni margt að þakka og að betri lærimóðir er vandfundin. Formennska í stóru stéttarfélagi lærist ekki á einni nóttu og það verður enginn hægðarleikur að feta í fótspor Bjargar. Menntun leikskólakennara er mér hugleikin. Hugmyndafræði og sérstaða leikskólans má ekki verða undir og glatast í nýju námsfyrir- komulagi háskólanna. Nám í leikskóla á að spretta af áhugahvöt barnanna og fara fram í gegnum leik og skapandi starf. Í því liggur styrkur leikskólans. Það á líka að vera gaman að læra, hvort sem þú ert í leik- eða háskóla. Leikskólakennaranámið hefur alla tíð verið lifandi og skemmtilegt nám og þannig á það að vera. Vettvangsnámið skiptir líka sköpum fyrir verðandi leikskólakennara. Handleiðsla á vettvangi nær bæði til faglegra og hagnýtra þátta starfsins og veitir leikskóla- kennaranemum tækifæri til að ígrunda og samþætta fræðin og starfið. „Learning by doing“ á jafnt við um leikskólakennaranema og börn. Þessa þætti námsins verðum við að verja. Kjaramálin eru mér líka auðvitað ofarlega í huga. Kjarabaráttunni lýkur aldrei. Áfram verður barist fyrir bættum kjörum stéttarinnar, hvort heldur um er að ræða bein launakjör eða annað sem hefur áhrif á starfsaðstæður leikskólakennara, svo sem álag vegna skorts á kennurum og öðru hæfu starfsfólki, húsnæði og annar aðbúnaður á vinnustöðum - til dæmis hljóðvist og nemendafjöldi á deildum. Leikskólar hafa ekki farið varhluta af þeirri niðursveiflu sem verið hefur í íslensku samfélagi undanfarin misseri. Flestum sem til þekkja þykir nóg um þar sem leikskólarnir nutu síður en svo góðærisins á sínum tíma. Kjör leikskólakennara hafa líkt og svo margra annarra verið skert og þykir mörgum að nú hljóti að vera komið nóg. Í varnar- baráttu líkt og nú blasir við skiptir forysta stéttarfélagsins vissulega máli en það er ekki síður mikilvægt að félagsmenn sjálfir láti í sér heyra, hver í sínu sveitarfélagi. Ég hvet okkar fólk til þess að vera ötult að krefjast forgangsröðunar í þágu menntunar og kjarabóta til jafns við aðra launþega í landinu. Þetta er réttlætismál. fólkiÐ Í varnarbaráttu líkt og nú blasir við skiptir forysta stéttar- félagsins vissulega máli en það er ekki síður mikilvægt að félagsmenn sjálfir láti í sér heyra, hver í sínu sveitarfélagi.

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.