Skólavarðan - 01.09.2010, Blaðsíða 19

Skólavarðan - 01.09.2010, Blaðsíða 19
19 Skólavarðan 4.tbl. 2010fræðin Rætt var við þrjár mæður með ADHD eða ADD og þrjá umsjónar- kennara barna þeirra. Hingað til hefur ADHD meðal fullorðinna lítið verið rannsakað og enn minna er vitað um samskipti foreldra með ADHD við skóla, bæði hvað varðar þeirra eigin skólagöngu sem og skólagöngu þeirra eigin barna. Í þessari grein verður almennt notast við alþjóðlegu skammstöfunina ADHD, það er athyglisbrestur með ofvirkni. ADHD og eigin skólaganga Mæðurnar þrjár sem voru á aldrinum 33 - 46 ára fengu greiningu á árunum 2005-2009. Þær eiga allar börn með ADHD og/eða einhverfu greiningu. Það skipti þær miklu máli að fá greiningu, en með henni fengu þær svör við mörgum spurningum sem höfðu brunnið á þeim mestalla ef ekki alla ævi. Ýmislegt í hegðun þeirra, framkomu og tilfinningum í garð annarra varð skiljanlegra. Tvær mæðranna töluðu um hvernig ADHD röskunin gerði það að verkum að þegar illa gengi fyndist þeim þær vera slæmar mæður. Þær sögðu einnig að þegar þær upplifðu óöryggi gagnvart kennurum barnanna eða skólanum þá fylltust þær hræðslu og vantrausti og teldu sér trú um að þær væru ömurlegt foreldri. Mæðurnar áttu allar erfiða skólagöngu, miserfiða þó. Þær voru sam- mála um að hafa verið á skjön við aðra og samskipti við kennara gengu misvel. Tvær mæðranna töluðu um að fortíðin sæti ennþá í þeim og í gegnum heimanám barnanna upplifðu þær ýmislegt úr eigin skóla- göngu. Ein móðir sagði: „Núna er ég orðin foreldri og get ekki ennþá skilað heimanáminu. Og ég fer með hangandi hausinn í foreldravið- talið, alveg eins og ég fór með hangandi hausinn í foreldraviðtal þegar ég var tíu ára. ... það sest alltaf inn á mína samvisku ef að eitthvað gengur illa og þá fæ ég flashbakkið aftur í tímann og ég vil ekki hafa þetta þannig.“ Allar mæðurnar töluðu um að sem betur fer væri skólaumhverfi mjög breytt frá því sem var þegar þær voru í barnaskóla, börnum væri sýndur meiri skilningur og ólíkum þörfum betur mætt. Mæðurnar, sem höfðu allar lent í hrakningum í grunnskóla og átt erfiða skólagöngu, voru í mismiklum mæli enn að vinna úr erfiðri reynslu sinni en aðdáunarvert var hvernig þær nýttu þessa reynslu börnum sínum til góðs. Allar mæðurnar töluðu um mikilvægi þess að þekkja geðræna hluta ADHD og vita hvað ber að varast og hvaða þætti er nauðsynlegt að vinna með. Þar skipti fræðsla miklu máli. Þær töluðu um mikilvægi þess að sýna börnunum skilning, vera duglegar að taka eftir því sem þau gerðu vel og hrósa á uppbyggilegan hátt. Þeim bar saman um að hrós skilaði oft miklu til að bæta samskipti og eigin sjálfsmynd. Þær sögðu að röskunin eltist ekki af þeim sjálfum en breyttist með árunum og hluti af því að ráða við aðstæður eða reyna að hafa stjórn á aðstæðum dags daglega væri að hafa reglu á hlutunum. Allar töluðu þær um mikilvægi þess að reyna að koma í veg fyrir óskýrleika sem oft einkennir líf einstaklinga með ADHD. Ein móðirin sagði: „Ég gæti svona trúað að þetta sé gegn- umgangandi með þá sem eru með ADHD, að þegar ramminn er ekki lengur skýr, eða kannski er skýr rammi en maður veit ekki hvort maður á að vera inni í honum eða ekki, að þá verður maður bara hræddur og veit ekki lengur hvað, til hvers er ætlast af manni.“ Mæðurnar töluðu um mikilvægi þess að sýna börnum sínum skiln- ing, en þær þekkja vanmetakenndina sem fylgir því að eiga erfitt með nám, ná ekki að skila heimanámi á réttum tíma og eiga erfitt uppdráttar í skólanum. Sjálfsþekking væri einn af lykilþáttunum í að aðstoða eigið barn og geta sýnt því skilning. Mæðurnar voru allar sammála um að vanþekking skapaði oft verri aðstæður en vera þyrftu og besta ráðið við henni, hvort sem það væri eigin vanþekking eða vanþekking annarra á röskuninni, væri fræðsla. Þær eru allar ýmist í námi eða hafa nýlokið því og telja að fræðsla sé ein besta leiðin til að fyrirbyggja fordóma í garð einstaklinga með ADHD. Tvær mæðranna töluðu um hreyfiþörf og ofvirkni sem veldur þeim erfiðleikum. Þær töluðu um eirðarleysi og erfiðleika við að sitja kyrrar, til dæmis þegar þær eru að aðstoða syni sína við heimanám. Báðar töluðu um framtaksleysi sem þær upplifa oft. Þær sögðust reyndar báðar vera mjög virkar en skorta oft úthald til að koma hlutum í verk og fylgja þeim eftir. Það væri þó auðveldara að framkvæma fyrir aðra en það sem sneri að þeim sjálfum. Ein móðirin orðaði þetta þannig að hún væri alltaf á einhverjum þeytingi en snerist kannski mest í kringum sjálfa sig. Hún væri eins og stormur í vatnsglasi og oft á síðustu stundu. Hún talaði um að hún þyrfti að hafa allt mjög einfalt og auðskiljanlegt því henni hætti til að flækja einföldustu hluti. Hún sagði að ef eitthvað reyndist henni of flókið gæfist hún upp og gerði ekki neitt. Önnur móðir tók undir þetta. Heimanám Viðhorf viðmælenda til heimanáms var blendið en þeim fannst að þótt heimanám ætti það til að vera óskipulagt og ómarkvisst þá væru ákveðnir þættir, eins og lestur, sem yrði að þjálfa heima. Ein móðir sagði: „... ég held að það sé ekki hægt að sleppa lestri ... það sé bara óraunhæft og óæskilegt.“ Mæðurnar litu heimanámið misjöfnum augum, ein leit á það sem gæðastund með barninu sínu en hinar tvær töluðu um að erfitt væri að finna tíma fyrir það - í nútímasamfélagi væri margt sem keppti um tíma einstaklinga og heimanámið væri aðeins einn þáttur í því. Ein móðirin sagði: „... ég þarf að undirbúa mig svona hálfan daginn og ég þarf að undirbúa hann. Þetta tók alveg seinnipartinn með slagsmálum og erfiðleikum ... og ég reyndi að forðast það, hafði bara ekki orku í að ráðast í það.“ Um gæði Maður er náttúrulega oft svolítið mikið á undan sjálfri sér og þá er maður bara alltaf að reka sig í bæði í dauða og lifandi hluti sem skapar bara ringulreið. Og sá sem hefur alltaf verið svona, hann heldur að þetta eigi að vera svona.

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.