Skólavarðan - 01.09.2010, Blaðsíða 40
40
Skólavarðan 4.tbl. 2010skólastarf
Sá misskilningur virðist vera hjá einstöku fagaðilum að í viðtölum
við unglinga ríki fullur trúnaður. Unglingar sem leita til dæmis til
námsráðgjafa eða skólahjúkrunarfræðings telja einnig oft sjálfir
að um sé að ræða trúnaðarsamtal. Kolbrún Baldursdóttir upplýsir
í þessari grein að svo er ekki í reynd.
Einstaka sinnum fréttist af tilvikum þar sem fagaðili í skóla hefur á
þessari forsendu, þ.e. að um sé að ræða trúnaðarsamtal, látið hjá líða
að upplýsa forsjáraðila um mikilvæg atriði sem fram hafa komið í við-
tali við unglinginn með þeim afleiðingum að hagsmuna hans hefur ekki
verið gætt sem skyldi.
Hið rétta er að í reynd ríkir enginn trúnaður milli fagaðila og ung-
lings í viðtölum sé viðkomandi undir 18 ára aldri. Fagaðili þarf þess
vegna að gæta þess að setja sig ekki í þá stöðu að hann og unglingurinn
búi einir yfir upplýsingum sem eru alvarlegs eðlis. Að sjálfsögðu ber
fagaðila ávallt að meta hvaða upplýsingar eru af þeim toga að greina
verði forsjáraðilum frá þeim. Komi fram upplýsingar, vísbendingar eða
grunsemdir um að hagsmunum unglingsins eða annarra barna sé með
einhverjum hætti ógnað ber fagaðila að upplýsa forsjáraðila um það.
Öðruvísi geta þeir ekki brugðist við með viðeigandi hætti, hvort heldur
er með fyrirbyggjandi aðgerðum, svo sem fræðslu og leiðbeiningum,
eða öðrum leiðum til lausnar.
Mun unglingurinn þá ekki segja frá?
Þau rök hafa heyrst í þessu sambandi að unglingurinn muni síður tjá
sig um áhyggjuefni sín geti hann ekki treyst á fullan trúnað. Það kann
að vera mat einhverra að einmitt þess vegna sé þagmælska fagaðilans
mikilvæg. Hin hliðin á málinu er sú að ákveðin áhætta fylgir því að lofa
unglingi fullum trúnaði vegna þess að málefni hans geta þróast á þann
veg að fullorðnir verði með einum eða öðrum hætti að koma að þeim.
Áhyggjuefni eða vandamál unglinga sem kunna að virðast léttvæg
í viðtali geta tekið á sig alvarlegri myndir þegar fram líða stundir.
Unglingurinn getur líka í viðtali við fagaðilann opinberað mál sem sá
síðarnefndi sér í hendi sér að forsjáraðilar verði að fá upplýsingar um
til að eiga möguleika á að aðstoða barn sitt. Hafi fagaðilinn þá áður
lofað trúnaði á hann fárra annarra kosta völ en að brjóta hann.
Til að fyrirbyggja að þessi staða komi upp er góð regla að upplýsa
skjólstæðing undir 18 ára aldri um það í upphafi samtals að þar sem
hann er ekki orðinn sjálfráða sé ekki um eiginlegt trúnaðarsamtal
að ræða. Komi upp í viðtalinu málefni sem fagaðilinn metur svo að
forsjáraðilar þurfi að fá vitneskju um er sanngjarnt og eðlilegt að gefa
unglingnum kost á að segja forsjáraðilum sjálfur frá því með eða án
aðstoðar fagaðilans. Sé þessi valmöguleiki ekki fýsilegur unglingnum
kemur í hlut fagaðilans að upplýsa forsjáraðila um málið. Hvenær og
með hvaða hætti málið verður upplýst frekar er sjálfsagt að leggja undir
stálpaðan ungling til að koma í veg fyrir að honum finnist að komið
hafi verið aftan að sér eða gengið framhjá sér með einhverjum hætti.
Hvaða málum er ekki hægt að halda frá forsjáraðilum?
Með reynslunni lærist fagaðila að leggja mat á málefni, alvarleika
þeirra og hugsanlegar afleiðingar. Ef skjólstæðingur er undir 18 ára
aldri ber fagaðila að upplýsa foreldra ef unglingurinn segir til dæmis
frá því að hann haldi að hann hafi einhverja sjúkdóma eða ef hann
upplýsir að hafa verið beittur ofbeldi, þar á meðal einelti eða áreitni
af einhverjum toga. Sama á við ef unglingurinn skýrir frá því að hann
búi yfir álíka upplýsingum um aðra undir sjálfræðisaldri. Eins ber fag-
aðila að upplýsa forsjáraðila ef fram kemur í viðtalinu að unglingurinn
stundi atferli sem geti verið honum andlega eða líkamlega skaðlegt eða
viðhafi sjálfskaðandi/andfélagslega hegðun sem gæti haft skaðleg áhrif
og alvarlegar afleiðingar fyrir hann. Hér er einungis drepið á það helsta
sem upp gæti komið í viðtali við skjólstæðinga undir 18 ára aldri og
sem mikilvægt er að upplýsa til þess að hægt sé að fylgja málum eftir
með nauðsynlegum úrræðum.
Hver er afstaða forsjáraðila?
Án þess að ætla að tala máli allra forsjáraðila tel ég þó engu að síður
líklegt að þeir séu oftast nær sáttir við fyrirkomulag af þessu tagi
leiti barn þeirra til fagaðila, hvort heldur er innan skóla eða utan.
Forsjáraðilar, sem sjá að barninu þeirra líður illa eða hefur áhyggjur
sem það getur ekki tjáð sig nægjanlega vel um við heimilisfólkið,
hvetja iðulega til þess að barnið ræði við fagaðila skólans, námsráð-
gjafa, skólahjúkrunarfræðing eða óska eftir að sálfræðingur komi að
málefnum barnsins. Fæstir forsjáraðilar gera kröfu um að fá vitneskju
um allt sem barnið segir í slíkum viðtölum. Flestir treysta einfaldlega
dómgreind sérfræðinga til að leggja mat á upplýsingarnar og vinsa úr
þær sem þurfa að berast foreldrum eigi þeir að geta rækt forsjárskyldur
sínar með ábyrgum hætti.
Texti: Kolbrún Baldursdóttir
Kolbrún er sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði
Mynd: Frá höfundi
Til að fyrirbyggja að þessi staða
komi upp er góð regla að upplýsa
skjólstæðinga undir 18 ára aldri um
það í upphafi samtals að þar sem hann
er ekki orðinn sjálfráða sé ekki um
eiginlegt trúnaðarsamtal að ræða.
Misskilningur um
trúnað þegar barn
leitar til fagaðila
Kolbrún Baldursdóttir