Morgunblaðið - 03.11.2015, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 03.11.2015, Blaðsíða 30
30 MENNING MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 3. NÓVEMBER 2015 VIÐTAL Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Síðasta ár hefur verið ár stórra verka og verk- efna. Ég fæ mjög mikið af flóknum hug- myndum sem mig langar að framkvæma, en verð samtímis líka stundum örmagna og skil ekki hvers vegna ég get ekki bara fengið ein- faldar hugmyndir. Róðurinn verður oft þungur þegar hugmyndir eru stórar, en svo þegar allt smellur þá fyllist maður þvílíkum eldmóði og langar að gera eitthvað ennþá stærra næst,“ segir danshöfundurinn Sigríður Soffía Níels- dóttir, en í vor sem leið var verk hennar Svartar fjaðrir opnunarsviðsverk Listahátíðar í Reykja- vík á Stóra sviði Þjóðleikhússins, þriðja árið í röð hannaði hún flugeldasýninguna á Menning- arnótt og aðeins er rúmt ár síðan hún eignaðist sitt fyrsta barn. Á fimmtudaginn kemur frum- sýnir hún síðan dansverkið Kafli 2: og himinn- inn kristallast á Stóra sviði Borgarleikhússins þar sem hún endurskapar í dansi flugeldasýn- inguna Stjörnubrim sem hún hannaði fyrir Vodafone og Menningarnótt í ár. Aðspurð segist Sigríður Soffía sjá mikil lík- indi milli flugelda og dansara. „Að vissu leyti er hlutskipti flugelda dapurlegt. Flugeldurinn fórnar sér fyrir tveggja sekúndna fegurðar- stund. Það sama á við um dansara. Þeir eyða mörgum árum í að undirbúa sig svo þeir geti skapað eitthvað stórfenglegt fyrir áhorfendur, en starfsævi þeirra er stutt og þeir gefa í reynd líkama sinn og helga sig listinni í stutta stund,“ segir Sigríður Soffía, sem verið hefur heilluð af flugeldum frá unga aldri. Fegurðin býr í auga sjáandans „Ég fékk svakaleg viðbrögð þegar ég fór að gera flugeldasýningar. Í framhaldinu fór ég að velta fyrir mér af hverju við hrífumst svona mikið af ljósum á himninum,“ segir Sigríður Soffía og bendir á að mannfólkið deili hrifningu sinni á ljósum með öðrum dýrum. „Ef við ætl- um að drepa flugur setjum við upp fjólublátt ljós og allar flugurnar fljúga inn í ljósið og drep- ast. Ef þú vilt fá fullt af fólki niður að höfn þá er áhrifaríkast að skapa flugeldasýningu því þá komum við öll hlaupandi til að horfa á ljósin og hrífumst af þeim án þess að útskýra þurfi hlut- ina fyrir okkur. Á sama tíma mætir fólk á dans- sýningar og kvartar undan því að skilja ekki söguþráðinn. Mig langar svo að fólk geti notið dans á sama hátt og það nýtur flugeldasýn- ingar. Það þarf ekki að færa rök fyrir öllu. Stundum er bara nóg að undirmeðvitundin meðtaki hlutina og manni finnist eitthvað flott án þess að þurfa að útskýra af hverju,“ segir Sigríður Soffía og tekur fram að hún bindi vonir við að fólk þori að mæta. „Mér finnst að það ætti að vera jafn sjálf- sagður hlutur að fara á danssýningu og að skella sér í bíó, leikhús eða á tónleika. Sjálf hef ég markvisst í verkum mínum verið að stefna að því að opna þetta listform og gera sýningar sem áhorfendur eiga auðveldara með að tengj- ast. Því ég trúi því svo einlæglega að þeim sem sjái danssýningu muni finnast það svo æðislegt að þá langi til að koma aftur.“ Eitt lykilþema sýningarinnar sem frumsýnd verður á fimmtudag er fegurðin og mælanleiki hennar. „Sumir heimspekingar benda á að ef fegurð er mælanleg þá birtist hún í gullinsnið- inu og við erum með nokkra danskafla sem byggðir eru upp eftir því sniði. Aðrir benda á að fegurð er ekki einhver hlutur heldur tilfinning og sjálf aðhyllist ég þá skoðun. Fegurð er upp- lifun og þá skiptir minningabanki hvers og eins áhorfanda mestu máli. Ef hlutur hefur engin til- finningaleg áhrif á neinn þá getur hann ekki verið fallegur. Þannig býr fegurðin í auga sjá- andans,“ segir Sigríður Soffía og bendir sam- tímis á að fegurð geti ekki verið til nema í krafti ljótleikans. Bendir hún á að ein uppáhaldssena hennar í nýja verkinu sé ekki allra og myndi seint teljast falleg á klassískan mælikvarða. „Ef ég ætlaði mér að gera dansverk sem væri mjög fallegt allan tímann þá væri þessi sena ekki með, af því að hún stingur svo í stúf. En þetta er uppáhaldssenan mín,“ segir Sigríður Soffía og heldur áfram til útskýringar: „Í þessari senu læt ég dansarana standa alla í línu og hoppa og skjótast til, en með því er ég að líkja eftir skotplaninu á Faxaplani sem er hrikalega flókið talningaskotplan. Dansararnir telja upp að 79 og eru hver og einn með skýr fyrirmæli um hve- nær og hvernig viðkomandi á að hreyfa sig. Einn dansari er með 18 skot og fær að skjóta þremur skotum í einu með tveggja sekúndna millibili. Þegar skotin 18 eru búin þá er hann með tíu skot á einnar sekúndu fresti. Næsti dansari við hliðina er með 22 skot, tvö skot á tveggja sekúnda fresti áður en hann svissar yfir í lúppu af átta skotum á fimm sekúndna fresti. Það er ótrúlega skrýtið að horfa á þetta, því maður sér greinilega að þau eru að dansa eftir kerfi, en áttar sig ekki á því hvers vegna þau dansa í þessari hrynjandi.“ Að sögn Sigríðar Soffíu fannst henni mjög spennandi að sjá þá umbreytingu á verkinu sem varð þegar hún skipti ljósi út fyrir dansara. „Þegar dansari tekur stöðu ljóss þá verður allt um leið mjög dramatískt, ekki síst í samspili við tónlistina,“ segir Sigríður Soffía, en tónlistin kemur úr smiðju Jóhanns Jóhannssonar. Að auki flytja dansarar texta á ensku sem Sigríður Soffía samdi í samvinnu við Alexander Roberts, dramtúrg sýningarinnar, og dansarana, þau Aðalheiði Halldórsdóttur, Ásgeir Helga Magn- ússon, Cameron Corbet, Ellen Margréti Bæ- hrenz, Höllu Þórðardóttur, Hjördísi Lilju Örn- ólfsdóttur, Lovísu Ósk Gunnarsdóttur og Þyri Huld Árnadóttur. „Viðfangsefnið er svo stórt að mér fannst það kalla á texta. Mig langar til að áhorfendur kynnist heimi flugeldanna gegnum eitthvert form sem þeir þekkja. Hver einasti flugeldur hefur hreyfieiginleika, lit, form og karaktereinkenni. Að því leyti minnir hann á dansara í tilteknum búningi sem hreyfir sig með ákveðnum hætti. Allt er þetta hins vegar mjög abstrakt og til þess að gefa áhorfendum tækifæri til að skilja aðeins meira fannst mér textinn vera haldreipi,“ segir Sigríður Soffía og nefnir sem dæmi að Þyri dansi eldflaug sem á ensku nefnist „Red willow with thousands of horsetails“ [Rauður víðir með þúsund hesta- tögl] og hjá henni sé bogaformið mest áberandi. Fegurð og háski fer oft saman „Aðalheiður er „Dragon egg [Drekaegg], sem er sex tommu tívolíboma. Það þýðir að hún hefur mesta sprengikraftinn í hreyfingum. Ás- geir er „Silver willow with comet fish“ [Silfur- viður með halastjörnufiskum], en sá flugeldur er þannig að þegar hann hefur sprungið iða ljósakúlurnar eins og fiskar. Lovísa er „Purple three ring to packages of thousands crystals of blue“ [Fjólublár þríhringur sem verður að þús- und pökkum af bláum kristöllum] sem felur í sér að hún vinnur mikið með hringi,“ segir Sig- ríður Soffía sem finnst spennandi að skoða sam- spil fegurðar og hættu. „Það er svo merkilegt hvað fegurð og háski fer oft saman. Litskærustu og flottustu dýrin eru oftast þau hættulegustu. Flugeldar eru stórkostlega fallegir í fjarlægð, en þú mátt ekki koma við þá því þetta er bruni og efnahvarf. Þetta eru stórhættuleg sprengiefni, en ótrúlega falleg. Það sama gildir um dansinn, því hættu- legri sem hann er þeim mun fallegri verður hann.“ Aðspurð segist Sigríður Soffía ekki búin að leggja drög að því að sýningin fari út fyrir land- steinana, en viðurkennir að það væri gaman ef það væri hægt. „Það myndi hins vegar kalla á nokkra aðlögun, því fæstir sýningarstaðir er- lendis eru jafn tæknilega vel búnir og Borg- arleikhúsið. Ég var eins og barn í konfektbúð þegar ég sá hvaða tæknibúnaður stóð hér til boða.“ Skapar sín eigin starfstækifæri Fyrstu árin eftir útskrift úr dansnámi frá LHÍ starfaði Sigríður Soffía mest úti, en núna vill hún helst vinna á Íslandi. „Mér finnst svo margt spennandi vera að gerast hérna heima og langar til að leggja mitt af mörkum til að skapa listræna hringiðu. Mér finnst mikil synd að sjá þann landflótta listamanna sem átt hefur sér stað frá efnahagshruni sem rekja má til þess mikla niðurskurðar sem verið hefur í menning- armálum. Því samtímis er svo gríðarleg gróska í listum og menningu hérlendis – og ótrúlega mikill fjöldi listamanna miðað við höfðatölu sem eru að gera spennandi hluti,“ segir Sigríður Soffía og bendir á að sér finnist dapurlegt að listamenn þurfi iðulega að fara úr landi til að vinna verk sín. „Ég er sjálfstætt starfandi listamaður og fjármagna alla mína vinnu sjálf. Erlendis eru framleiðsluhús fyrir leikhús og dans, sem fjár- magna sýningar fyrir listamennina. Einnig er hægt að sækja um „residence“-starfsstyrk,“ segir Sigríður Soffía og útskýrir að styrkirnir feli í sér bæði húsnæði og laun til að vinna verk- efni gegn því að halda fyrirlestur og stutta sýn- ingu á afrakstrinum. „Með þessum hætti fá þeir sem veita styrkina ódýrar sýningar og stuðla um leið að grósku. Svona starfsstyrkir þekkjast alls staðar á Norðurlöndum og á meginlandinu, en ekki hér á Íslandi sem er miður. Kerfið úti hentar betur sjálfstætt starfandi listafólki og stuðlar að því að fólk geti haldist í greininni. Listamenn eru með sömu fjárhagsskyldur og venjulegt fólk. Þegar maður er búinn að stofna fjölskyldu og farinn að eignast börn, þá þarf maður að geta hugsað lengra fram í tímann. Eins og kom fram í nýlegri könnun sjálfstæðu leikhúsanna eru sjálfstæðir hópar með fjórðung allra áhorfenda þrátt fyrir að fá aðeins 8% af ætluðu fjármagni ríkisins til sviðslista. Það væri frábært ef meira fjármagn færi í þennan vax- andi sjálfstæða geira. Það mundi muna miklu ef úthlutun til sjálfstæðra hópa yrði hærri og út- hlutað væri tvisvar á ári í stað einu sinni. Það er þreytandi að vera stöðugt að réttlæta tilvist sína, því sama umræðan kemur á hverju ári þegar listamannalaunum er úthlutað,“ segir Sigríður Soffía og bendir á hversu harðduglegt fólk sjálfstætt starfandi listafólk sé. „Það skap- ar sín eigin starfstækifæri árið um kring auk þess að fjármagna verk sín. Þetta er ekki fólk á atvinnuleysisbótum heldur fólk sem vinnur sjálfstætt og skapar iðulega atvinnutækifæri fyrir aðra. Svo er talað um listamannalaun sem listamannabætur, en eins og Nýsköpunarsjóður Rannís veitir styrkir til sprotafyrirtækja þá eru þetta framleiðslustyrkir sem fara í tiltekið verkefni,“ segir Sigríður Soffía og rifjar upp að fyrir þann verkefnastyrk sem hún fékk fyrir Svartar fjaðrir hafi hún ráðið tæplega tuttugu manns til vinnu í tvo mánuði. Ekkert lengur óyfirstíganlegt Spurð hvort hún sé farin að leggja drög að næsta verkefni svarar Sigríður Soffía því ját- andi. „Ég stefni að því að næsta verkefni verði sólósýning sem ég ætla að semja fyrir sjálfa mig. Ég hef að undanförnu ekki fengið útrás fyrir það að dansa sjálf og er farin að hafa mikla þörf fyrir það. Ég er með hugmynd sem ég ætla að vinna með því listræna teymi sem unnið hef- ur tvær síðustu sýningar með mér. Ég er búin að umkringja mig með svo frábæru fólki, sem er mjög dýrmætt,“ segir Sigríður Soffía og vís- ar þar til búningahönnuðarins Hildar Yeoman og leikmyndahönnuðarins Helga Más Kristins- sonar. „Við erum með fullt af hugmyndum sem við höfum ekki náð að nota ennþá,“ segir Sigríð- ur Soffía og tekur fram að hún hafi í augnablik- inu mikla þörf fyrir að umkringja sig fólki sem trúir á listina. „Það er allt svo peningamiðað, sem þýðir að góðum hugmyndum er hafnað af því að þær eru of kostnaðarsamar eða ópraktískar eða fram- leiðandinn græðir ekki nógu mikið. En gróðinn er að einhver upplifir eitthvað frábært, eins og á t.d. við um flugeldasýninguna. Það er svo erf- itt að þurfa alltaf að réttlæta tilvist sína,“ segir Sigríður Soffía og rifjar upp að hún hafi fengið mikinn innblástur þegar hún sá innsetningu kínverska listamannsins Cai Guo-Qian í Guggenheim-listasafninu í Bilbao. „Hann skap- aði nokkurs konar óróa með bílum sem hann lét hengja upp í loft. Ég man að þegar ég sá verkið hugsaði ég, þvílíka vesenið fyrir þennan mann að fá að hengja upp bíla. Hvað ætli margir hafi sagt að það væri of dýrt eða hreinlega fáran- legt? Eftir þetta hef ég, ef einhver kvartar und- an því að eitthvað sé erfitt eða ógerlegt, haft sem viðkvæði að ég sé þó a.m.k ekki að biðja viðkomandi að hengja upp bíl. Eftir að hafa séð þetta verk finnst mér ekkert lengur óyfirstíg- anlegt. Ég vona að ég geti með verkum mínum veitt öðrum sambærilegan innblástur.“ „Ár stórra verka“  Íd frumsýnir Kafla 2: og himinninn kristallast á Stóra sviði Borgarleikhússins á fimmtudag Morgunblaðið/Árni Sæberg Dramatík „Fegurð er upplifun,“ segir danshöfundurinn Sigríður Soffía Níelsdóttir sem sér mikil líkindi milli flugelda og dansara. »Mig langar svo að fólk getinotið dans á sama hátt og það nýtur flugeldasýningar.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.